Áfangastaðurinn Ísland og fjölbreytt efnisval heillar 17. ágúst 2018

Áfangastaðurinn Ísland og fjölbreytt efnisval heillar

Alþjóðlegi sumarskólinn var haldinn í þriðja sinn nú í sumar við Háskólann á Bifröst undir yfirskriftinni Skapandi forysta á 21. öldinni. Tilgangur skólans er að undirbúa og þjálfa leiðtoga framtíðarinnar undir þær áskoranir sem þeirra bíða í sífellt meira krefjandi heimi.

„Í ár má segja að dagskráin hafi verið stjörnuprýdd en til okkar komu átta vel þekktir gestafyrirlesrar og prófessorar frá Bandaríkjunum, Ítalíu, Frakklandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Austurríki. Fyrirlestrarnir heppnuðust virkilega vel og á dagskránni voru margar nýjungar frá því í fyrra. Eins fannst mér standa upp úr heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir þar sem þegar eru nýttar þær nýstárlegu forystuaðferðir sem eru kenndar í Alþjóðlega sumarskólanum. Ég held að það hafi haft virkileg áhrif á nemendur að sjá þessum aðferðum beitt í raun og veru á árangursríkan hátt bæði hvað varðar hagnað, litla starfsmannaveltu og sjálfbærni,“ segir Karl Eiríksson alþjóðafulltrúi Háskólans á Bifröst.

Líkt og fyrri ár kom ánægjukönnun um námskeiðið vel út. Þar kom m.a. fram að nemendur sögðu námskeiðið hafa staðið undir væntingum, þeir myndu mæla með því við aðra og íhuga að sækja námskeiðið aftur. Eins að skipulagning hafi verið mjög góð bæði hvað varðar fyrirlestra og vettvangsferðir.

Ísland efst á óskalistanum

Í sumarskólanum voru kynntar fyrir þátttakendum nýjustu hugmyndir um forystu með tilheyrandi hagnýtri þjálfun. Sóttu nemendur fjölbreytta fyrirlestra í leiðtogafræðum m.a. er varðar sjálfbærni og þjónandi forystu. Líkt og fyrri ár var námsfyrirkomulag með þeim hætti að tvinnað var saman fyrirlestrum og umræðutímum við heimsóknir í fyrirtæki og vettvangsferðir. Heimsótti hópurinn m.a. Samskip, Friðheima og Hellisheiðarvirkjun. Einnig var farið til veiða á Grundarfirði og náttúruperlur í grennd við Bifröst skoðaðar.

„Það sýndi sig í smá könnun sem gerð var á námskeiðinu að meirihuti nemenda langaði til að heimsækja Ísland og skólinn var mjög gott tækifæri til þess. Almennur heimsáhugi á Íslandi reynist okkur því vel og eins að efnisvalið er fjölbreytt,“ segir Karl og bætir við að líkt og fyrri ár hafi myndast góð stemning í hópnum.

Alls sóttu 25 nemendur frá 14 löndum námskeiðið og þar af 10 nemendur frá N-Ameríku sem Karl segir ákveðinn sigur endi eigi háskólinn ekki samstarfsaðila þar. Líkt og fyrri ár var meðalaldur nemenda  24 ár og um helmingur þeirra úr viðskiptafræði en aðrir með mjög ólíkan og breiðan bakgrunn.

Karl segir Alþjóðlega sumarskólann muni halda áfram að vaxa og eflast enn frekar en alþjóðasvið hefur nú fengið til liðs við sig sérfræðing frá Fullbright samtökunum til að þróa námskeiðið enn frekar. Þá hafi sumarskólinn skilað hagnaði í fyrsta sinn í ár og sé því verðmæt viðbót við annað starf Háskólans á Bifröst.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta