Málsaðilar tjá sig ekki – kerfið svarar ekki fyrir sig 20. nóvember 2015

Málsaðilar tjá sig ekki – kerfið svarar ekki fyrir sig

Nomos, félaga laganema, hélt í vikunni málstofu um beitingu gæsluvarðhalds í tengslum við rannsóknir kynferðisbrotamála. Tilefnið var hin mikla umræða sem hefur skapast um almannahagsmuni í kjölfar þess að ekki var farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna við rannsókn lögreglu á nauðgun nýverið. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs, hélt erindi en hún vann að rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem lögregla á Íslandi hafði til rannsóknar árin 2008 og 2009. Í rannsókninni voru greindar lögregluskýrslur og rannsóknargögn í 189 nauðgunarmálum. Þorbjörg varpaði fram þeirri spurningu hvernig réttarkerfið gæti náð því fram að verja hagsmuni brotaþola í kynferðisbrotamálum án þess að brjóta gegn réttindum sakbornings.

Málsaðilar tjá sig ekki – kerfið svarar ekki fyrir sig

Í erindi Þorbjargar kom meðal annars fram að engar greinar lögfræði væru sýnilegri í fjölmiðlum en refsiréttur og sakamálaréttarfar. Sérstaða frétta af sakamálum væri einnig sú að sjálf viðfangsefnin tjá sig sjaldnast, hvorki sakborningar né brotaþolar og kerfið gæti eðli málsins samkvæmt veitt takmarðar upplýsingar. Þegar kynferðisbrotamál eru rekin fyrir dómi séu þau alltaf lokuð í þeim skilningi að almenningur og fjölmiðlar mega ekki sitja inni á meðan réttarhöldin fara fram. Fjölmiðlar reyna því eftir fremsta megni að draga upp mynd af rannsóknum mála sem og dómsmeðferð en stundum án þess að hafa úr miklum upplýsingum að vinna.  Í erindi Þorbjargar kom meðal annars fram að um gæsluvarðhald væri ekki aðeins fjallað um í lögum um meðferð sakamála, alvaran þar að baki væri svo mikil að í 67. gr. stjórnarskrár væri fjallað um þessa frelsisskerðingu og þvingunarráðstöfun. Þegar gæsluvarðhaldi væri beitt við rannsókn mála væri lögregla og ákæruvald að krefjast þess að sakborningur sem ekki hefur verið dæmdur sekur fyrir afbrot verði engu að síður vistaður í fangelsi.

Hversu oft er gæsluvarðhaldi beitt?

Í fyrirlestri Þorbjargar kom fram að við rannsókn á meðferð nauðgunarmála hefði komið fram að handtökum hefði verið beitt í 69 málum af 189. Eftir handtöku stæði ákæruvald frammi fyrir því að meta hvort rannsóknarhagsmunir máls krefjist þess að farið verði fram á gæsluvarðhald. Sjaldgæft væri að farið væri fram á gæsluvarðhald og enn sjaldgæfara á grundvelli almannahagsmuna. Þorbjörg greindi frá því að á árunum 2008 og 2009 hefði gæsluvarðhalds verið krafist vegna rannsóknarhagsmuna í tíu málum, eða 5,3% mála. Í 9 af 10 málum hefði dómur fallist á kröfu um gæsluvarðhald.  Gæsluvarðhalds hefði svo verið krafist og úrskurðað vegna rannsóknar- og almannahagsmuna í tveimur málum, eða 1,1% mála. Alls sættu 11 sakborningar gæsluvarðhaldi en ákæra var gefin út gegn fimm þeirra.

Markmið lögreglu að leiða í ljós hið sanna og rétta

Kröfurnar væru strangar og Þorbjörg nefndi einnig að alþjóðlegar eftirlitsnefndir á sviði mannréttinda hefðu gert athugasemdir þess efnis að einangrunarvistun í gæsluvarðhaldi hefði verið beitt óhóflega hér á landi. Umræðan af rannsókn lögreglu á þessu tiltekna máli sýndi að lagaskilyrði og umræðan í þjóðfélaginu færu ekki alltaf saman, en markmið lögreglu og ákæruvalds væri að afla allra nauðsynlegra gagna við rannsókn máls. Hlutverk ákæranda væri að leiða hið sanna og rétta í ljós um málsatvik og að lögregla þyrfti að ná fram þessu markmiði og verja samfélagið fyrir afbrotum, án þess þó að brjóta gegn réttindum sakbornings. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta