Áfallastjórnun
6 ECTS einingar á framhaldssstigi
75.000 kr.
12 vikna námskeið
Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir
Áfallastjórnun
Í námskeiðinu verður fjallað um skilgreiningu og mismunandi eðli áfalla og hvað felst í áfallastjórnun. Athygli beinist að þeim sem taka ákvarðanir og spurt er hvers vegna og hvernig þeir/þær velja eina leið framar annarri í viðbrögðum vegna áfalla Innan skipulagsheilda eru aðilar í þeirri aðstöðu – nái þeir samkomulagi- að geta ráðstafað auði hennar og völdum þannig að aðrir einstaklingar, hópar eða stofnanir ná ekki að breyta þeirra ákvörðun. Rýnt verður í þrjár gerðir áfallastjórnenda sem ákvarðanatökulíkön sýna að eru ríkjandi í viðbrögðum, þ.e. ríkjandi leiðtogar, stakir hópar eða bandalag hópa. Áhersla er lögð á að skilja lykilþætti sem hafa áhrif á áfallastjórnendur. Slíkir þættir snúa t.d. að því hvernig stjórnendur skynja og skilgreina áföll, hvernig þeir mæta átökum og/eða ná samvinnu með öðrum og hvernig þeir miðla upplýsingum og læra af reynslunni. Eins er horft til þess hvernig ríkjandi kúltúr og siðferðigildi hafa áhrif á hegðun stjórnenda í viðbrögðum vegna áfalla. Í námskeiðinu munu nemendur kynnast mismunandi afstöðu fræðisviða gagnvart áfallastjórnun, eins og á sviði alþjóðasamskipta, opinberrar stjórnsýslu og almannatengsla. Nemendur munu vinna að greiningu á áföllum að þeirra eigin vali.
Fyrir hverja, þátttökugjald, forkröfur og einingar
Námskeiðið er fyrir þá sem vilja kynna sér hvað felst í áfallastjórnun.
Þátttakendur þurfa að hafa lokið grunnnámi á háskólastigi.
Þátttökugjald er 75.000 kr.
Námskeiðið veitir 6 ECTS einingar á framhaldsstigi.
Fyrirkomulag
Námskeiðið er kennt í lotubundnu fjarnámi. Námskeiðið stendur yfir í tólf vikur og nemendur mæta í tvær vinnustofur á því tímabili. Kennsla hefst 18. ágúst 2024. og er kennt til 23.nóvember 2025. Vinnustofurnar tvær verða 11. - 14. september og 6. - 9. nóvember, en nánari tímasetning er kynnt í námskeiðinu. Námsmat fer fram dagana 24. - 30. nóvember.
Kennari
Kennari námskeiðsins er dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst.
Styrkir
Mörg stéttarfélög bjóða upp á styrki vegna námskeiða. Kannaðu málið hjá þínu stéttarfélagi.
Umsóknarfrestur og skráning
Umsóknarfrestur er til 14. ágúst 2025.
Vinsamlegast láttu fylgja gögn í viðhengi sem sýna að þú uppfyllir aðgangsviðmið.
Allar nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu endurmenntun@bifrost.is.