Jarðfræði

Ísland er hlaðið upp af jarðeldi, en mótað af eldi, ís og vatni. Saga landsins er stutt jarðfræðilega séð- gerist öll á þeirri öld jarðsögunnar er nýlífsöld nefnist, og hófst fyrir u.þ.b. 60 milljónum ára (aldur jarðar og elstu berglaga er talinn um 5500  milljónir ára). Elztu hlutar landsins mynduðust á tertíertímabilinu, en svo nefnist fyrri hluti nýlífsaldar, síðan hefur myndun landsins og mótun haldið stöðugt áfram, út tertíertímann, gegnum ísöldina, sem byrjaði með kvartertímablilinu fyrir u.þ.b. 3 milljónum ára, og þau 10 þúsund ár, sem liðin eru síðan ísöld lauk. Sérsakar bergmyndanir með ólíku landslagi hafa orðið til á hverjum þessara þriggja tíma, svo vel vill til, að allra þeirra sér stað kringum Bifröst.

Á tertíer hlóðust upp þykkar blágrýtishraunsyrpur í mörgum eldgosum, er mynda undirstöðu landsins alls. Þá, sem nú, var eldvirknin að mestu tengd gosbeltinu, sem lá frá SV til NA þvert yfir landið, og hraunin bárust síðan út frá því til beggja átta með landreki.  Hraunlögunum hallar jafnan í átt til gosbeltisins, þar sem þau mynduðust, en nýlegar rannsóknir benda til þess, að berggrunnurinn í vestanverðum Norðurárdal, hafi myndast fyrir u.þ.b. 10 milljónum ára í gosbelti sem lá frá SV til NA um vestanvert Snæfellsnes og Hvammsfjörð. Þess vegna hallar hinum eldri hraunlögum til norðvesturs, í átt að því belti.

Fyrir 6-7 milljón árum fluttist gosbeltið til austurs í núverandi stöðu um Langjökul og Reykjanes, og ný hraun lögðust  mislægt  ofan á hin eldri.  Hér leið því langur tími milli þess að hinni eldri eldvirkni lauk, og þar til ný hófst, og á þeim tíma unnu roföflin á landinu og lágslétta svipuð núverandi Mýrum myndaðist þarna. Frá þessu tímabili eru setlögin og surtarbrandurinn í gili Brekkuár norðan við Bifröst, og í svonefndu Surtarbrandsgili, er fellur í Fanná við Þórisengismúla. Bergið undir setlaginu er því 10 milljón ára, en ofan á því 5-6 milljón ára, og á yngra skeiðinu, þ.e. á gosbeltinu suður af Langjökli, mynduðust öll þau fjöll, er frá Bifröst sjást, frá austri um suður til vesturs, en ágæt  dæmi eru Grjótháls og Skarðsheiði, þar sem blágrýtislögin koma einkar skýrt í ljós.

Kvartertímabilið hófst, er ísöld gekk í garð, en þá huldist Ísland allt jökli, svo að einungis hæstu fjallseggjar á annesjum stóðu upp úr. Skriðjöklar gengu niður alla dali, og mótuðu þá og dýpkuðu, enda eiga skriðjöklar ísaldar einna mestan þátt í myndun núverandi landslags. Yfirleitt fylgdu jöklarnir eldri dölum, er grafizt höfðu vatni, en slíkir dalir fylgja ríkjandi sprungustefnu á hverju svæði. Þannig eru tvær tertíerar sprungustefnur mest áberandi í Borgarfirði: Norðurárdalur og Hreðavatn fylgja t.d. NA-SV- stefnu gosbeltisins, en uppdalirnir, frá Skorradal til Hvítársíðu, VNV-ASA- stefnu, sem rakin er til jarðskorpuhreyfinga á þeim tíma, er gosbeltið var að flytjast austur til núverandi stöðu. Þessari síðarnefndu stefnu fylgja ungar eldstöðvar á Snæfellsnesi, sem brunnið hafa á ísöld og síðan, en Grábrók er talin austasta eldstöðin á Snæfellsnessvæðinu. Af hlaðinu á Bifröst má greinilega sjá misgengi, er fylgir þessari stefnu:ljóst lag í hömrunum ofan við Svartagil er brotið um gilið, svo að norðan við það er lagið um það bil 10 m. neðar en að sunnan. Misgengi þetta má rekja allt frá Svartagili í Hreðavatn mitt, en annað misgengi liggur þvert yfir Norðurárdal milli Brekku og Hraunsnefs, og myndar þar greinilegan hjalla rétt norðan við Brekku.

Á jökultíma myndaðist móbergsfjallið Vikrafell, sem er aflangt austur-vestur, við eldgos undir jöklinum. Þá var í Vikrafelli svipuð eldstöð og ætla má, að nú sé í Kötlu og Grímsvötnum í Vatnajökli. Móbergið er í flestu ólíkt blágrýtinu: hrúga af eldfjallaösku, sem runnið hefur saman í fast berg. Eldstöðvar frá þessum tíma eru algengar um miðbik landsins frá Þingeyjarsýslu suður og vestur til Reykjaness. Jöklar ísaldar höfðu breytt svo landslagi, að víða voru dalir ákaflega djúpir og þverhníptir eftir. Þegar jöklarnir bráðnuðu, reis landið úr sæ með ókyrrð og landsskjálftum, en fjöllin misstu aðhald jöklanna, er áður höfðu fyllt dalina og stutt hamrana. Þá urðu skriðuhlaup tíð, og þá hljóp Hraunsnefsöxl fram og myndaði hina miklu urð milli Hraunsnefs og Hvassafells.

Síðasti stórviðburðurinn í nágrenni Hreðavatns varð svo fyrir u.þ.b. 3000 árum, er Grábrók gaus.  Það gos hefur verið með líkum hætti og Öskjugosið 1961- gjallgígaröð og hraun. Úr Grábrókarfelli rann hraun til SSV, stíflaði farveg Brekkuár, kom við í norðurenda Hreðavatns, og hélt síðan áfram niður í dalinn. Úr Grábrók rann hraunið til austurs, stíflaði Norðurá og myndaði stöðuvatn, sem síðan fylltist af framburði árinnar, þar sem nú eru hinar miklu sléttlendisengjar Desey. Með tímanum brauzt Norðurá yfir hraunið og gróf sig niður í gegnum það, en Brekkuá fann farveg neðanjarðar gegnum hraunið og beljar út undan því sem vatnsmiklar lindir gegnt Veiðilæk. Aldur Brókarhrauns var ákvarðaður með C14 aðferð á móleifum, er teknar voru undir hrauninu við suðurenda þess í bakka Hraunár.

Hið volduga líparítfjall Baula er hraungúll, sem myndaðist í eldgosi fyrir 3.5 milljónum ára, skömmu fyrir ísöld.  Bergkvikan var svo seigfljótandi að hún hneig varla, heldur hlóðst upp ofan á gosopinu, svo sem háttur er við líparítgos.

Höfundur texta er dr. Sigurður Steinþórsson.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta