Ný meistaralína í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu 24. apríl 2019

Ný meistaralína í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu

Næsta haust hefst kennsla í nýrri meistaranámslínu með áherslu á þjónandi forystu innan forystu og stjórnunar við skólann en sú námslína er sú fjölmennasta við skólann. Í grunnnámi við skólann er þjónandi forysta kennd í öllum námsleiðum og hefur það gefist vel. Þjónandi forysta skipar æ stærri sess innan leiðtogafræða og á vettvangi atvinnulífs og félagasamtaka. Þjónandi forysta leggur áherslu á vellíðan starfsfólks, skýra framtíðarsýn, árangursrík samskipti, heilbrigðan starfsanda, gott starfsumhverfi og sameiginlega ábyrgðarskyldu.

Í námslínunni, MS/MLM forysta og stjórnun, með áherslu á þjónandi forystu, er fjallað um hugmyndafræði og hagnýtingu þjónandi forystu á grunni fræðanna og með skírskotun til reynslu og raunverulegra dæma. Nemendur fá góða innsýn í þjónustu- og forystuvídd hugmyndafræðinnar með því að kynnast rannsóknum sem og reynslu fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka af  þjónandi forystu. Markmið námslínunnar er að nemendur þekki grundvallarhugmyndir þjónandi forystu, geti kynnt sér rannsóknir um hana og tileinkað sér efnið með gagnrýnum hætti. Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi með sér gagnrýnið sjónarhorn og kynni sér þjónandi forystu miðað við raunverulegar aðstæður og hafi skilning á hvaða árangri innleiðing þjónandi forysta skilar.

„Við rýnum í samskipti og skipulag sem efla vellíðan, ræðum um sameiginlega ábyrgðarskyldu sem skapar árangur og skoðum hvernig sjálfsþekking, núvitund og auðmýkt styrkja leiðtogann. Nýja námslínan er einstakt tækifæri til að kynnast árangsríkum áherslur þjónandi forystu sem rannsóknir sýna að tengjast vellíðan starfsfólks og árangri fyrirtækja og stofnana.“  -  Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, dósent Viðskiptafræðideild og formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu.

Mögulegt er að ljúka MS gráðu sem er 90 ECTS eininga nám og MLM gráðu sem er 90 ECTS eininga viðbótanám á meistarastigi án lokaritgerðar.

Umsóknarfrestur í meistaranám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst er til 15. maí næstkomandi. Námið er eingöngu kennt í fjarnámi og því hægt að stunda námið hvar sem er án þess að flytja sig til eða hætta í vinnu. Þá eru vinnuhelgar á Bifröst þar sem nemendur vinna verkefni og taka þátt í umræðum með kennara.

Frekari upplýsingar um námið má nálgast hér. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta