2. september 2015

37 milljónir í ESB styrk fyrir starfsmenntun í ferðaþjónustu

Þann 1. september, hófst formlega tveggja ára evrópskt verkefni sem miðar að endurbótum í starfsmenntun í ferðaþjónustu. Erasmus+, starfsmenntaáætlun ESB, styrkir verkefnið um 36,9 milljónir króna. Rannsóknasetur verslunarinnar og Háskólinn á Bifröst stýra verkefninu, en auk íslenskra þátttakenda taka þátt aðilar frá Ítalíu, Austurríki og Finnlandi. Samtök ferðaþjónustunnar er einnig aðili að verkefninu.

Myndin er tekin við afhendingu samnings.

Verkefnið snýst um að koma á laggirnar námi fyrir starfsþjálfa sem sérhæfa sig í þjálfun starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja. Með því er ætlað að koma til móts við mikla þörf fyrir aukin gæði í starfsmenntun þeirra sem sinna ferðaþjónustu bæði hér á landi og í hinum þátttökulöndunum. Annars vegar verður um að ræða yfirfærslu á milli landa á þeirri reynslu sem fyrir er í hverju þátttökulandi og hins vegar verður beitt skilvirkri aðferðafræði sem til er við þjálfun í fullorðins fólks á vinnumarkaði. Náminu er ætlað að veita þátttakendum hæfni í að þjálfa nýja starfsmenn á sínum vinnustað auk endurmenntunar þeirra sem fyrir eru.

Þó ekki verði um að ræða löggilt starfsnám líkt og á sér stað í iðngreinum, má samt að nokkru leyti líkja þessu nýja námi við meistarakerfi iðngreina þar sem meistarar í iðngreinum taka að sér uppfræðslu og  þjálfun nema í viðkomandi iðngrein. 

Íslenskt heiti verkefnisins er Fagmenntun starfsþjálfa í ferðaþjónustu. Erlent heiti þess er Tourism training the trainers (TTRAIN).

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta