Jafnréttisdagar eru frá mánudeginum 12. febrúar til fimmtudagsins 15. febrúar.

Þemað í ár er inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum. Að þessu sinni stendur Háskólinn á Bifröst fyrir tveimur viðburðum í tilefni af jafnréttisdögum:

Þriðjudaginn 13. febrúar kl. 14:00 sendir Háskólinn á Bifröst út í beinni útsendingu hlaðvarpið Hatursorðræða - hvað er til ráða? Bjarki Þór Grönfeldt, lektor við HB og Ólöf Tara hjá Öfgum, ræða orsakir og afleiðingar aukinnar hatursorðræðu í samfélaginu, samfara aukinni skautun í þjóðfélagsumræðunni og öfgahyggju. Að útsendingu lokinni verður upptaka á hlaðvarpinu gerð aðgengileg á helstu veitum.

Þá býður Háskólinn á Bifröst í kaffispjall, miðvikudaginn 14. febrúar, kl. 14:00 - 15:30 með Daníeli E. Arnarssyni (hann/he), framkvæmdastjóra Samtakanna '78. Daníel kemur í hús kl. 15:00 og flytur hugleiðingu um stöðu jafnréttismála og mikilvægustu forgangsmál baráttunnar og tekur að því búnu þátt í umræðum. Áætlað er að viðburðinum ljúki kl. 15:30.

Jafnréttisdagar hafa verið haldnir árlega síðan 2009. Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan skólans sem utan. Hugmyndin er sú að gefa fólki tækifæri á að kynnast því starfi og þeim hugmyndum sem hafa verið að gerjast í jafnréttismálum í háskólasamfélaginu.

Ítarlegri uppýsingar um dagskrá Jafnréttisdaga má finna á glænýjum vef Jafnréttisdaga, á Facebook og á Instagram.