Aðstæður góðar á Bifröst
Senn styttist í komu flóttafólksins frá Úkraínu, en gert er ráð fyrir að þau fyrstu komi á Bifröst upp úr næstu helgi eða um og upp úr 4. apríl.
Aðstaðan á Bifröst er talin falla vel að þörfum verkefnisins sem fyrsti viðkomustaður flóttafólksins hér á landi, en konur og börn eru sem kunnugt er í meirihluta þeirra sem flýja nú Úkraínu.
Auk húsnæðis, leikskóla og kennsluhúsnæðis er leikvöllur, íþróttaaðstaða og samkomurými, svo að dæmi séu nefnd um þá aðstöðu sem flóttafólkinu stendur til boða á Bifröst. Þá hentar Bifröst jafnframt stærri hópnum en flóttafólkið hafði lagt fram óskir þess efnis að fá að halda hópinn fyrst um sinn, væri það mögulegt.
Þá liggur fyrir sú ákvörðun hjá Borgarbyggð að bæta í almenningssamgöngur við Bifröst á meðan dvöl flóttafólksins stendur yfir. Af öðrum samgöngulausnum sem verið er að skoða má nefna aðgang að zip bílum og bílaleigum, enda munu íbúar sækja ýmsa nærþjónustu til Borgarness.
Mikilvægt var talið að flýta sem kostur var fyrir komu flóttafólksins til landsins hefur aðstaða á Bifröst verið talin henta vel sem fyrsti viðkomustaðurinn, á meðan verið er að greiða götu fólksins varðandi lengri dvöl.
„Það er ánægjulegt að aðstaða hér á Bifröst geti nýst flóttafólki frá Úkraínu tímabundið. Mikilvægt var að hópurinn kæmist til landsins sem fyrst og brúa bilið þar til staða flóttafólksins hefur skýrst, s.s. með tilliti til gangs stríðsins í Úkraínu og hvort um lengri dvöl verður að ræða hér á landi. Í millitíðinni myndar Bifröst vonandi þá umgjörð friðsældar, kærleika og náttúrufegurðar sem okkur langar að skapa fólki á flótta undan stríðsátökum,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta