Háskólinn á Bifröst kynnir XVI. ráðstefnu Íslenska þjóðfélagsins, 24. og 25. maí 2024.

Ráðstefnan Íslenska þjóðfélagið er fræðilegur vettvangur félagsvísindafólks á Íslandi. Að þessu sinni er kallað eftir ágripum rannsókna um ógnir og öryggi í sögu og samtíma í víðum skilningi, hérlendis sem erlendis.

Ógnir og öryggi eru þekktar andstæður, sem taka sífellt meira rými í umræðu um stjórnmál, alþjóðamál, þjóðaröryggi, efnahags- og viðskiptamál, félagslega þætti náttúruhamfara eða almenn samfélagsmál, svo að dæmi séu tekin. Þessi þróun hefur um margt ágerst víða um veröld, ekki hvað síst á Vesturlöndum. Hefur krafa um aukið öryggi jafnvel verið talin til marks um nýja ógn sem vegi að undirstöðum lýðræðis.

Tekið er við ágripum erinda til og með 1. apríl 2024 á netfanginu deildarforsetifd@bifrost.is. Vakin er athygli á þeirri venju, að hver fyrirlesari er höfundur að einungis einu erindi á hverri ráðstefnu. 

Kallað er eftir erindum sem fjalla um ógnir og öryggi í samtímanum á breiðum grunni, hvort heldur á innlendum eða erlendum vettvangi og verðskulda athygli fræðafólks í hug- og félagsvísindum.  Tekið er við ágripum erinda til 1. apríl 2024 á netfanginu deildarforsetifd@bifrost.is. Lykilfyrirlesarar verða kynntir síðar.  


Ráðstefnan fer fram á Hótel Vesturlandi, nýju fundar- og ráðstefnuhóteli í miðbæ Borgarness.  Þátttakendum býðst jafnframt að bóka gistingu á hótelinu, sem opnar nú í vor eftir gagngerar endurbætur á húsnæði þess.

Ráðstefnugjald er kr. 20.000, en hækkar í kr. 25.000 ef greitt er eftir 1. maí nk. Nemendur á grunn- og meistaranámsstigi geta tekið þátt í ráðstefnunni sér að kostnaðarlausu, en greiða þó fyrir veitingar.

Að vanda verður félagslegum hliðum ráðstefnuhaldsins gerð ekki síður góð skil en fræðilegum. Síðdegis, föstudaginn 24. maí, verður vettvangsferð í boði um áhugaverða áfangastaði í nágrenni Borgarness.

Á föstudagskvöldinu verður síðan efnt til hátíðarkvöldverðar í Landnámssetrinu, steinsnar frá hótelinu. Sérstakur gestur kvöldsins er rithöfundurinn og sagnaþulurinn, Einar Kárason. 

Vinsamlegast athugið breytta dagsetningu, en vegna forsetakosninga þann 1. júní var ákveðið að flýta ráðstefnunni um viku frá áður auglýstri dagsetningu.

Nánari upplýsingar, ef óskað er, veita Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar  og Helga Guðrún Jónasdóttir, samskiptastjóri Háskólans á Bifröst.