Skapandi greinar á tímamótum 

Mikilvægi rannsókna við uppbyggingu innviða vaxandi atvinnuvegar

Málþing 26. október, kl. 10.30-15.30 í Hannesarholti, Reykjavík


Markmið málþingsins er að ræða tækifæri sem felast í stofnun rannsóknaseturs skapandi greina fyrir uppbyggingu
þeirra sem atvinnuvegar og mögulegar rannsóknaáherslur setursins  í samhengi við alþjóðlega þróun. Rýnt verður hvað hefur áunnist í undirbúningi að stofnun rannsóknarseturs sem hófst fyrir ári síðan og kallað eftir innleggi þátttakenda. 

Á málþinginu verða kynnt fyrstu drög að skýrslu sem kortleggur núverandi stöðu skapandi greina í samhengi við rannsóknir og innviðauppbyggingu. Tveir alþjóðlegir sérfræðingar verða með framsögu; Stuart Cunningham, prófessor emeritus við Queensland University of Technology í Ástralíu og Trine Bille, prófessor við miðstöð skapandi greina og stofnana við Copenhagen Business School í Danmörku.  Eftir hádegi munu þátttakendur eiga samtal um tengsl nýsköpunar, hugverka og skapandi greina, hagtölur og tölfræði sem rannsóknagögn, tækifæri í skapandi greinum á landsbyggð, stefnumótun í menningu og skapandi greinum og samspil stefnumótunar og rannsókna. 

Dagskrá málþingsins

Kl. 10:30Setning málþingsins
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst og stjórnarformaður undirbúningsnefndar
Kl. 10:40Ávarp ráðherra
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra 
Kl. 10:50(Re)Discovering the Potential of the Cultural and Creative Industries in Iceland
Stuart Cunningham, prófessor emeritus við Queensland University of Technology  
Kl. 11:30The Importance of Cultural Policy Research for Cultural Policy
Trine Bille, Prófessor, Copenhagen Business School 
Kl. 12:10Matarhlé 
Kl. 13:00Vinnusmiðjur
Kl. 14:30   Kaffihlé 
Kl. 14:50   Samantekt vinnusmiðja  
Kl. 15:30Lok málþings 
Málþingsstjóri er Njörður Sigurjónsson, prófessor í Háskólanum á Bifröst


Um fyrirlesarana

Dr. Stuart Cunningham er leiðandi fræðimaður í heiminum þegar kemur að rannsóknum í skapandi greinum. Í erindi sínu mun Scott fjalla um mikilvægi skilgreininga, aðgengis að góðum grunngögnum við rannsóknir og alþjóðlegar rannsóknaáherslur í skapandi greinum. Stuart, ásamt Dr. Marion McCutcheon og Dr. Scott Brook vinnur að samantekt um skilgreiningar, aðgengi að tölfræðilegum gögnum og tækifæri til rannsókna innan skapandi greina á Íslandi.   

*Dr.Trine Bille er einn áhrifamesti fræðimaður Norðurlanda þegar kemur að rannsóknum á menningarstefnu og menningarhagfræði. Hún mun fjalla um mikilvægi stefnumótunar í menningu og skapandi greinum og hvernig markvisst rannsóknastarf getur stutt við innleiðingu hennar.  Hún mun einnig segja frá tilurð og markmiðum nýrrar rannsóknamiðstöðvar í Danmörku, National Institute for Cultural Analysis, sem dönsk stjórnvöld settu nýlega á laggirnar.


Vinnustofur

Fyrirkomulag, markmið og áætluð útkoma

  • Tími: 90 mínútur
  • Notum Padlet borð (sjá Padlet.com) til að skrá umræðu í hverri vinnustofu  og svör við skilgreindum spurningum
  • Stutt framsaga  (10-15 min)
  • Umræða – út frá markmiðum vinnustofu og spurningum (60 min)
  • Samantekt (15 min) 

Viðfangsefni vinnusmiðja

#1  Stoppað í götin - Hagtölur og tölfræði sem rannsóknagögn

Markmið vinnustofunnar er að ræða mikilvægi markvissrar og reglubundinnar gagnaöflunar og birtingu hagtalna um menningu og skapandi greinar (culture and creative industries). Þátttakendur munu einnig ræða hvers konar gagna er þörf til að fylgjast með vexti og viðgangi atvinnugreinarinnar, sem og samþættingu aðferðafræði við öflun gagna við nágrannalönd.  Einnig verður rætt um mikilvægi þess að rýna (tölfræði) gögn til gagns og ólíkar leiðir.  Skoðað verður sérstaklega hvaða gögn þarf að afla reglubundið um menningu skapandi greinar og setja fram í mælaborði til að sjá hvernig atvinnuvegurinn er að þróast og hvernig mismunandi aðferðafræði við öflun gagna getur veitt dýpri innsýn í atvinnuveginn, mismunandi greinar innan hans og þeirra sem við þær starfa. 

#2 Tækifæri tengd skapandi greinum á landsbyggð. Nýsköpun eða atvinnuþróun nema hvoru tveggja sé? 

Markmið vinnustofunnar er að ræða þarfir landsbyggðar fyrir samtal um núverandi stoðkerfi við menningu og nýsköpun og þörf á mótun sameiginlegs skilnings á því  hvort stuðningur við menningu og skapandi störf sé atvinnuþróun, menning, nýsköpun eða allt í senn.  Rædd verður ólík aðferðafræði, ferli og stoðkerfi nýsköpunar í menningu og skapandi greinum og hvernig hægt sé að auka getu frumkvöðla og fyrirtækja á landsbyggð til að leiða nýsköpun og stuðla að samkeppnishæfni og sjálfbærni samfélaga. Þá verður mikilvægi þess að búa til mælikvarða til að mæla virði nýsköpunarstarfs í þessu samhengi rætt, sem og þróun mælaborðs til að birta gögn (tölfræði) reglubundið sem varpa ljósi á þróun menningarstarfsemi og skapandi greina á landsbyggð. 

#3 Stefnumörkun í menningu og skapandi greinum – samspil opinberrar stefnumótunar og rannsókna í menningu og skapandi greinum 

Markmið vinnustofunnar er að ræða mikilvægi markvissrar og reglubundinnar stefnumörkunar fyrir menningu og skapandi greinar í því miði að styðja við mótun framsækins skapandi vistkerfis, fullnýta tækifæri til vaxtar og áframhaldandi þróunar og rækta skapandi mannauð. Rætt verður hvernig reglubundin gagnaöflun, þar sem gæði gagna eru tryggð, og fjölþættar rannsóknir geta undirbyggt slíka stefnumótunarvinnu. Þá verður einnig rætt hvernig tekist hefur til á Íslandi til þessa varðandi stefnumörkun í menningu, hvernig hægt sé að samtvinna menningarstefnu til framtíðar við stefnumörkun í skapandi greinum og hvað við getum lært af öðrum þjóðum.   

#4 Tengsl nýsköpunar, hugverka, menningar og skapandi greina 

Markmið vinnustofunnar er að ræða hvernig hugverk, nýsköpun, menning og skapandi greinar tengjast. Hugverk eru huglæg og óáþreifanleg en eru oft verðmætustu eignir fyrirtækja. Hugverk verða til við þróun nýrra hugmynda, lausna eða endurbóta (við nýsköpun).  Menning og skapandi greinar eru oft hvati nýsköpunar, nauðsynlegar í  hvers kyns lausnaleit og í þverfaglegri nýsköpun. Rædd verður ólík aðferðafræði, ferli og stoðkerfi nýsköpunar, og hvernig hægt sé að auka getu frumkvöðla og fyrirtækja í skapandi greinum til að leiða nýsköpun og stuðla að samkeppnishæfni og sjálfbærni samfélaga.