15. desember 2022

Áhrif faraldursins á menningarstarfsemi

Stjórnendur menningarstofnana höfðu ekki síður áhyggjur af stöðu samningsaðila, s.s. sjálfstætt starfandi myndlistar- og tónlistarfólks, en afkomu vinnustaða sinna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á áhrifum COVID-19 á rekstur menningarstofnana hér á landi.

Á heildina litið stóðu stjórnendur frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku á flestum sviðum rekstrarins á meðan fyrstu bylgjur faraldursins gengu yfir.

Að rannsókninni standa dr. Njörður Sigurjónsson, prófessor, dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, dósent og Finnur Bjarnason, rannsakandi við Háskólann á Bifröst, en hún var gerð í kjölfarið á fyrstu bylgjum faraldursins árið 2020, áður en gripið var til bólusetninga.

Birtar hafa verið tvær áhugaverðar greinar um rannsóknina, önnur í Nordisk kulturpolitisk tidsskrift (The Business of Culture: Cultural Managers in Iceland and the first waves of the Pandemic | Nordisk kulturpolitisk tidsskrift (idunn.no)), en hin í Journal of Cultural Management and Cultural Policy (The Effect of COVID-19 on Cultural Funding and Policy in Iceland | Journal of Cultural Management and Cultural Policy (jcmcp.org)).

Rannsóknin náði til bæði yfirstjórnenda og millistjórnenda. Um stjórnendur ólíkra skipulagsheilda í menningarstarfsemi var að ræða og spannaði þýðið allt frá litlum einkareknum galleríum og tónleikasölum að stórum opinberum söfnum og stofnunum.

Rannsóknin leiðir enn fremur  í ljós að þrátt fyrir að einungis 16% stofnana hafi gripið til uppsagna á starfsfólki og að einungis þriðjungur þeirra hafi hlotið stuðning frá því opinbera, þá neyddust 75% þeirra til að fresta eða aflýsa viðburðum eða samstarfsverkefnum. Jafnframt taldi mikill meirihluti aðspurðra eða 93% að faraldurinn hefði haft áhrif á rekstur stofnunar sinnar.

Sem viðbragð við þessari stöðu ákváðu íslensk stjórnvöld að veita opinberan stuðning á breiðum grunni, sem gerir að verkum að aðstoð vegna COVID nær til fleiri aðila en þeirra sem falla undir hefðbundna menningar- og safnastarfsemi.