Af tilvistarógn og fordómum
Um tilvistarógn, fordóma og Háskólann á Bifröst er titill greinar á Vísi eftir Magnús Árna Skjöld Magnússon, dósent við félagsvísindadeild, ritar í tilefni af þeirri umræðu sem sprottið hefur upp um mögulega sameiningu HA og HB.
Í greininni rekur Magnús sögu Háskólans á Bifröst út frá þeirri sérstöðu sem hann hefur skipað allt frá stofnun og þeim fordómum sem það hefur kallað yfir skólann í gegnum tíðina - að opna almennu fólki leið til menntunar og áhrifa í samfélaginu. Með því vildi Jónas frá Hriflu, sem lagði grunn að háskólanum með stofnun Samvinnuskólans árið 1918, brjóta á bak aftur einokunarstöðu efstu samfélagslaganna innan menntakerfisins.
Á þessari arfleifð byggir Háskólinn á Bifröst enn, segir Magnús, með því að veita öllum aðgang að gæðaháskólamenntun óháð búsetu, aldri eða atvinnuþátttöku, svo að dæmi séu nefnd. Og enn hlýtur HB bágt fyrir með því m.a. að vera líkt við bréfaskóla, enda þótt við háskólann starfi hátt í 60 rannsakendur, þar af sjö dósentar og níu prófessorar og þrátt fyrir að standast með láði allar gæðakröfur sem gerðar eru til starfandi háskóla í Evrópu.
Þá deilir Magnús ekki að öllu leyti áhyggjum þeirra sem starfa við HA af mögulegri sameiningu.
„Akureyri er ... öflugt þéttbýli og ég vil leyfa mér að kalla hana borg, þó ekki sé ennþá búið að viðurkenna þá stöðu hennar á viðeigandi stöðum. Hún er engu að síður “hin borgin” á Íslandi með allt það sem gott borgarsvæði hefur upp á að bjóða. Öflugt atvinnulíf, góða skóla á öllum skólastigum, kröftugt íþrótta- og menningarlíf, fallegt borgarlandslag og óviðjafnanlega náttúru. Ég vil halda því fram að líklegra væri að akademískt starfsfólk á Bifröst myndi “sogast norður”, en öfugt, en það er auðvitað bara mín skoðun.“
Þá hljóti það að mæla með því allir möguleikar séu grandskoðaðir, að með sameiningu verði til nýr og öflugri háskóli með fleira fræðafólki og rannsakendum á fjölbreyttari sviðum við mögulega annan stærsta háskóla landsins.
„Háskólastofnun með höfuðstöðvar og meginhluta síns akademíska starfs utan höfuðborgarsvæðisins, nánar tiltekið á Akureyri. Margar af námsbrautum þessara tveggja skóla tala sérlega vel saman. Dæmi um slíkt er lögreglunámið á Akureyri og meistaranámið í áfallastjórnun á Bifröst, sem og fyrirhuguð námslína á Bifröst í öryggisfræði. Bifröst kæmi líka með nýja vídd inn í námið á Akureyri, sem snýr að menningarstjórnun og skapandi greinum, en ófáir stjórnendur íslenskra menningarstofnana hafa meistaragráðuna í menningarstjórnun frá Bifröst og má segja að hún sé nánast orðin de rigueur þegar stjórnendastörf í menningargeiranum eru auglýst. Einnig veit ég að sérstaða Háskólans á Akureyri í norðurslóðamálum er eitthvað sem myndi teiknast vel inn í það sem við á Bifröst erum að gera í öllum deildum.“
Aðalatriðið á þessu stigi máls sé þó að umræðan fái að þroskast og starfsfólk beggja háskóla að kynnast.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta