Kennslustefna 

Stefna Háskólans á Bifröst er að bjóða nemendum uppá framúrskarandi nám sem skilar þeim víðtækri þekkingu á sínu fræðasviði, eykur víðsýni og gagnrýna hugsun og eflir sköpunarkraft. Lögð er áhersla á að efla færni nemenda í að beita faglegum vinnubrögðum, notkun kenninga og hugtaka við úrlausn verkefna sinna og auka hæfni þeirra í úrlausn raunhæfra verkefna. Þannig miðar Háskólinn á Bifröst að því að nemendur fái sem bestan undirbúning fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi og atvinnulífi eða fyrir frekara nám. Háskólinn á Bifröst uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til náms á þeim fagsviðum sem skólinn hefur viðurkenningu á.

Kennsluhættir og fyrirkomulag kennslu

Kennsla við Háskólann á Bifröst samanstendur af fjölbreyttum kennsluaðferðum þar sem lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda með góðum fræðilegum stuðningi kennara. Háskólinn á Bifröst leggur þannig mikið upp úr verkefnavinnu þar sem reynir á frumkvæði og ábyrgð nemenda og samvinnu þegar um hópastarf er að ræða. Áhersla er lögð á fjölbreytni og fagmennsku í námsmati og að samræmi sé á milli kennsluaðferða, námsmats og hæfniviðmiða.

Háskólinn á Bifröst notar kennsluaðferðir sem byggja á fyrirlestrum, sem kennari birtir í kennslukerfi háskólans, mikilli verkefnavinnu og prófum eða lokaverkefnum. Boðið er uppá samverustundir með kennurum í staðlotum sem skilgreindar eru í dagskrá skólaársins og á Teamsfundum í upphafi og lok kennslu.

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að nemendur nýti samverustundir með kennurum í verkefnavinnu eða umræður um námsefni, þar sem því verður við komið, en fylgi fyrirlestrum kennara á netinu. Áhersla er lögð á að gefa nemendum kost á starfsnámi, bæði í grunn- og meistaranámi.

Kennarar

Háskólinn á Bifröst leitast við að fá til sín hæfa kennara sem hafa sterkan fræðilegan bakgrunn, skipulagshæfileika til að undirbúa kennslu vel og löngun og getu til að miðla af þekkingu sinni á kerfisbundinn hátt sem skapar jákvætt og skapandi umhverfi.

Kennarar við Háskólann á Bifröst sýna frumkvæði við nýsköpun og þróun í kennsluháttum. Háskólinn á Bifröst leggur jafnframt áherslu á að veita kennurum tækifæri til símenntunar og þjálfunar á sínu fagsviði. Að sama skapi kynna kennarar sér vel reglur um nám og kennslu sem og gæðahandbók skólans og þurfa að uppfylla öll þau skilyrði sem þar eru fram sett.

Kennsla og tengsl við rannsóknir og þróunarverkefni

Háskólinn á Bifröst hvetur kennara til að tengja rannsóknir sínar og/eða eigin sérsvið við kennslu eins og kostur er. Nemendur við Háskólann á Bifröst eiga þess kost að taka þátt í rannsóknar- eða þróunarverkefnum undir handleiðslu kennara eftir því sem efni standa til hverju sinni og hljóta þannig þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum.

Kennsla og tengsl við atvinnulíf og samfélag

Sérstök áhersla er lögð á að tengja nám og verkefnavinnu við atvinnulíf og samfélag. Háskólinn á Bifröst miðar að því að veita nemendum tækifæri til að vinna raunhæf verkefni, ýmist fyrir einstök fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og sveitarfélög sem býr nemendur enn betur undir þátttöku í atvinnulífinu að námi loknu. Háskólinn á Bifröst leggur ekki síður áherslu á samfélagsleg verkefni sem stuðla að því að styrkja nærsamfélagið, m.a. á sviði byggðaþróunar með sjálfbærni og samfélagsábyrgð að leiðarljósi.

Kennsla og alþjóðlegt samstarf

Nemenda- og starfsmannaskipti er fastur liður í starfi skólans þar sem nemendur hafa möguleika á því að taka hluta af námi sínu við erlenda háskóla. Að sama skapi er það stefna Háskólans á Bifröst að starfsmenn eigi þess kost á að taka þátt í kennara- og starfsmannaskiptum. Jafnframt leitast Háskólinn á Bifröst við að auka samstarf við erlenda háskóla með þátttöku í sameiginlegu námskeiðahaldi eða námslínum sem fjármagnaðar eru af utanaðkomandi styrkjum.

Kennsluaðstaða og aðbúnaður fyrir kennara og nemendur

Háskólinn á Bifröst leitast við að hafa góðan aðbúnað fyrir nám og kennslu, ekki síst hvað varðar húsnæði, tækni, þjónustu og kennslukerfi. Háskólinn leitast við að veita góða þjónustu fyrir kennara og nemendur sem styður vel við nám og kennslu.

Gæðaeftirlit með námi og kennslu

Námsframboð skólans og uppbygging námsbrauta eru endurskoðuð reglulega, með það að leiðarljósi að viðhalda og efla styrk námsins, sinna sem best þörfum nemenda og tryggja þeim góða undirstöðu fyrir þátttöku í atvinnulífi og samfélagi eða fyrir framhaldsnámi.

Háskólinn á Bifröst á fulltrúa í ráðgjafanefnd íslenskra háskóla og starfsemi háskólans er metin reglulega, bæði hvað varðar innra mat og reglubundna ytri úttekt á gæðum náms og kennslu. Mat nemenda á kennslu í einstökum námskeiðum er framkvæmt reglulega og er kennurum birtar niðurstöður þess mats á hverri önn. Kennari og viðkomandi yfirmaður skoða í framhaldi af því hvað megi betur fara og hvað vel er gert. Kennslusvið sér um að samræmis gæti í framsetningu á kennsluáætlunum og námsmati í einstökum námskeiðum með markvissri gæðastýringu innan allra deilda háskólans. Allar námslínur hafa fagstjóra sem starfar í viðkomandi deild. Fagstjóri hefur umsjón og eftirlit með viðkomandi námsbraut og hefur yfirsýn yfir einstök námskeið, innihaldi þeirra og er tengiliður við stundakennara. Hefur frumkvæði að breytingum í samráði við deildarforseta.

Siðareglur og siðferðileg viðmið

Kennarar og nemendur við Háskólann á Bifröst kynna sér og virða siðareglur skólans en nemendur bera sjálfir ábyrgð á eigin námi og námsframvindu. Kennarar og nemendur skulu hafa gagnkvæma kurteisi, heilindi og virðingu að leiðarljósi í samskiptum sín á milli.

Framkvæmd og eftirfylgni kennslustefnu

Akademískar deildir háskólans og kennslusvið skipuleggja framkvæmd kennslustefnunnar og fylgja henni eftir.

Prentvæn útgáfa

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 08.04.2022

Gildir frá 01.08.2022

Staðfest af rektor 08.04.2022