Innheimta skólagjalda


Háskólinn á Bifröst innheimtir skóla- og innritunargjöld samkvæmt þeim reglum sem hér fara á eftir:


1. gr.
Almennt

Skólagjöld eru ákvörðuð af stjórn skólans samkvæmt gr. 5.3 í skipulagsskrá skólans.

Í reglum þessum merkir námskeið allt það nám sem gefur einingar við skólann svo sem námskeið, ritgerðir, misserisverkefni, starfsnám, skiptinám o.fl.

2. gr.
Háskólagátt

Í Háskólagátt er innheimt innritunargjald á hvora önn.  Gjald þetta er óendurkræft og flyst ekki milli skólaára. Nemandi hefur rétt til þess að stunda fullt nám sem og hluta úr námi í háskólagátt við Háskólann á Bifröst fyrir greiðslu innritunargjalds. Við samþykkt á umsókn í háskólagátt er send út krafa fyrir innritunargjaldi haustannar þar sem eindagi er þremur vikum frá gjalddaga sem jafnframt er útgáfudagur reiknings en þó ekki skemur en 10 dögum áður en námið hefst. Við greiðslu innritunargjaldsins er nemandi innritaður og fær við það aðgang að kennslukerfum skólans. Innritunargjald vorannar er innheimt fyrir upphaf annarinnar.

3. gr.
Grunnnám

Í grunnnámi við félagsvísinda-, laga- og viðskiptadeild eru innheimt skólagjöld ákvörðuð eftir fjórum þrepum.

Nemandi er ábyrgur fyrir skráningu í námskeið og skal hann hafa lokið skráningu fyrir þann frest sem kennslustjóri setur. Reikningur vegna skólagjalda er sendur út eigi síðar en fyrsta virka dag eftir að frestur til úrsagnar úr námskeiðum er liðinn . Eindagi er 10 dögum frá útgáfudegi reiknings.

Nemendur hafa möguleika á að skrá sig úr námskeiðum til og með miðvikudags í annarri viku á haust, vor og sumarönn. Ef nemandi skráir sig úr námskeiði eftir þann tíma hefur hann fyrirgert rétt sínum til lækkunar á skólagjöldum. Ef nemandi eykur við sig einingar, þannig að hann hækki um þrep, eftir að nám er hafið er gefinn út aukareikningur ef einingafjöldi fer á milli þrepa. Eindagi á aukareikningi skal vera 10 dögum eftir útgáfu reiknings.

Nemandi ber ábyrgð á sinni námsframvindu sem og skráningu í námskeið. Nemandi sem skráir sig í lokaritgerð og nær ekki að skila ritgerð á þeirri önn sem hann skráði sig fyrir verður að skrá sig aftur í ritgerð á þeirri önn sem hann ætlar að skila ritgerð og greiða fyrir þær einingar sem hann er skráður í á hverri önn. Ef mat leiðbeinanda er að nemandi standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til lokaritgerða getur hann sótt um að nemandi fresti skilum  fram á næstu önn. Þegar sótt er um slíkan frest þarf nemandi ekki að greiða aftur fyrir ritgerð sem hann hefur þegar greitt fyrir. Einingar vegna allra námskeiða sem og ritgerða er óheimilt að færa á milli anna.

4. gr.
Meistaranám

Skólagjöld í meistaranámi miðast við einingafjölda sem nemandi skráir sig í við upphaf annar. Skólagjöld taka mið af hverri þreyttri ECTS einingu.

Nemandi er ábyrgur fyrir skráningu í námskeið og skal hann hafa lokið skráningu fyrir þann frest sem kennslustjóri setur.

Reikningur vegna skólagjalda er sendur út eigi síðar en fyrsta virka dag eftir að frestur til úrsagnar úr námskeiðum er liðinn. Eindagi er 10 dögum frá útgáfudegi reiknings.

Nemandi þarf að hafa sagt sig úr námskeiðum innan þess frests sem kennslustjóri setur á hverri önn, að öðrum kosti þarf að greiða full skólagjöld fyrir þau námskeið.

Greidd skólagjöld vegna lokaritgerða gilda í 3 ár frá útgáfudegi reiknings. Eftir það fellur inneignin niður og verður nemandi að greiða að nýju fyrir óloknar einingar vegna lokaritgerða.

5. gr.
Úrbótapróf

Innheimt er gjald fyrir hvert úrbótapróf og skal það greitt minnst 2 virkum dögum fyrir áætlaðan prófadag að öðrum kosti hefur nemandi ekki heimild til að taka próf.

6. gr.
Staðfestingargjöld

Við samþykkt á umsókn í grunn- og meistaranám þarf nemandi að greiða staðfestingargjald til að innritast í skólann. Staðfestingargjaldið dregst frá skólagjöldum fyrstu annar. Staðfestingargjaldið er óendurkræft en nemandi getur nýtt það í tvö ár til lækkunar á greiðslu skólagjalda. Eindagi staðfestingargjalds er þremur vikum frá útgáfudegi reiknings. Eindagi er þó eigi síðar en 10 dögum áður en áætlað er að nám hefjist.

7. gr.
Innheimta

Kröfur sem eru greiddar eftir eindaga bera dráttarvexti frá gjalddaga fram að greiðsludegi. Innheimtviðvörun vegna ógreiddra reikninga skal senda út 15 dögum eftir eindaga og leggst þá álag á kröfuna. Um 15 dögum eftir eindaga er send út aðvörun á nemendur sem ekki hafa greitt skólagjöld og þeim gefin kostur á greiðslu áður en kemur til lokunar á kennslukerfi skólans. Ef nemandi greiðir ekki ógreidd skólagjöld eða semur um greiðslur þeirra, skal loka fyrir aðgang hans að kennslukerfi skólans.

Um 20 dögum eftir eindaga eru kröfur í vanskilum sendar í milliinnheimtu og fylgja því ferli sem er hjá því milliinnheimtufyrirtæki sem skólinn á í viðskiptum við á hverjum tíma.  Ef milliinnheimta reynist árangurslaus er krafan send í lögfræðilega innheimtu.

Nemandi getur ekki útskrifast frá skólanum nema að hann hafi greitt að fullu skólagjöld og aðrar skuldir við skólann minnst 7 dögum fyrir útskrift.

8. gr.
Undanþágur vegna veikinda.

Heimilt er að veita undanþágu vegna úrskráninga úr námskeiðum sem fram koma í 4. mgr. 3.gr. og 4. mgr. 4. gr. þessara reglna.  Undanþágur eru eingöngu veittar vegna alvarlegra veikinda.  Nemandi þarf að skila inn læknisvottorði og greinargerð þar sem fram koma ástæður þess að nemandi geti ekki stundað fyrirhugað nám vegna veikinda.

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu meta saman hvort ástæða sé að fella niður skólagjöld hjá nemendum vegna alvarlegra veikinda.  Skrá skal niðurstöðu slíks mats í nemendaskráningarkerfi skólans.

9. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af rektor Háskólans á Bifröst í umboði stjórnar skólans.

Reglur þessar gilda frá og með haustönn 2014