Samningur um innleiðingu Háskólans á Bifröst á Uglunni undirritaður 14. júní 2019

Samningur um innleiðingu Háskólans á Bifröst á Uglunni undirritaður

Síðastliðinn föstudag undirrituðu Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, samning milli skólanna þess efnis að Háskólinn á Bifröst mun innleiða tölvukerfið Ugluna sem er í eigu HÍ. Vinna við innleiðingu á Uglunni er í fullum gangi og verður hún tekin í notkun núna í byrjun júlí. Uglan hefur hingað til aðeins verið notuð sem megin tölvukerfi opinberu háskólanna og því eru þetta ákveðin tímamót.

Ugla er upplýsingakerfi sem nýtist háskólum í að halda utan um nemendaskráningu, námsumsjón og ýmislegt annað er varðar sjálft háskólastarfið. Uglan er því hjartað í starfi háskólanna og er notuð í öllum opinberu háskólunum og verður það nú einnig á Bifröst. Uglan er alfarið innlend framleiðsla og er þróuð og hýst hjá Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands. Um er að ræða heildstæða lausn sem miðast við íslenskar aðstæður og er þróun Uglunnar stýrt sameiginlega af öllum háskólunum. Ugla hefur leitt af sér mikla hagræðingu fyrir íslenska háskóla, m.a. með sameiginlegum rekstri kerfisins hjá Háskóla Íslands.

Kostir við að hafa sama kerfi í háskólum landsins eru ótvíræðir þar sem það getur og mun auðvelda samskipti milli skólanna, t.d. vegna námsferla nemenda, en einnig munu nemendur vinna í sambærilegu námsumhverfi án tillits til þess í hvaða skóla þeir stunda nám sitt. Sama á við um kennara sem kenna í fleiri en einum skóla.

Dagný Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu við skólann segir ferlið ganga vel. „Innleiðingarferlið hófst síðasta haust og við höfum verið að vinna að því jafnt og þétt síðan þá. Nú er komið að lokasprettinum því Uglan opnar á okkur 1. júlí.“ Aðspurð um áhrif innleiðingarinnar á starfsemi skólans segist Dagný vona að þetta muni bæta þjónustu við nemendur. „Við vonum að þetta verði mikið framfaraskref, bæði hvað varðar þjónustu við nemendur sem og starfsemi hér innanhúss. Skrefum fækkar fyrir bæði nemendur og starfsfólk og kerfið verður á margan hátt einfaldara fyrir nemendur, þar af leiðandi munum við geta veitt markvissari þjónustu

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta