Áhrif náttúruhamfara á börn
Eva Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og lögreglukona, útskrifaðist 15. júní sl. sem meistari í áfallastjórnun.
Í lokaverkefni sínu rannsakaði hún langtímaáhrif náttúruhamfara á börn sem upplifðu eldgosið í Vestmannaeyjum í janúarmánuði 1973. Niðurstöður komu að mörgu leyti á óvart, en rannsóknin leiðir í ljós að fjórðungur þeirra hafi orðið fyrir ofbeldi eða einelti á lífsleiðinni.
Eva sat nýlega fyrir svörum í morgunþætti Bylgjunnar um niðurstöðurnar. Viðtalið er um margt afar áhugavert, ekki hvað síst vegna þess hversu beinar skírskotanir rannsóknin hefur til stöðu allra þeirra fjölskyldna frá Grindavík sem yfirstandandi eldsumbrot hafa bókstaflega rifið upp með rótum þaðan.
Eva segir að hún voni að rannsóknin geti komið að notum í tengslum afleiðingar Grindavíkureldanna og bendir jafnframt í því sambandi á að rannsóknin hennar verði aðeins fyrst af mörgum á þessu sviði. Mikilvægt sé að sýn samfélagsins á náttúruhamfarir verði bæði breiðari og dýpri með tilliti til áhrifa náttúruváar á börn.
Hún bendir jafnframt á, að við búum í landi þar sem náttúruhamfarir sé eðlilegur hluti af lífinu. Það sé því álíka mikilvægt að athygli og úrræði samfélagsins beinist ekki aðeins að björgun mannslífa heldur einnig að þeim stuðningi sem standi þeim til boða sem eigi um sárt að binda eftir návígi við óvægin náttúruöfl.
Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Evu Sveinsdóttur, Í bítinu, 18. júní sl.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta