Séð yfir kampusinn á Bifröst. Á forsíðumynd fréttarinnar er Jónas frá Hriflu við útskrift frá Samvinnuskólanum.

Séð yfir kampusinn á Bifröst. Á forsíðumynd fréttarinnar er Jónas frá Hriflu við útskrift frá Samvinnuskólanum.

1. desember 2023

Ábyrgð, samvinna og frumkvæði í 105 ár

Þann 3. desember fagnar Háskólinn á Bifröst 105 ára starfsafmæli. Drög að setningu skólans höfðu verið gerð í ágúst það ár, en seinka þurfti skólasetningunni vegna spænsku veikinnar sem þá geisaði.

Einn helsti hvatamaður að stofnun skólans var Jónas Jónsson frá Hriflu, sem varð þegar lengra leið á 20. öldina, einn umdeildasti stjórnmálamaður sinnar samtíðar. Jónas var eldheitur samvinnumaður, einn að stofnendum Framsóknaflokksins og stórvirkur dómsmála- og menntamálaráðherra á árunum 1927 til 1931.

Samvinnuskólann setti Jónas á fót árið 1918 í samstarfi við Samband íslenskra samvinnufélaga og tók skólinn til starfa, en sökum spænsku veikinnar, sem geisaði þá í Reykjavík með verulegu manntjóni, var ekki unnt að hefja kennslu fyrr en í desemberbyrjun. Jónas var síðan um langt árabil skólastjóri Samvinnuskólans, sem var jafnframt leiðtogaskóli samvinnuhreyfingarinnar og mótaður að fyrirmynd Ruskin College í Oxford  þar sem Jónas hafði sjálfur verið við nám um skeið.

Þess má svo geta Jónas kom fjölda skóla á fót í ráðherratíð sinni, þar á meðal Menntaskólann á Akureyri og Héraðsskólann á Laugum (síðar Menntaskólinn á Laugum) svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Árið 1955 fluttist Samvinnuskólinn svo á Bifröst í Norðurárdal þar sem skólinn óx og dafnaði í takti við menntaþarfir þjóðarinnar. Árið 1995 voru þannig fyrstu nemendurnir með BS gráðu útskrifaðir og árið 1999 útskrifuðust fyrstu nemendurnir úr fjarnámi. Árið 2003 hófst kennsla á meistarastigi og þremur árum síðar eða 2006 var nafni skólans breytt úr Viðskiptaháskólanum á Bifröst í Háskólann á Bifröst.

Eins og sjá má hefur háskólinn stakkaskiptum, allt eftir framþróun menntakerfisins og vaxið frá framhaldsskólastiginu og upp á háskólastig.

Sömu grunngildin um samvinnu, frumkvæði og ábyrgð liggja þó eins rauður þráður um þau 105 ár sem skólinn á að baki. Það meginmarkmið hans sem menntastofnunar stendur jafnframt eftir óhaggað, að mennta fólk til áhrifa og ábyrgðar í samfélaginu.

Og enn stendur Háskólinn á Bifröst á tímamótum, nú eini fjarháskóli landsins án staðsetningar.

Framtíðin mun svo leiða í ljós hvernig hvernig næsta stórafmælis verður minnst, en sem kunnugt er á Háskólinn á Bifröst aðild að fýsileikaviðræðum vegna mögulegrar sameiningar við Háskólann á Akureyri.

Svo skemmtilega vill jafnframt til að við þetta samningaborð mætast háskólar sem rekja sögu sína til Jónasar frá Hriflu, reyndar með sínu mótinu hvor. Hvað Háskólann á Akureyri varðar, sem er settur á fót löngu eftir að dagar Jónasar voru taldir, má benda á þýðingu þess fyrir tilurð hans árið 1987, að á Akureyri hafði þá starfað menntaskóli um áratuga skeið.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta