Fornámskeið

Grunnnám

Fornámskeið í stærðfræði í grunnnámi

Námskeiðið er sérlega hentugur undirbúningur fyrir þá sem hafa tekið sér hlé frá námi og þurfa að skerpa á þekkingu sinni, sem og þá sem eru að hefja háskólanám í fyrsta sinn. 

Fornámskeiðið í stærðfræði er sniðið að þörfum nemenda sem eru að hefja grunnnám við Háskólann á Bifröst. Rifjaður verður upp grunnur í stærðfræði úr menntaskóla og byggt á honum til að undirbúa nemendur fyrir helstu reikningsaðgerðir sem þeir mega vænta að þurfa takast á við í náminu.  

Byrjað verður á snöggri yfirferð yfir helstu reglur og aðferðir sem stærðfræðin byggir á, áður en haldið verður í viðskipta- og hagfræðitengd viðfangsefni í takt við áherslur námsins. Þá verður farið yfir uppsetningu stærðfræði verkefna í Microsoft Word og notkun forritsins GeoGebra við úrlausn verkefna. 

Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur (9.-22. ágúst) og fer alfarið fram í formi rafrænna fyrirlestra. Tvö valkvæð verkefni verða lögð fyrir á námskeiðinu og munu nemendur hljóta endurgjöf á þau sem ætti að styrkja stöðu þeirra í upphafi annar. Þá bjóðast nemendum enn frekar tveir fyrirspurnartímar á Microsoft Teams þar sem þeim gefst kostur að leita aðstoðar kennara með hvers konar vandamál. 

Fornámskeiðið í stærðfræði kostar 19.990 kr og er skráningarfrestur til 6. ágúst.  

Skráning fer fram í gegnum umsóknarvef skólans. Nemendur skrá sig inn með umsóknaraðgangi sínum og sækja um námsleiðina „Fornám – Opið nám, framhaldsstig“. Eftir að hafa sett inn upplýsingar um fyrri skóla (einungis einn) þarf að passa að velja námskeiðið í námskeiðavali neðst á þeirri síðu.  

 

Fornámskeið í upplýsingatækni

Námskeiðið er góður undirbúningur fyrir þá sem hafa tekið sér langt hlé frá námi og/eða eru óöruggir með almenna tölvunotkun. 

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu kerfi og forrit sem stuðst er við í námi við Háskólann á Bifröst sem og rétt vinnubrögð þegar það kemur að heimildanotkun. Grunnþekking á þessu sviðum er lykilatriði að góðum árangri í námi þar sem góð vinnubrögð geta sparað nemendum umtalsverðan tíma við lærdóm. 

Farið verður yfir uppsetningu á Office 365 pakkanum og grunnatriði helstu forrita sem þar er að finna (Word, Excel, Powerpoint). Fjarfundaforritið Teams verður einnig kynnt sérstaklega en það er mikið notað við hópastarf í skólanum. Þá verður einnig farið yfir virkni kennslukerfanna Uglu og Canvas. 

Í háskólanámi er afar mikilvægt að tileinka sér góða og rétta meðferð heimilda. Í Háskólanum á Bifröst er stuðst við APA staðalinn varðandi tilvísanir og skráningu heimilda. Á námskeiðinu verður farið yfir hverju þarf að huga að til að uppfylla kröfur APA staðalsins og hvernig ber að setja heimildir upp í verkefnum. Þá verður einnig kynnt fyrir nemendum ritstuldarforritið Turnitin sem bæði kennarar og nemendur við skólann geta nýtt til að yfirfara ritaða texta. 

Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur 9. – 22. ágúst og fer alfarið fram í formi rafrænna fyrirlestra. Nemendum bjóðast tveir fyrirspurnartímar á Microsoft Teams á meðan námskeiðinu stendur og geta þeir nýtt þá til að spyrja kennara út í hvers konar vandamál sem upp kunna að koma. 

Fornámskeið í upplýsingatækni kostar 14.900 kr og er skráningarfrestur til 6. ágúst.  

Skráning fer fram í gegnum umsóknarvef skólans. Nemendur skrá sig inn með umsóknaraðgangi sínum og sækja um námsleiðina „Fornám – Opið nám, framhaldsstig“. Eftir að hafa sett inn upplýsingar um fyrri skóla (einungis einn) þarf að passa að velja námskeiðið í námskeiðavali neðst á þeirri síðu.  

 

Háskólagátt

Fornámskeið í stærðfræði - Háskólagátt

Námskeiðið er hugsað sem hentugur undirbúningur fyrir þá sem hafa tekið sér hlé frá námi og aðra sem þurfa á því að halda að skerpa á stærðfræði þekkingu sinni. 

Fornámskeiðið er sniðið að þörfum nemenda sem eru að hefja nám í háskólagátt við Háskólann á Bifröst. Þegar það kemur að stærðfræði er mikilvægt að byggja á góðum grunni og því hefst námskeiðið á yfirferð grunnatriða stærðfræðinnar úr 9. og 10. bekk grunnskóla. Þegar undirstöðuatriðin eru komin á hreint verður farið yfir helstu viðfangsefni stærðfræðinnar úr menntaskóla svo sem algebru, mengjafræði, líkindareikning, fallafræði og diffurreikningi. Þá verður einnig farið yfir uppsetningu stærðfræði verkefna í Microsoft Word og notkun forritsins GeoGebra við úrlausn verkefna líkt og gert er ráð fyrir í námi í háskólagátt. 

Námskeiðið stendur yfir vikuna 23.-29. ágúst og fer alfarið fram í formi rafrænna fyrirlestra. Nemendur munu í kjölfar námskeiðsins hafa aðgang að námsefni og fyrirlestrum þeim til stoð og styttu í náminu. Þá verður haldinn fyrirspurnartími á Microsoft Teams í vikunni sem námskeiðið á sér stað þar sem nemendum gefst kostur að leita aðstoðar kennara og spyrja út í fyrirkomu námsins í háskólagáttinni. 

Fornámskeiðið í stærðfræði kostar 9.900 kr og er skráningarfrestur til 12. ágúst.  

Skráning fer fram í gegnum umsóknarvef skólans. Nemendur skrá sig inn með umsóknaraðgangi sínum og sækja um námsleiðina „Háskólagátt – fornám, – Opið nám, framhaldsstig“. Eftir að hafa sett inn upplýsingar um fyrri skóla (einungis einn) þarf að passa að velja námskeiðið í námskeiðavali neðst á þeirri síðu.  

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta