95% mæla með Háskólanum á Bifröst 24. nóvember 2023

95% mæla með Háskólanum á Bifröst

Samkvæmt nýrri könnun, sem náði til nemenda sem brautskráðust frá Háskólanum á Bifröst í september 2021 og febrúar 2022, mæla 95% þeirra með námi við Háskólann á Bifröst. Þá reyndust um 60% hafa fengið aukna ábyrgð í starfi og launhækkun að námi loknu. 

Eins og fram hefur komið í fyrri útskriftarkönnunum fara flestir sem ljúka námi við HB að vinna hjá fyrirtækjum á almenna vinnumarkaðnum eða um 61%, en til samanburðar má nefna að einungis 17% af þeim sem sem tóku þátt í könnuninni starfa hjá ríkinu.

Þess má svo geta að þetta hlutfall hefur farið hækkandi, en af þeim sem útskrifuðust á árinu 2020 unnu 42% á almenna vinnumarkaðnum og 53% af þeim sem luku námi 2021. 

Þá staðfestir könnunin, líkt og aðrar útskriftakannanir á vegum HB, að fjarnám gefur fólki á landsbyggðinni raunverulegt búsetuval, bæði meðan á námi stendur og að útskrift lokinni. Á heildina litið eru að jafnaði um 40% nemenda búsettir utan höfuðborgarsvæðisins, fyrir og eftir útskrift.

Meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnuninni er jafnframt að fást við áhugaverðari verkefni í starfi að námi loknu eða um 60%. Þá voru einungis 2% þeirra sem svöruðu að takast á við atvinnuleysi, á því tímabili sem könnunin fór fram. 

Aðspurðir um hvað þeir væru ánægðastir með á námstímanum, nefndu nemendur fjarnámið, þ.e. að eiga þess kost að vera í fjarnámi, námsskipulagið og góða kennslu. Ítrekað er þó tekið fram að efla þurfi ímynd skólans, að auka megi vitund um þann góða námskost sem býðst við Háskólann á Bifröst.

Könnunin var unnin í október sl. Svarshlutfall var 43%.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta