Reglur um ritun lokaritgerða í grunnnámi við Háskólann á Bifröst BS/BA ritgerðir

1. gr.

Lokaverkefni grunnnema í BS og BA námi er lokaritgerð sem staðfesta skal getu nemandans til að leggja drög að fræðilegu eða hagnýtu verkefni og vinna það til fulls. Lokaritgerðir í viðskiptadeild og í félagsvísindum eru 14 ECTS en lokaritgerðir í lögfræði eru 12 ECTS. Nemendur þurfa að hafa lokið 150 ECTS til þess að hefja skrif lokaritgerða.

2. gr.

Nemandi sem hyggst hefjast handa við skrif lokaritgerðar í grunnnámi skráir sig í námskeið og fyllir út eyðublað vegna lokaritgerðar fyrir tilskilinn umsóknarfrest (á haustönn fyrir komandi vorönn og á vorönn fyrir komandi haustönn). Ritgerðarefni skal tilgreint á eyðublaði og nafn leiðbeinanda. Nemandi hefur samband við þann kennara skólans (fastan kennara eða stundakennara) sem hann óskar eftir sem leiðbeinanda. Leiðbeinandi skal uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til kennara við háskólann. Ef leiðbeinandi er ekki starfandi kennari við skólann eða stundakennari þarf nemandinn að leita eftir undanþágu hjá deildarforseta.

Nemandi ber sjálfur fulla ábyrgð á ritgerðarskrifum og leiðbeinandi er honum til leiðsagnar.

3. gr.

Nemanda ber að virða dagsetningar skila sem tilgreindar eru í kennslukerfi skólans. Dagsetningar skila má sjá undir verkefni á heimasíðu námskeiðsins. Virði nemandi ekki tilskildar dagsetningar er leiðbeinanda heimilt að segja sig frá verkefninu og þarf nemandi þá að hefja vinnuna á ný með öðrum leiðbeinanda og greiða háskólanum fyrir einingarnar að nýju.

4. gr.

Leiðbeinandi skal veita nemanda viðtal vegna skila rannsóknaráætlunar, milliskila og lokaskila. Öll samskipti vegna lokaritgerðar, s.s. fundir, aðstoð, símtöl og tölvupóstur teljast til viðtalstíma.

Leiðbeinanda ber að skila nemanda efnislegum athugasemdum og ábendingum innan tveggja vikna frá skilum rannsóknaráætlunar í kennslukerfi, milliskila og lokaskila til leiðbeinanda. Leiðbeinandi skal tilkynna nemanda og kennslusviði innan tveggja vikna frá lokaskilum til leiðbeinanda ef verulegir annmarkar eru á verkefninu svo ljóst þyki að nemandi nái ekki að lagfæra verkefnið í tæka tíð fyrir lokaskil til skrifstofu.

5. gr.

Ekki er gefin sérstök einkunn fyrir rannsóknaráætlun en hún þarf að vera samþykkt af leiðbeinanda. Nemandi sem ekki hefur skilað rannsóknaráætlun fyrir auglýstan skilafrest telst hafa sagt sig frá ritgerðarsmíð á önninni.

Í milliskilum til leiðbeinanda skal frumleikaskýrsla (Originality report) frá ritstuldarforritinu Turnitin fylgja skilum í kennslukerfið.

Nemandi skilar lokauppkasti að ritgerð til leiðbeinanda gegnum kennslukerfi skólans eigi síðar en fjórum vikum fyrir lokaskil til háskólaskrifstofu.

Leiðbeinandi skilar umsögn um lokauppkastið innan tveggja vikna. Nemandi hefur tvær vikur til að bregðast við athugasemdum frá leiðbeinanda fyrir lokaskil til skrifstofu. Ef annmarkar eru á verkefninu sem leiðbeinandi telur að nemanda sé ekki unnt að lagfæra áður en til lokaskila til skrifstofu kemur skal leiðbeinandi tilkynna það nemandanum og kennslusviði eigi síðar en innan þessara tveggja vikna. Nemanda gefst þá kostur á að fresta skilum þar til á næstu önn.

Neiti leiðbeinandi að staðfesta að lokaritgerð sé hæf til skila getur nemandi vísað þeirri ákvörðun til deildarforseta.

Nemanda er ekki heimilt að skila lokaritgerð til skrifstofu nema að fengnu samþykki leiðbeinanda.

6. gr.

Eftir skil lokaritgerðar skipar deildarforseti prófdómara til að meta ritgerðina. Leiðbeinandi og prófdómari meta ritgerðina hvor fyrir sig. Leiðbeinandi skilar einkunn og sameiginlegri umsögn hans og prófdómara í kennslukerfi skólans. Einkunn fyrir lokaritgerð er endanleg og ekki kæranleg. Við mat á ritgerðum skulu leiðbeinandi og prófdómari hafa til hliðsjónar matsblað sem kennslusvið lætur í té.

7. gr.

Sjái nemandi fram á að hann nái ekki að skila ritgerð sinni fyrir auglýstan lokaskilafrest ber honum að láta kennslusvið vita áður en skilafrestur rennur út. Nemandi sem ekki skilar ritgerð á tilsettum tíma án þess að hafa samband við kennslusvið telst fallinn í námskeiðinu.

Nemandi í grunnnámi getur frestað ritgerð einu sinni um eina önn frá upphafi skráningar. Skili nemandi ekki innan þess tíma skal hann greiða fyrir einingarnar að nýju upphæð sem nemur hálfu staðfestingar- og innritunargjaldi í skólann hverju sinni.

Frestun ritgerðar á milli anna er á ábyrgð nemanda. Hann ber sjálfur ábyrgð á að vera skráður í ritgerð að nýju og óskar eftir skráningu í ritgerðarnámskeið hjá kennslusviði í upphafi annar. Leiðbeinandi nemandans skal staðfesta skriflega til kennslusviðs heimild nemanda til áframhaldandi vinnu við sömu ritgerð.

Hefji nemandi skrif ritgerðar með nýjum leiðbeinanda um annað efni en upphafleg rannsóknaráætlun fjallar um telst það nýskráning í skrif lokaritgerðar og greiða þarf fyrir einingarnar.

8. gr.

Lokaritgerð getur aldrei verið lokuð í Skemmu, rafrænni varðveislu skólans, um ókomna tíð heldur er skylt að tilgreina opnunardagsetningu ritgerðar.

Misbrestur á meðferð heimilda, ritstuldur, kynning á efni annarra líkt og um eigið verk sé að ræða og falsanir af öllu tagi geta varðað við brottrekstur í samræmi við reglur Háskólans á Bifröst.

Hlaða má niður reglunum með því að smella hér.

(Áður skjal F180, nú tvö skjöl – Reglur og Leiðbeiningar)

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta