Kiðárgljúfur
Kjósi menn að lötra inn á heiðina, án þess að ganga á fellið, er um margar leiðir að velja, því að þarna eru margir smáir dalir og ásar á milli. En beinast liggur við að fara upp með efri gljúfrum Kiðárinnar, sem úr þessu heitir Fanná, í stað þess að fara yfir hana. Gljúfrin eru fögur og hlýleg víða og hægt að ganga í þau ofan til.
Vikravatn
Þegar upp fyrir gljúfrin er komið liggur á hinn bóginn vel við að fara yfir Fannána og fylgja í staðinn litlum læk sem í hana fellur þarna, og þá þeirri kvíslinni, sem sem rennur við rætur Vikrafellsins. Er þá brátt komið langleiðina upp á ásana, sem ganga norður frá Vikrafellinu,og er þá sjálfsagt að bæta við örstuttum spotta vestur yfir þá, Því þar liggur Vikravatnið í myndarlegri kvos. Þetta er æðimikið og forkunnarfagurt fjallavatn. Þar halda sig tíðum svanir og himbrimar, enda er mikið líf í vatninu. Telja má mjög hægan tveggja tíma gang frá Bifröst að vatninu.
Hreðavatnssel
Í stað þess að fara með læknum má fylgja Fannánni áfram um breiða valllendislægð og er þá örstutt að rústum Hreðavatnssels, sem lengi var byggt ból þarna á heiðinni. Standa rústirnar á sléttunni vestan árinnar. Vilji fólk halda lengra, liggur beint við að ganga vestan í Þórisengismúlanum, sem selið stendur sunnan undir, eða upp á múlann og blasir þá Vikravatnið við enn, og einnig sér vestur á Langavatnsdal. En til norðurs vestan múlans gengur friðsæll afréttardalur, Fossdalurinn. Rétt norðvestur af Vikravatninu eru fagrir fossar í ánni, sem úr dalnum rennur.
Merkjaborg
Þegar komið er inn fyrir túnið á Hreðavatni liggur þjóðvegurinn til Jafnaskarðs áfram skáhallt vestur ásinn og sé honum fylgt í staðinn fyrir að halda upp ásinn beint, liggur vel við að ganga á Merkjaborg, sem er rétt suðaustan vegarins og ber hæst a ásnum vestan Hreðavatnsins. Er þar fjallasýn mikil og útsýni yfir héraðið.
Laxfoss
Vilji menn ganga með Norðruá að Laxfossi tekur það um eina klukkustund. Ganga má upp með Hraunánni af þessum slóðum til Bifrastar, en Hraunáin fellur í Norðurá, þar sem hrauninu sleppir á þessari leið, og fylgir áin eða farvegurinn, því oft er hún þurr, hraunjaðrinum alla leið upp að norðurenda Hreðavatns.
Höfundur texta er Eysteinn Jónsson, fyrrverandi alþingismaður.