Nýting þjónandi forystu minnkar hættu á kulnun í starfi 16. október 2018

Nýting þjónandi forystu minnkar hættu á kulnun í starfi

Komin er út ný bók í ritstjórn þeirra Dirk van Dierendonck og Kathleen Patterson byggð á nýjum rannsóknum á sviði Þjónandi forystu. Bókin ber heitið Practicing Servant Leadership, Developments in Implementation. Árið 2010 gáfu sömu höfundar út bókina Servant Leadership, Devlopements in theory and research.
 
Dirk van Dierendonck er einn helsti fræðimaður á sviði þjónandi forystu og Kathleen er sérfræðingur í þjónandi forystu og hafa þau skipulagt vísindaþing um fræðin undanfarin ár, svokallað Global Servant Leadership Research Roundtable. Slíkt þing var haldið við Háskólann á Bifröst á haustmánuðum 2016.  Þingið var haldið í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu sem Háskólinn á Bifröst hefur átt í góðu samstarfi við undanfarin ár og er meistaranám í forystu og stjórnun fjölmennasta námsbrautin við Háskólann á Bifröst.
 
„Í framhaldi af þinginu buðu þessir tveir ritstjórar nokkrum fræðimönnum sem voru á þinginu á Bifröst að senda inn rannsóknir sínar sem nú hafa verið birtar í þessari bók. Er hún ein af fáum bókum sem byggja á slíkum rannsóknum með áherslu á hagnýtingu þjónandi forystu,“ segir Sigrún Gunnarsdóttir, formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu og dósent við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst sem á kafla í bókinni sem hún skrifaði með samstarfsfólki sínu í Svíþjóð og Danmörku. Einnig á Dr. Robert Jack, sem hefur verið stundakennari við Háskólann á Bifröst, kafla í nýju bókinni.
 
Sigrún segir þjónandi forystu vera hugmyndafræði sem mikið hafi verið rannsökuð undanfarin ár og allt bendi til að svo verði áfram. Sjálf hefur hún unnið að slíkum rannsóknum síðastliðin tíu ár og bendir á að forseti viðskiptadeildar, Sigurður Ragnarsson, hafi nýverið birt sína fyrstu grein byggða á slíkum rannsóknum um notkun hugmyndafræðinnar í bandarískum fyrirtækjum.
 
„Áhugi hins akademíska heims á þessum fræðum fer mjög vaxandi og merki um það er t.d. fjöldi birtra rannsóknargreina sem eykst ár frá ári um allan heim. Við Háskólann á Bifröst hefur verið tekin meðvituð ákvörðun um að þjónandi forysta sé mikilvæg stoð í allri kennslu og starfi og Vilhjálmur rektor hefur lýst yfir að stigin verði ákveðin skref til að styrkja það enn frekar,“ segir Sigrún.

En hvað gerir fræðin svo vinsæl?

„Árangurinn sem þjónandi forysta skilar er það sem heillar og vekur athygli á hugmyndafræðinni. Rannsóknir hafa sýnt að nýting þjónandi forystu á vinnustöðum getur haft afgerandi áhrif á starfsánægju, minnkað hættu á kulnun í starfi og bætt teymisvinnu. Við erum nú að rannaska fleiri hliðar þjónandi forystu, til dæmis í tengslum við sköpun. Vísbendingar frá rannsóknum sýna að þjónandi forysta skilar árangri hvort sem um er að ræða innan stjórnsýslunnar, stofnana eða fyrirtækja. Um leið ber að nefna að það er ekki endilega auðvelt að innleiða þjónandi forystu því hún byggir á mikilli sjálfsrýni og aga á vinnustað og snýst um að flétta saman skýra ábyrgðarskyldu og gagnkvæman stuðning og skilning og takist það kemur árangurinn í ljós. Ég tel verulega þörf á því í íslensku samfélagi að leiðtogar beini sjónum sínum að því hvort fólki líði vel í starfi  og blómstri þar og kynni sér leiðir til að auka ánægju. Þjónandi forysta er kjörin leið til þess þar sem hún snýst um að rækta sjálfan sig um leið og tilgangur og ábyrgð starfsmanna er algjörlega skýr. Kjarninn er að skapa starfsfólki aðstæður til að geta blómstrað í starfi og ná markmiðum verkefnanna innan skýrs ramma og veita hvort öðru stuðning innan hans,“ segir Sigrún.

Hún bætir við að nýja bókin sé mikilvægt framlag til þekkingarþróunar um þjónandi forystu og einnig mjög áhugaverð með hliðsjón af hagnýtingu hugmyndarinnar. Bókin er aðgengileg á bókasafni Háskólans á Bifröst og er nýtt sem kennsluefni í meistaranámi í forystu og stjórnun.

Á myndinni eru frá vinstri þau Dirk van Dierendonck , Kathleen Patterson, Sigrún Gunnarsdóttir og Sigurður Ragnarsson.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta