Bifrestingar stjórnendur hjá Símanum
Þau Berglind Björg Harðadóttir og Fannar Eðvaldsson eru útskrifaðir Bifrestingar og starfa sem millistjórnendur hjá Símanum. Þau eru hér í stuttu viðtali um námið á Bifröst og hvernig það hefur nýst þeim úti í atvinnulífinu.
„Ég útskrifaðist úr viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst í febrúar 2010,“ segir Berglind Björg Harðardóttir, deildarstjóri söluráðgjafar hjá Símanum.
Af hverju valdir þú Háskólann á Bifröst?
„Bifröst veitti mér tækifæri sem ég greip. Ég hafði ekki klárað stúdentspróf og hóf því nám í frumgreinadeild, sem kallast nú Háskólagátt, haustið 2006. Upphaflega ætlaði ég mér aðeins að vera í eitt ár á Bifröst. Kennsluhættirnir á Bifröst hentuðum mér mjög vel. Kennararnir leggja mikið upp úr að nemendur taki virkan þátt í kennslunni, hópavinna er mikil sem eflir tengslanetið og þekkinguna og við fengum við góða leiðsögn í framsögu og tjáningu. Eftir árið í frumgreinardeildinni kom ekkert annað til greina en að hefja nám í viðskiptafræði við skólann.“
Hvað starfar þú í dag og hvernig kom það til?
„Um leið og ég útskrifaðist frá Bifröst hóf ég störf hjá Vátryggingarfélaginu Verði og var þar í tvö ár. Ég skrifaði meðal annars BS ritgerðina mína fyrir þá sem fjallaði um þjónustugæði. Það var svo fyrir þremur árum sem ég sótti um stjórnunarstarf hjá Símanum og starfa ég sem deildarstjóri yfir söluráðgjöf hjá Símanum sem telur um 50 starfsmenn.“
Hvernig hefur viðskiptafræðinámið frá Bifröst nýst þér í núverandi starfi?
„Reynslan sem ég öðlaðist á Bifröst við að leysa raunhæf verkefni hefur fylgt mér eftir í starfi og nýst mér afar vel. Af verkefnavinnunni lærði ég að tileinka mér öguð vinnubrögð og tölfræðin hefur einfaldað mér mjög utanumhaldið í núverandi starfi. En eitt af því sem ég met þó mest er hvernig við nemendurnir lærðum að temja okkur gagnrýna hugsun. Sú reynsla hefur hjálpað mér að takast á við erfið og krefjandi verkefni sem stjórnandi.“
Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?
„Samstaða nemenda – Þar sem allir vinna að sama markmiðinu,“ nefnir Berglind sem eitt af því sem upp úr stendur frá námi sínu á Bifröst. „Árin á Bifröst munu aldrei gleymast, þar eignaðist ég góða vini og þekkingu sem gaf mér tækifæri til að eflast á vinnumarkaði og öðlast þá reynslu sem ég sóttist eftir. Hópverkefnin á hverju misseri munu alltaf fylgja mér, enda geta nemendur á Bifröst gengið stoltir frá verkum sínum þar vitandi að þau hafa bætt á reynslubanka þeirra.“
Eitthvað að lokum?
„Á Bifröst búa allir á sama stað og stefna að því saman. Samhugurinn er mikill og bæði nemendur og kennarar hjálpa þér áfram. Þú finnur svo vel fyrir því að framlag þitt skiptir máli. Þú stendur ekki ein með verkið í fanginu. Með því að búa á sama stað er áreitið af öðrum hlutverkum minna og því auðveldara að halda fókus og ná markmiðum sínum. Þetta er tími sem mótar lífið til frambúðar.“
„Ég útskrifaðist 6. febrúar 2010 úr viðskiptafræði,“ segir Fannar Eðvaldsson, deildarstjóri tæknilegrar aðstoðar hjá Símanum.
Af hverju valdir þú Háskólann á Bifröst?
„Fjölmargir þættir spiluðu inní þá ákvörðun,“ segir Fannar. „Systir mín stundaði nám þar og talaði vel um námið og lífið á Bifröst. Þá hafði það áhrif á valið að leigan var sanngjörn miðað við það sem var í gangi. Ég hafði heyrt af skipulagningu námsins sem heillaði mig mikið en aðhald með verkefnaskilum og mikil hópavinna var eitthvað sem ég þurfti á að halda á þessum tíma.“
Hvað starfar þú í dag og hvernig kom það til?
„Ég sótti um starf sem sérfræðingur hjá Símanum árið 2013. Þegar ég fékk starfið þá hugsaði ég að fyrst ég væri kominn inn hjá svona stóru og flottu fyrirtæki ætti ég að stefna hærra. Það varð að veruleika eftir rúmlega ár hjá Símanum þegar mér var boðin staðan deildarstjóra í tæknilegri aðstoð Símans. Það var nokkuð stórt stökk að fara úr sérfræðingsstöðu yfir í að stjórna deild með um 50 starfsmönnum, en undirbúningurinn í náminu á Bifröst var góður og stökkið því öruggara en ella.“
Hvernig hefur viðskiptafræðinámið frá Bifröst nýst þér í núverandi starfi?
„Í fyrra starfi mínu hjá Símanum nýttist námið mér mjög vel því ég var mikið í stjórn- og úthlutun verkefna. Þá tengdust þættir sem við nemendur höfðum tileinkað okkur í náminu til dæmis allri vinnu á tölvu, eins og við verkefnaúthlutun, Excel og aðrar skýrslugerðir,“ segir Fannar. „Í núverandi starfi er ég meira á fundum þar sem ég þarf að taka ábyrgð á verkefnum og oft á tíðum mörgum verkefnum í einu. Á Bifröst vinna nemendur oft mörg verkefni á stuttum tíma með fólki sem bæði er líkt sem og mjög ólíkt þeim sjálfum. Ég lærði því að virða skoðanir annarra sem og að fá aðra til að virða skoðanir mínar. Þessi hópavinna og tíð verkefnaskil hjálpa klárlega til í dag. Það er lítill munur á því að eiga við fólk í verkefnum tengdum skólanum eða fólk sem starfar með manni. Þekkingin frá Bifröst hefur því nýst mér vel í starfi mínu hjá Símanum.“
Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?
„Hópavinnan, misserisverkefnin, félagslífið, sumarannirnar og svo skiptinámið sem ég kaus að fara í til Kína á miðjum námstímanum. Allt var þetta frábært.“
Eitthvað að lokum?
„Ég mæli eindregið með viðskiptafræðinni. Á Bifröst fékk ég góða kennslu og mikla reynslu sem nýtist mér í dag. Stefnan er alltaf sett á meistaranám á Bifröst. Hvenær það verður ekki komið á hreint. Takk fyrir mig Bifröst.“
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta