Gönguleiðir

Nágrenni Bifrastar

Úr gluggum setustofunnar í Bifröst er fjallasýn meðal annars þessi, að austan talið: Grjótháls og á honum yst Hallarmúli sem ber yfir bæinn Veiðilæk austan Norðurár, en múlinn dregur nafn af bænum Höll í Þverárhlíð. Þá er Skarðsheiði í suðri og Skessuhorn fyrir henni miðri, en Hafnarfjall þar útí frá. Í suð-vestri er Litla Skarðsfjall skammt undan, þá Valbjarnarvallamúli, Múlakotsmúli og Dyngja. Loks Vikrafell sem ber hæst í vestri, og Selmúli og Bæjarás upp frá Hreðavatnsbænum. Göngukort

Hreðavatn

Hreðavatn

Góð gönguleið frá Bifröst liggur að bænum Hreðavatni sem stendur norðan vatnsins. Þegar að bænum kemur, liggur beinast við að halda út af bílveginum sem heldur áfram út með hlíðinni og ganga beint upp ásinn. Þegar upp á ásinn kemur, fer að sjást til jöklanna, Eiríksjökuls, Langjökuls og Oksins. Þá er best að halda yfir dalverpið ofan við ásinn, rétt austan við Selvatnið sem þar liggur og fyrir endann á Selmúlanum, en þar í brekkunum blasa jöklarnir enn betur við og fjöllin og héraðið ofantil. Suður og vestur frá Okinu sjást meðal annars: Fanntófell, Skjaldbreið, Botnssúlur og svo Skarðsheiðin. Leiðin liggur síðan lengra ef menn vilja, fyrir enda Selmúlans og upp yfir ásendann, sem stendur til vinstri við götuna og myndar ásinn gljúfurbarm Kiðárinnar, sem komið er að, þegar upp á brekkubrúnina kemur.

Grjótháls

Grjótháls

Upp með Norðurá, frá Glanna, er góð leið á bökkunum upp á brúna hjá Glitsstöðum. Er þá ekki langt á Grjóthálsinn upp frá Glitstöðum. Af suðausturbrún Grjóthálsins er útsýni til margra bæja í Þverárhlíð, og sést vel yfir Norðtunguskóg.

Vikrafell

Vikrafell

Ætli menn á Vikrafell, er best að fara yfir Kiðána þarna áður en efri gljúfrin byrja, og halda beint á fellið að austan. Er þetta auðveld leið, en útsýni mjög gott af fellinu. Baula blasir við, Tvídægra, Arnarvatnsheiði, Hofsjökull, Eiríksjökull og önnur fjöll í þá átt, sem sáust strax við Selmúlann. Til vesturs sér á Langavatn og yfir Langavatnsdal, en mest ber þeim megin á fjöllunum vestur af dalnum. Fer vel á því að ganga Vikrafellshrygginn, sem liggur norðan við fellið.

Grábrók

Grábrók

Til þess að skoða Grábrók og Grábrókarfell frá Bifröst er best að fara upp yfir ásinn hjá vatnstanknum og yfir girðinguna á bak við hólinn á göngubrúnni í girðingarhorninu. Upp frá Grábrókarfelli eru fallegar flatir og góð leið upp í dalverpi lítið, sem Brekkuáin kemur úr, en henni hefur verið veitt í hraunið fyrir norðan Bifröst. Brekkuáin hefur áður fyrr oft runnið fyrir norðan Grábrókarfell, og niður nálægt því, sem Bifröst stendur nú, og henni eru að þakka valllendisflatirnar sem prýða staðinn og svæðið allt niður að Norðurá, því að áin hefur borið efnið í þær úr fjöllunum. Í dalverpinu litla er vatnsból Bifrastar, gert af mikilli íþrótt, því að það er hlaðið úr stuðlabergsstöflum, sem fengnar eru úr stuðlabergshamri austan til í dalverpinu.

Glanni

Glanni

Fossinn Glanni er í Norðurá beint suður af Bifröst. Þangað er 15 mínútna gangur og er farið niður að ánni rétt ofan við klettinn, sem hæst ber á bakkanum. Löngum stekkur lax í Glanna og þar má oft sjá laxatorfur í hyljunum. Bíður laxinn víst þess að reyna sig við fossinn. Með gát má fara niður fyrir hylinn, og er þá komið fast þar að, sem laxinn heldur sig títt og býr sig undir stökkin. Sést stundum uggi við ugga og sporður við sporð í hylnum.

Baula

Baula

Fýsi menn í fjallgöngu frá Bifröst er ekki langt á Baulu, en þá verður að aka inn á Bjarnardal og ganga á fjallið þaðan, því flestum mun líklega finnast of langt að byrja með því að þramma frá Bifröst. Af Baulu er útsýni gott, sem nærri má geta, því hún stendur ein sinna jafningja og er 930 metrar á hæð. Best mun að ganga upp norðvesturhorn Baulu. Óvönum er alls ekki rétt að fara á fjallið fylgdarlaust.

Hraunsnefsöxl

Hraunsnefsöxl

Af þessum slóðum liggur vel við að halda göngunni áfram upp á hnjúkana norður af, og sem leið liggur upp á Hraunsnefsöxlina, sem gnæfir yfir norður frá Bifröst og setur mikinn svip á umhverfið. Er þetta ekki langt, enda allsstaðar á leiðinni hægt að hafa leiðarenda ef svo sýnist. Þegar á hnjúkana kemur, er allsstaðar gott útsýni yfir héraðið, en þó best á Hraunsnefsöxlinni sjálfri, því þar sést allur heiðjöklahringur Borgfirðinga. Aðra gönguleið má fara í þessa átt með því að fara norður fyrir neðan réttina, sem stendur upp frá Grábrókarfelli, en fyrir ofan Grábrók. Ganga síðan sunnan í ásnum og stefna efst á háu brekkurnar, sem ganga upp frá Brekkubænum. Þegar upp á þær kemur, er skammt á framhlaupshólana, sem ganga niður á milli Brekku og Hraunsnefs. Þetta er ekki brunahraun eða eldhraun, heldur hrun úr fjallinu, Hraunsnefsöxlinni, því að hún hefur rifnað ofan frá og niður úr og fallið fram í dalinn alla leið niður þangað sem þjóðvegurinn liggur nú.Á þessum dyngjum er hið fegursta land, gróðri vafðar lautir og bollar, og ekki er að efast um útsýnið. Efst úr þesum dyngjum er mjög stutt að fara á Hraunsnefsöxlina með því að víkja sér vestur fyrir hana.

Paradís

Paradís

Frá Glanna er góð gönguleið niður með ánni og er hægt að fylgja gamla þjóðveginum, sem þarna liggur. Þegar komið er langleiðina á móts við bæinn Veiðilæk, sem stendur handan árinnar, verða miklir valllendisbakkar með ánni. Áður en hraunið er yfirgefið og lagt út á bakkana er rétt að skima til hægri og sést þá niður á litla tjörn í fögrum hraunbolla. Lítill lækur rennur í tjörnina og hefur gert sér fallegt gljúfur. Stígur liggur af veginum til hægri þarna niður og er vel þess vert að koma þar við, enda nefna menn staðinn Paradís. Nokkrum metrum vestar en lækurinn fellur lítil á út úr hrauninu. Ef einhverjum finnst óþægilegt að stikla hana þarna, ofan götunnar, er hægurinn hjá að leysa vandann með því að ganga 50 - 60 metra upp með ánni upp í hraunið, því þar endar hún. Beljar hún þar út úr hrauninu í einu lagi.

Með vatninu

Með vatninu

Einnig er hægt að beygja út af Jafnaskarðsveginum áður en haldið er á ásinn og þá niður að Hreðavatninu og ganga með vatninu sjálfu. Er þar mjög fagurt og ekki síst við suðvesturenda vatnsins, þar sem gróðurinn hefur verið friðaður í skógræktargirðingunni. Vestan vatnsins sunnan til ganga skógivaxnir ásar þverskornir grasivöxnum geilum, og eru í þeim miklar brekkur vaxnar fjölbreyttum gróðri. Þarna kemur Kiðáin niður í Hreðavatnið í snotru gljúfri og verða æðimiklar grundir við vatnið.

Kiðárgljúfur

Kjósi menn að lötra inn á heiðina, án þess að ganga á fellið, er um margar leiðir að velja, því að þarna eru margir smáir dalir og ásar á milli. En beinast liggur við að fara upp með efri gljúfrum Kiðárinnar, sem úr þessu heitir Fanná, í stað þess að fara yfir hana. Gljúfrin eru fögur og hlýleg víða og hægt að ganga í þau ofan til.

Vikravatn

Þegar upp fyrir gljúfrin er komið liggur á hinn bóginn vel við að fara yfir Fannána og fylgja í staðinn litlum læk sem í hana fellur þarna, og þá þeirri kvíslinni, sem sem rennur við rætur Vikrafellsins. Er þá brátt komið langleiðina upp á ásana, sem ganga norður frá Vikrafellinu,og er þá sjálfsagt að bæta við örstuttum spotta vestur yfir þá, Því þar liggur Vikravatnið í myndarlegri kvos. Þetta er æðimikið og forkunnarfagurt fjallavatn. Þar halda sig tíðum svanir og himbrimar, enda er mikið líf í vatninu. Telja má mjög hægan tveggja tíma gang frá Bifröst að vatninu.

Hreðavatnssel

Í stað þess að fara með læknum má fylgja Fannánni áfram um breiða valllendislægð og er þá örstutt að rústum Hreðavatnssels, sem lengi var byggt ból þarna á heiðinni. Standa rústirnar á sléttunni vestan árinnar. Vilji fólk halda lengra, liggur beint við að ganga vestan í Þórisengismúlanum, sem selið stendur sunnan undir, eða upp á múlann og blasir þá Vikravatnið við enn, og einnig sér vestur á Langavatnsdal. En til norðurs vestan múlans gengur friðsæll afréttardalur, Fossdalurinn. Rétt norðvestur af Vikravatninu eru fagrir fossar í ánni, sem úr dalnum rennur.

Merkjaborg

Þegar komið er inn fyrir túnið á Hreðavatni liggur þjóðvegurinn til Jafnaskarðs áfram skáhallt vestur ásinn og sé honum fylgt í staðinn fyrir að halda upp ásinn beint, liggur vel við að ganga á Merkjaborg, sem er rétt suðaustan vegarins og ber hæst a ásnum vestan Hreðavatnsins. Er þar fjallasýn mikil og útsýni yfir héraðið.

Laxfoss

Vilji menn ganga með Norðruá að Laxfossi tekur það um eina klukkustund. Ganga má upp með Hraunánni af þessum slóðum til Bifrastar, en Hraunáin fellur í Norðurá, þar sem hrauninu sleppir á þessari leið, og fylgir áin eða farvegurinn, því oft er hún þurr, hraunjaðrinum alla leið upp að norðurenda Hreðavatns. 

Höfundur texta er Eysteinn Jónsson, fyrrverandi alþingismaður.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta