6. júlí 2015

10% aukning í grunnnám á Bifröst

Talsverð fjölgun umsókna var í grunnnám Háskólans á Bifröst en umsóknarfrestur rann út um miðjan síðasta mánuð. Nemendum sem sækja um háskólanám á Bifröst hefur fjölgað á hverju ári undanfarin tvö ár. Fjölgunin núna er mest í viðskiptalögfræði en sú nýbreytni verður tekin upp á komandi skólaári að boðið verður upp á viðskiptalögfræði í fjarnámi og einnig sem sérstök námsbraut með vinnu. Einnig hefja tvær nýjar námsbrautir á félagsvísindasviði göngu sína í haust, þ.e. BA í byltingafræði og BA í miðlun og almannatengslum sem fengu góðar viðtökur.

Umsóknartölur í meistaranám voru mjög góðar og eftirspurn eftir framhaldsnámi á sviði viðskipta og stjórnunar er mikil. Að þessu sinni voru flestar umsóknir í MS í forystu og stjórnun sem hóf göngu sína haustið 2014 og hlaut þá strax gríðarlega góðar móttökur og höfðu aldrei fleiri skráð sig í meistaranám á einu skólaári. MA í menningarstjórnun var með næstflestar umsóknir en sú námsbraut er að hefja sitt ellefta starfsár við Háskólann á Bifröst.

Auk fjölgunar umsókna er bakgrunnur nemenda einnig sterkari en á undanförnum árum og eru nemendur með betri einkunnir og grunn úr framhaldsskólum að sækja um háskólanám á Bifröst. „Sókn Háskólans á Bifröst heldur áfram,“ segir Vilhjálmur Eigilsson, rektor Háskólans á Bifröst. „Við erum ánægð með umsóknirnar og okkur virðist sem svo að umsækjendur séu nú með betri bakgrunn en áður. Við hlökkum því til skólastarfsins næsta vetur.“

Myndarlegt háskólaþorp á Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður nemendum upp á fjölmargar námsbrautir í grunn- og meistaranámi á sviði viðskipta, lögfræði, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, bæði í fjarámi og staðnámi en í dag hefur risið myndarlegt háskólaþorp á Bifröst og íbúar þess um 400 talsins. Við skólann er einnig boðið uppá aðfararnám sem og fjölbreytt námsúrval á sviði símenntunar eins og diplóma í verslunarstjórnun, stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu og máttur kvenna.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta