Alþjóðastefna 

Stefna Háskólans á Bifröst um alþjóðamál

Háskólinn á Bifröst leggur ríka áherslu á virka þátttöku í alþjóðlegu fræðasamfélagi. Markmið þessarar stefnu er að stuðla að því að námsframboð skólans sé með alþjóðlegu ívafi og að efla rannsóknir og nám í gegnum samstarf á alþjóðavettvangi.

Háskólinn á Bifröst vinnur að því að tryggja nemendum og starfsfólki aðgang að fjölbreyttum alþjóðlegum samstarfsverkefnum, þar á meðal skiptinám, starfsnám og rannsóknasamstarf, og að skapa menningu þar sem alþjóðleg samskipti skipta máli. Sem leiðandi stofnun í stafrænni menntun leggur Háskólinn á Bifröst áherslu á að þróa aukin tækifæri til stafræns náms í samstarfi við háskóla um allan heim.

Virk þátttaka Háskólans á Bifröst í háskólanetinu OpenEU og öðrum alþjóðlegum verkefnum auðgar námsupplifun og víkkar sjóndeildarhring nemenda og starfsfólks. Háskólinn á Bifröst menntar fólk til áhrifa og ábyrgðar í efnahagslífi og samfélaginu öllu, meðal annars með því að taka tillit til sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna í öllu námsframboði sínu.

Alþjóðlegt nám og hreyfanleiki nemenda

  • Allir nemendur Háskólans á Bifröst eru hvattir til að taka þátt í alþjóðlegri starfsemi, svo sem skiptinámi við samstarfsháskóla, alþjóðlegu starfsnámi, styttri námskeiðum (BIP), námsferðum og skoðunarferðum.
  • Nemendum eru veittar upplýsingar um möguleika á skiptinámi á kynningardögum og í staðlotum.
  • Hver námsbraut býður upp á fjarnám í samvinnu við aðra fjarnámsháskóla.
  • Öllum nemendum er boðið að sitja námskeið í akademískri ensku til að auka hæfni þeirra til að starfa í alþjóðlegu fræðaumhverfi.
  • Nemendur skulu fá tækifæri til að sitja námskeið sem felur í sér stuttar heimsóknir erlendis í tengslum við efni námkeiðsins.
  • Einingabært nám erlendis, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma, er alltaf valkostur og er viðurkennt í námsferli nemenda.
  • Á hverri námsbraut er að minnsta kosti eitt námskeið kennt á ensku á hverri önn.
  • Sem hluti af OpenEU háskólanetinu mun Háskólinn á Bifröst taka virkan þátt í ýmsum alþjóðaverkefnum, þar með talið skiptinámi, starfsnámi, ráðstefnum og starfsmannaskiptum.

Alþjóðleg samskipti eru hluti af öllu námi við Háskólann á Bifröst, óháð því hvort nemandur fari erlendis eða ekki. Til dæmis með aðkomu erlendra gestakennara sem og stafrænum fyrlestrum sem skipulagðir eru í samvinnu við samstarfsskóla okkar. 

Stefna Háskólans á Bifröst varðandi skiptinema

  • Alþjóðafulltrúar við Háskólann á Bifröst veita ráðgjöf og stuðning bæði til nemenda og starfsmanna sem taka þátt í verkefnum og starfsemi erlendis.
  • Háskólinn á Bifröst mun taka á móti skiptinemum frá samstarfsháskólum sem uppfylla inntökuskilyrði skólans og tryggja að þeir hafi aðgang að sömu námsmöguleikum og innritaðir nemendur Háskólans á Bifröst.
  • Skiptinemar fá upplýsingar í upphafi annar frá námsráðgjöfum, kennsluskrifstofu og kennurum um þann stuðning sem þeim stendur til boða meðan á náminu stendur, þar á meðal aðstoð við menningar- eða stjórnsýsluleg mál.
  • Háskólinn á Bifröst mun bjóða upp á námskeið í íslensku og íslenskri menningu fyrir skiptinema.

Menntun með alþjóðlegum áherslum

  • Kennaraskipti skulu vera órjúfanlegur hluti af starfsemi stofnunarinnar.
  • Allir starfsmenn Háskólans á Bifröst, bæði akademískir og starfsmenn í stjórnsýslu, eru hvattir til að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum, hvort sem um er að ræða kennaraskipti við samstarfsháskóla eða með þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og ráðstefnum.
  • Kennarar hafa möguleika á að taka þátt í kennaraskiptum til að stækka tengslanet sitt, styrkja frekara samstarf milli stofnana og tileinka sér fyrirmyndar starfshætti.
  • Starfsmenn í stjórnsýslu og stoðþjónustu eru hvattir til að taka þátt í starfsmannaskiptum og heimsækja erlenda háskóla, sérstaklega innan EADTU (The European Association of Distance Teaching Universities) og OpenEU háskólanetsins.
  • Möguleikar á að setja á laggirnar sameiginleg námskeið og námsbrautir með erlendum háskólum skulu kannaðir til hlítar.

Alþjóðlegar rannsóknir og þróun 

  • Háskólinn á Bifröst er hluti af alþjóðlegu vísinda- og fræðasamfélagi og lítur á alþjóðlegt samstarf sem lykilatriði í að auka gæði rannsókna.
  • Háskólinn á Bifröst hvetur fræðafólk innan skólans til að efla alþjóðlegt rannsóknarsamstarf, sækja fjármögnun frá alþjóðlegum aðilum, eins og þeim alþjóðlegu sjóðum sem starfræktir eru af Evrópusambandinu og á samstarfsvettvangi Norðurlandanna, og birta rannsóknir í samstarfi við erlenda fræðimenn.
  • Háskólinn á Bifröst stefnir að því að taka á móti erlendum rannsakendum og gestakennurum með reglulegum hætti og taka virkan þátt í rannsóknarstarfsemi OpenEU háskólanetsins.
  • Samstarf í gegnum EADTU (The European Association of Distance Teaching Universities) og OpenEU háskólanetið myndar kjarnann í þróunarverkefnum Háskólans á Bifröst.
  • Alþjóðaskrifstofa Háskólans á Bifröst vinnur markvisst að því að koma á samstarfi við fyrirtæki og verkefni þeirra á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis í gegnum þróunarsjóð EES og Europe Enterprise Network.
  • Alþjóðaskrifstofa vinnur einnig í samvinnu við rannsóknarstjóra að því að skapa tækifæri til rannsóknarsamstarfs í gegnum ýmis samstarfsverkefni, til dæmis COST, Erasmus+ og Nordplus.
  • Háskólinn á Bifröst leggur ríka áherslu á ábyrga alþjóðavæðingu og grípur til viðeigandi ráðstafana til að tryggja öryggi í rannsóknum.
  • Alþjóðaskrifstofa og rannsóknarstjóri halda utan um umfang alþjóðavæðingar skólans. Hver námsbraut er endurskoðuð reglulega í takt við stefnu skólans um alþjóðamál. Alþjóðaskrifstofa skilgreinir mælanleg markmið fyrir alþjóðleg verkefni, þar á meðal þátttöku nemenda, kennara og annarra starfsmanna í alþjóðastarfi.


Samþykkt á fundi Framkvæmdastjórnar 10.12.2024


Prentvæn útgáfa