XVI. ráðstefna Íslenska þjóðfélagsins fjallar um ógnir og öryggi í sögu og samtíma í víðum skilningi, hér á landi jafnt sem erlendis.

Ógnir og öryggi eru þekktar andstæður, sem taka sífellt meira rými í umræðu um stjórnmál, alþjóðamál, þjóðaröryggi, efnahags- og viðskiptamál og félagslega þætti náttúruhamfara, svo að dæmi séu tekin. Þessi þróun hefur um margt ágerst víða um veröld, ekki hvað síst á Vesturlöndum. Hefur aukin krafa um öryggi jafnvel verið talin til marks um nýja ógn sem vegi að undirstöðum lýðræðis.

Tekið er við ágripum erinda til og með 1. apríl 2024 á netfanginu deildarforsetifd@bifrost.is. Fyrirlesurum er bent á, að gert er ráð fyrir að hver höfundur flytji einungis eitt erindi á hverri ráðstefnu. Fyrirlesarar geta aftur á móti verið meðhöfundar að fleiri erindum. 

Nánari upplýsingar veitir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.