27. febrúar 2015

Áhersla lögð á sam­fé­lags­breyt­ing­ar

Kennsla í þrem­ur nýj­um náms­leiðum hefst við Há­skól­ann á Bif­röst í haust. Ein þeirra kall­ast Bylt­inga­fræði og er sú náms­leið sé ein­stök í heim­in­um.

„Bylt­inga­fræðin er byggð á grunni HHS náms­ins okk­ar sem er blanda af heims­speki, hag­fræði og stjórn­mála­fræði. Þetta verður þverfag­legt nám þar sem lögð er áhersla á sam­fé­lags­breyt­ing­ar og hvaða grunn rót­tæk­ar sam­fé­lags­breyt­ing­ar þurfa að hafa. Einnig verða skoðaðar breyt­ing­ar inn­an fé­laga­sam­taka eða fyr­ir­tækja í nærum­hverfi okk­ar,“ seg­ir Njörður Sig­ur­jóns­son, lektor við Há­skól­ann á Bif­röst í sam­tali við mbl.is.

„Með þess­ari náms­leið erum við að reyna að búa til eitt­hvað nýtt, ein­hver tæki­færi fyr­ir fólk sem vill gera eitt­hvað og finna ein­hverj­ar leiðir. Við vilj­um tengja það við gagn­rýna sam­fé­lags­grein­ingu og sjá hvaða aðstæður þurfa að vera fyr­ir hendi til þess að hrinda aðgerðum í fram­kvæmd.“

Ekki byggð á er­lendri fyr­ir­mynd
Njörður seg­ir að bylt­inga­fræðin sé ekki byggð á sér­stakri er­lendri fyr­ir­mynd. „Eft­ir því sem ég best veit er þessi náms­leið al­veg ein­stök í heim­in­um. En við byggj­um þetta nátt­úru­lega að hluta til á HHS nám­inu sem er byggt á er­lendri fyr­ir­mynd en sú leið hef­ur verið kennd hér við Bif­röst í tíu ár,“ seg­ir Njörður. „Við flétt­um grein­ar þaðan inn í bylt­inga­fræðina.“

Að sögn Njarðar verða einnig nýj­ar áhersl­ur í bylt­inga­fræðinni eins og leiðtoga­fræði og verk­efna­stjórn­un. „Við vilj­um nýta þau hug­tök sem koma úr stjórn­un­ar­grein­um inn í þessa umræðu.“

Skól­ar geta fests í ákveðnu fyr­ir­komu­lagi
Hann seg­ir að náms­leiðin hafi verið lengi í und­ir­bún­ingi en ekki sé langt síðan leiðin var gerð op­in­ber. „Þetta er auðvitað al­veg nýtt en það hef­ur verið mik­ill áhugi. Ég held að það sé mik­il­vægt fyr­ir há­skóla að finna aðeins aðra fleti á því sem þeir eru að gera,“ seg­ir Njörður. „Skól­ar eiga það til að fest­ast í fyr­ir­komu­lagi og náms­braut­um sem urðu til fyr­ir ein­hverj­um ára­tug­um. Fólk flykk­ist í hundruðum eða jafn­vel þúsund­um inn á náms­braut­ir sem henta þeim ekk­ert sér­stak­lega og er ekki endi­lega á þeirra áhuga­svæði,“ seg­ir hann.

„Þetta er alla­vega ný leið að spurn­ing­um og hug­mynd­um um hvernig við get­um skoðað sam­fé­lagið og hugs­an­lega breytt því.“

Bylt­inga­fræði er ekki eina nýja náms­leiðin sem kennd verður á Bif­röst í haust. Í haust verður hægt að sækja nám í Miðlun og al­manna­tengsl­um og Stjórn­mála­hag­fræði við Há­skól­ann á  Bif­röst og er nú opið fyr­ir um­sókn­ir.

„Það er svipuð hugs­un með þess­ar tvær náms­lín­ur eins og með bylt­inga­fræðina. Þær eru byggðar utan um og í tengsl­um við HHS námið. Það er byggt á þekktri er­lendri fyr­ir­mynd og hafa fjöl­marg­ir ráðherr­ar og frama­menn í sam­fé­lag­inu farið í gegn­um það þó það sé ekki þekkt á Íslandi. Í  þess­um náms­leiðum nýt­um við sam­eig­in­leg nám­skeið en bæt­um svo við og dýpk­un áherslu á ákveðnum sviðum,“ seg­ir Njörður.

Á vefsíðu há­skól­ans kem­ur fram að stjórn­mála­hag­fræði fá­ist við að greina flókið sam­spil markaða, laga, sam­fé­lags og hins op­in­bera, en hvergi eru til hrein­ir markaðir sem eru ómengaðir af íhlut­un rík­is­valds­ins. Kem­ur jafn­framt fram að með aðferðum stjórn­mála­hag­fræðinn­ar eru hag­fræðileg­ir þætti sett­ir í víðara fé­lags­legt og stjórn­mála­legt sam­hengi.

Hent­ar þekkt­um og lif­andi starfs­vett­vangi
Á vefsíðunni kem­ur jafn­framt fram að grunn­nám í miðlun og al­menna­tengsl­um sé til­valið fyr­ir þá sem hafa áhuga á að vinna við miðlun upp­lýs­inga, upp­lýs­ingaráðgjöf eða sinna upp­lýs­inga­gjöf. Er þá átt við störf á sviði fjöl­miðlun­ar eða al­manna­tengsla, í op­in­berri stjórn­sýslu, fyr­ir frjáls fé­laga­sam­tök, stjórn­mála­flokka, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki af ýms­um toga. Fram kem­ur að lögð sé mik­il áhersla á þjálf­un í skrif­legri og munn­legri fram­setn­ingu í nám­inu sem nýt­ist á marg­vís­leg­um starfs­vett­vangi.

„Þetta er nátt­úru­lega mjög þekkt­ur og lif­andi starfs­vett­vang­ur. Það eru marg­ir sem hafa áhuga  á öll­um þess­um miðlum og leiðum sem fólk not­ar til þess að tengj­ast. Það er alltaf þörf á námi eins og þessu,“ seg­ir Njörður.

Hægt er að sækja um skóla­vist við Há­skól­ann á Bif­röst á vefsíðu skól­ans.


Náms­leiðirn­ar þrjár verða kynnt­ar á Há­skóla­deg­in­um í hús­næði Há­skól­ans í Reykja­vík. Verður Há­skóla­dag­ur­inn þó jafn­framt hald­inn í Há­skóla Íslands og Lista­há­skól­an­um. Há­skól­inn á Ak­ur­eyri, Há­skól­inn á Hól­um og Land­búnaðar­há­skóli Íslands kynna náms­leiðir sín­ar í HÍ en HR og Há­skól­inn á Bif­röst í Há­skól­an­um í Reykja­vík. Ókeyp­is verður í sér­stak­an Há­skóla­dags­strætó sem mun ganga á milli skól­anna.

Auður Albertsdóttir fyrir mbl.is

Tekið af mbl.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta