Hlutverk og gildi Háskólans á Bifröst

Prentvæn útgáfa

Hlutverk

Háskólinn á Bifröst er viðskiptaháskóli sem menntar fólk til áhrifa og ábyrgðar í atvinnulífi og samfélagi.

Grunngildi okkar eru þau sömu og fram koma í Magna Charta Universitatum evrópskra háskóla. Við stöndum vörð um frelsi til rannsókna og tjáningar. Opnar umræður, umburðarlyndi og fjölbreytni liggja til grundvallar í starfi háskólans. Þar sem háskólar eru taldir til grunnstoða samfélagsins teljum við okkur samábyrg í þróun á blómlegu, lýðræðislegu og sjálfbæru samfélagi.

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn okkar er að:

 • Háskólinn á Bifröst sé skuldbundinn til vísindalegs sjálfstæðis og að stunda samfélagstengdar rannsóknir.
  Við stundum rannsóknir í samræmi við rannsóknarstefnu Háskólans á Bifröst en leggjum einnig áherslu á samfélagsáhrif og ávinning fyrir samfélagið, þar með talið að efla atvinnulíf og tengsl milli háskóla og samfélags.

 • Háskólinn á Bifröst sé í fararbroddi í fjarnámi með sveigjanlegri nálgun.
  Við bjóðum stafrænt námsumhverfi í sérflokki, þar með talið fjarkennslu með vinnulotum þar sem nemendur hitta kennara sína í háskólaþorpinu. Þetta tryggir nemendum sveigjanleika við uppbyggingu námsins og gerir háskólanum kleift að efla nýsköpun, gæði kennslu og kennsluaðferðir.

 • Háskólinn á Bifröst leggi áherslu á einstaklingsbundna nálgun í kennslu þar sem jafnvægi milli fræða og framkvæmdar er þungamiðja.
  Við bjóðum upp á einstaklingsbundinn stuðning og samskipti við kennara í litlum hópum þar sem raunveruleg vandamál eru leyst með samvinnu.
Grunngildi

Gildi okkar skilgreina hver við erum og hver við viljum vera sem samfélag. Hugmyndaleg og siðferðileg gildi sem endurspegla alla starfsemi háskólans eru:


Samvinna sem hefur að markmiði að:

 • hvetja til samskipta og þátttöku í félagslega virku stafrænu háskólaumhverfi með því að vinna saman í hópum að lausn raunverulegra verkefna;
 • stuðla að tengslum við samfélagið og styrkja rannsóknarsamstarf við stofnanir og fyrirtæki;
 • byggja upp „við á Bifröst“ liðsanda sem stuðlar að sameiginlegum skilningi á tilgangi og löngun til að ná árangri.

Frumkvæði sem felur í sér:

 • nýsköpun í þróun stafrænna kennsluaðferða, námsbrauta sem koma til móts við þarfir samfélagsins, rannsókna og frumkvöðlastarfs;
 • þróun frumkvæðis í vinnubrögðum sem stuðlar að skapandi og gagnrýnni hugsun, hæfni sem einkennir lausnamiðaða einstaklinga;
 • þátttöku nemenda í að skapa sér sinn eigin umbreytingarferil gegnum námsreynslu sína.

Ábyrgð sem birtist í því að:

 • standa vörð um frelsi til rannsókna og tjáningar og sjá nemendum fyrir menntun sem styður lýðræðislegt og sjálfbært samfélag;
 • veita sambærilegan aðgang að menntun óháð búsetu og fagna fjölbreytni nemenda;
 • nemendur og starfsfólk skuldbindi sig til að stunda nám sitt og starf af heilindum og alúð.

Hlutverk og gildi Háskólans á Bifröst var þróað samhliða því þegar stefna Háskólans á Bifröst; Stefnumið 2030 var mörkuð. Nemendur og starfsmenn háskólans tóku virkan þátt í því ferli og voru stefnumið 2030 og löguð að Hlutverki og gildum Háskólans á Bifröst.


Samþykkt af stjórn, háskólaráði og fulltrúaráði Háskólans á Bifröst í maí 2021.