Reglur um ritun lokaritgerða í meistaranámi við Háskólann á Bifröst MA/ML/MS ritgerðir

1. gr.

Lokaritgerð í meistaranámi er fræðileg rannsóknarritgerð sem meistaranemi vinnur á eigin spýtur og skal fullnægja öllum kröfum sem almennt eru gerðar til lokaverkefna á þessu stigi háskólanáms. Markmið með lokaritgerð er að sannreyna færni nemandans í að velja, undirbúa og fullvinna verkefni sem hefur fræðilegt gildi og eykur þekkingu hans. Lokaritgerð í meistaranámi er 30 ECTS en hægt er að sækja um heimild til deildarforseta til að skrifa allt að 60 ECTS ritgerð. Leyfi er veitt ef fræðilegt umfang fyrirhugaðrar lokaritgerðar krefst þess og nemandi hefur sýnt fram á verulega hæfni til rannsókna. Þetta gildir þó ekki um lokaritgerðir í ML-námi þar sem lokaritgerðir eru alltaf 30 ECTS.

2. gr.

Nemandi sem hyggst hefjast handa við skrif lokaritgerðar í meistaranámi skráir sig í námskeið (MA/MS) á haustönn eða vorönn og fyllir út eyðublað vegna lokaritgerðar fyrir tilskilinn umsóknarfrest (á haustönn fyrir komandi vorönn og á vorönn fyrir komandi haustönn). Á eyðublaðið skal tilgreina efni ritgerðar og nafn leiðbeinanda. Nemandi hefur samband við þann kennara skólans (fastan kennara eða stundakennara) sem hann óskar eftir sem leiðbeinanda.

Nemandi ber sjálfur fulla ábyrgð á ritgerðarskrifum og þó hann njóti leiðsagnar leiðbeinanda er ætlast til sjálfstæðra vinnubragða af hálfu nemanda í meistaranámi.

3. gr.

Nemanda ber að virða dagsetningar sem tilgreindar eru í kennslukerfi skólans. Virði nemandi ekki tilskildar dagsetningar er leiðbeinanda heimilt að segja sig frá verkefninu og þarf nemandi þá að hefja vinnuna á ný með öðrum leiðbeinanda og greiða háskólanum fyrir einingarnar að nýju.

4. gr.

Leiðbeinandi meistaranema skal hafa meistarapróf hið minnsta. Hann skal vera sérfróður á því sviði sem ritgerðin fjallar um.

Leiðbeinandi skal veita nemanda viðtal vegna skila rannsóknaráætlunar, lokaskila til leiðbeinanda og eftir atvikum skila einstakra kafla/verkþátta. Öll samskipti vegna lokaritgerðar, fundir, aðstoð, handleiðsla, símtöl, tölvupóstur o.s.frv. teljast til viðtalstíma.

Leiðbeinanda ber að skila nemanda efnislegum athugasemdum og ábendingum innan tveggja vikna frá skilum rannsóknaráætlunar, milliskila og lokaskila til leiðbeinanda. Leiðbeinandi skal tilkynna nemanda og kennslusviði innan tveggja vikna frá lokaskilum til leiðbeinanda ef verulegir annmarkar eru á verkefninu svo ljóst þyki að nemandi nái ekki að lagfæra verkefnið í tæka tíð fyrir lokaskil til skrifstofu.

5. gr.

Ekki er gefin sérstök einkunn fyrir rannsóknaráætlun en hún þarf að vera samþykkt af leiðbeinanda. Nemandi sem ekki hefur skilað rannsóknaráætlun fyrir auglýstan skilafrest telst hafa sagt sig frá ritgerðarsmíð á önninni.

Í milliskilum til leiðbeinanda skal frumleikaskýrsla (Originality report) frá ritstuldarforritinu Turnitin fylgja skilum í kennslukerfið.

Nemandi skilar lokauppkasti að ritgerð til leiðbeinanda í kennslukerfi skólans eigi síðar en fjórum vikum fyrir lokaskil til háskólaskrifstofu. Leiðbeinandi skilar umsögn um uppkastið innan tveggja vikna. Nemandi hefur tvær vikur til að bregðast við athugasemdum frá leiðbeinanda fyrir lokskil til skrifstofu. Ef annmarkar eru á verkefninu sem leiðbeinandi telur að nemanda sé ekki unnt að lagfæra áður en til lokaskila til skrifstofu kemur skal leiðbeinandi tilkynna það nemandanum og kennslusviði innan þessara tveggja vikna. Nemanda gefst þá kostur á að fresta skilum þar til á næstu önn. Nemanda er ekki heimilt að skila ritgerð til háskólaskrifstofu nema að fengnu samþykki leiðbeinanda. Neiti leiðbeinandi að staðfesta að lokaritgerð sé tæk til skila getur nemandi vísað þeirri ákvörðun til deildarforseta.

Við lokaskil til háskólaskrifstofu skal eftirfarandi gögnum skilað í kennslukerfi skólans:

·      PDF útgáfu lokaritgerðar

·      Tveimur prentuðum eintökum á háskólaskrifstofu

·      Útfylltri yfirlýsingu um meðferð lokaverkefna

·      Eyðublaði vegna ritgerðarskila þar sem fram koma lykilhugtök ritgerðar og titill hennar á ensku

·      Turnitin skýrslu

·      Staðfestingu á rafrænum skilum ritgerðar í Skemmuna, rafrænt varðveislusafn skólans (sjálfvirkt svar)

 

Vanti eitthvað af ofangreindum gögnum fer ritgerð ekki í prófdæmingu.

Samhliða lokaskilum til skrifstofu skila nemendur endanlegri rafrænni útgáfu í Skemmuna (rafrænt varðveislusafn skólans). Skil í Skemmuna eru forsenda þess að ritgerð fari í prófdæmingu.

6. gr.

Fullbúin lokaritgerð í meistaranámi skal varin frammi fyrir dómnefnd sem samanstendur af prófdómara og leiðbeinanda. Dómnefnd gefur sameiginlega einkunn og umsögn fyrir ritgerðina. Meistaravarnir eru skipulagðar eftir að skil hafa farið fram, að jafnaði í janúar fyrir ritgerðir sem skilað er á haustönn og í maí fyrir ritgerðir sem skilað er á vorönn. Prófdómari skal vera sérfróður á viðkomandi fræðasviði og skal hafa meistarapróf hið minnsta. Í þeim tilfellum sem leiðbeinandi er úr hópi starfsmanna skólans skal prófdómari að jafnaði vera utanaðkomandi sérfræðingur en sé leiðbeinandi fenginn utan frá skal prófdómari að jafnaði vera úr hópi fastra akademískra starfsmanna við skólann.

Prófdómari skal láta leiðbeinanda og kennslusvið vita eigi síðar en viku fyrir áætlaða vörn hvort hann telji ritgerð tæka til varnar.

Telji prófdómari að ritgerðin standist ekki eðlilegar kröfur er nemanda gefinn kostur á að gera úrbætur á ritgerð sinni og vörn frestað eftir því sem svigrúm leyfir. Uppfylli lokaritgerð ekki kröfur prófdómara að loknum úrbótum eða ef við vörnina reynast á henni gallar sem koma í veg fyrir að hún uppfylli kröfur hans þarf nemandinn að vinna nýja ritgerð með öðrum leiðbeinanda og greiða fyrir einingarnar að nýju.

Prófdómari og leiðbeinandi skulu funda fyrir upphaf varnar og hafa samráð um fyrirkomulag varnarinnar, spurningar til nemanda og námsmat. Endanleg einkunn er ákveðin að vörn lokinni enda er frammistaða í henni hluti af námsmati.

Meistaravarnir eru lokaðar. Vörnin stendur að hámarki í eina klukkustund og fer þannig fram að nemandi hefur framsögu um ritgerð sína og hefur til þess allt að 15 mínútur. Að því loknu leggur prófdómari (og leiðbeinandi eftir atvikum) spurningar fyrir nemandann sem fær tækifæri til að svara spurningum og rökstyðja efnisatriði sem dómnefnd þykir óljós. Leiðbeinandi er fundarstjóri í vörninni og gætir þess að nemandi og prófdómari fái jöfn tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að því loknu víkur nemandi af fundi á meðan prófdómari og leiðbeinandi koma sér saman um einkunn. Nemanda er síðan tilkynnt niðurstaða dómnefndar og er hún endanleg og ekki kæranleg. Nemandi fær birta skriflega umsögn dómnefndar og lokaeinkunn fyrir verkefnið í kennslukerfið eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að vörn hefur farið fram og ber leiðbeinandi ábyrgð á því að þær upplýsingar fari inn í kennslukerfi skólans.

Að lokinni vörn getur dómnefnd farið fram á að nemandi geri breytingar á ritgerð sinni og skal nemandi verða við því. Slíkar breytingar geta þó aldrei haft áhrif á einkunn.

7. gr.

Unnt er að meta ritgerðardrög til allt að 22 ECTS á önn. Til fyrstu 6 ECTS ritgerðarinnar telst rannsóknarætlun sem nemandi hefur skilað inn. Ekki er gefin einkunn fyrir rannsóknaráætlun en hún þarf að vera samþykkt af leiðbeinanda í kennslukerfi skólans. Til að unnt sé að meta ritgerðarhluta til fleiri en 6 ECTS skal nemandi auk þess hafa skilað efni sem að mati leiðbeinanda uppfyllir kröfur hlutaðeigandi deildar og þarf leiðbeinandi að skila inn staðfestu eyðublaði þess efnis sem nálgast má hjá kennslusviði.

8. gr.

Sjái nemandi fram á að ná ekki að skila lokaritgerð sinni fyrir auglýstan lokaskilafrest skal hann tilkynna kennslusviði það áður en skilafrestur rennur út. Nemandi sem ekki skilar lokaritgerð á tilsettum tíma án þess að hafa samband við kennslusvið telst fallinn í námskeiðinu og skal nemandi greiða skólagjöld að fullu á ný, skrái hann sig aftur í lokaritgerð.

Nemandi í meistaranámi getur að hámarki frestað ritgerð sinni tvisvar sinnum frá fyrstu skráningu í ritgerðarskrif án þess að þurfa greiða fyrir einingar lokaritgerðarinnar aftur.

Skili nemandi ekki eftir að hafa frestað tvisvar sinnum og skráir sig að nýju í ritgerð skal hann greiða fyrir þriðjung þeirra eininga sem ritgerðin nemur. Gjaldið er innheimt þegar nemandi óskar eftir skráningu í ritgerð að nýju. Nemandi sem frestar ritgerð ber sjálfur ábyrgð á að vera skráður í ritgerð á ný og hefur samband við kennslusvið fyrir upphaf annar til að skrá sig að nýju. Leiðbeinandi skal staðfesta skriflega til kennslusviðs heimild nemanda til áframhaldandi vinnu við sömu ritgerð.

Frestun ritgerðar á milli anna er á ábyrgð nemanda en hafi leiðbeinandi ekki tök á að vinna með nemanda áfram eftir frestun skal nemandi greiða áðurgreint gjald, jafnvel þótt um sé að ræða frestun innan tveggja anna frá upphafi skráningar.

Að þremur árum liðnum fyrnist sú inneign sem nemandi kann að hafa átt í samræmi við reglur skólans um fyrningu inneignar vegna skólagjalda. Hafi nemandi ekki skilað lokaritgerð sinni innan þriggja ára skal hann því greiða að fullu fyrir einingar lokaritgerðarinnar.

Hlaða má niður reglunum með því að smella hér

(Áður skjal F230, nú tvö skjöl – Reglur og Leiðbeiningar)

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019

 

Viðauki 1 - Viðmið um mat á ritgerðum

 Einkunnaskali fyrir meistaraverkefni við Háskólann á Bifröst

10              fyrir frábæra úrlausn sem sýnir skapandi, gagnrýna hugsun og innsæi. Einkunn þessi er einungis gefin fyrir úrlausn sem skarar fram úr öðrum.

9 - 9,5       framúrskarandi skilningur og færni, framúrskarandi notkun kenninga og fræðagrunns, skýrt fræðilegt framlag og nýnæmi.

8 - 8,5       mjög góð þekking og skilningur á kenningum og fræðilegum forsendum. Skýr umfjöllun, eftirtektarvert fræðilegt framlag.

7 - 7,5       greinargóð þekking á efninu, færni við að nota og vinna með kenningar, skýr sýn á viðfangsefnið og fræðilegar forsendur þess.

5,5 - 6,5    sæmileg þekking á grundvallaratriðum, nokkur þekking á kenningum og fræðagrunni, viðleitni til að fjalla gagnrýnið og sjálfstætt um efnið.

5               lágmarksþekking á grundvallaratriðum, lágmarksskilningur á kenningum og fræðilegum forsendum sviðsins.

0 - 4,5      óviðunandi verk.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta