8. apríl 2024

Nýir og spennandi möguleikar

Frumvarp um breytingar á lögum um háskóla sem snúa að örnámi og prófgráðum úr diplóma- og viðbótarnámi var samþykkt á Alþingi fyrir páska.

Með lagabreytingunni hafa háskólar landsins öðlast heimild til að bjóða stuttar námslínur til ECTS eininga, en í því felst að örnám lýtur nákvæmlega sömu gæðakröfum og gerðar eru til annars náms á háskólastigi. 

Áform um þessar breytingarnar komu upphaflega fram fyrir liðlega hálfu öðru ári, en fram að þessu hefur örnám ekki verið skilgreint sérstaklega í lögum um háskóla.

Háskólinn á Bifröst reið fyrstur íslensku háskólanna á þetta nýja vað og er þegar með tvær áhugaverðar örnámslínur í boði eða Rafræna fatahönnun og Gæðstjórnun.

Að sögn Önnu Jónu Kristjánsdóttur, forstöðumanns Endurmenntunar HB, hefur örnám vaxið hratt að umfangi í mörgum Evrópulöndum á unadnfönum árum, ekki hvað síst samfara auknum kröfum varðandi hæfniþróun og endurmenntun í formi styttri námsleiða á vinnumörkuðum.

„Við sjáum marga nýja og spennandi möguleika í þróun á námsframboði hjá okkur með nýja örnáminu,“ segir Anna Jóna. „Við stefnum síðan á að bæta jafnt og þétt við framboðið hjá okkur, enda margir spennandi valkostir í boði.“

Nýju námslínurnar prýða allir góðir kostir örnáms. Þær svara beint afmörkuðum þörfum innan atvinnulífsins og fela í sér stutt 12 ECTS eininga nám sem nemendur ljúka í áföngum á samtals 24 vikum. Þá er það í fjarnámi, sem auðveldar fólki á vinnumarkaði ástundun þess.

Jafnframt standa að sögn Önnu Jónu vonir til þess að með auknu framboði örnáms, myndist aukinn hvati fyrir fjölbreyttan hóp nemenda til að sækja háskólanám. Með því móti geti háskólarnir enn betur gegnt samfélagslegu hlutverki sínu, t.a.m. gagnvart fólki af erlendum uppruna, fólki með fötlun eða aðrar sérþarfir eða til að auka hlut karla í háskólanámi hér á land.

Sjá nánari upplýsingar á vef stjórnarráðsins

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta