Mikill aufúsugestur 4. mars 2024

Mikill aufúsugestur

Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur var vel fagnað, þegar hún birtist óvænt á árshátíð NFHB sl. föstudagskvöld og skálaði við nemendur í tilefni af niðurfellingu skólagjalda. Er óhætt að segja að ósvikin gleði hafi verið við völd og var ráðherra klappað lof í lófa vel og lengi.

Svo skemmtilega vill til, að fyrr um daginn, undirrituðu ráðherra og rektor Háskólans á Bifröst samning um niðurfellingu skólagjalda gegn óskertum fjárframlögum til háskólans. Með rektor í för voru fulltrúar nemenda, núverandi og fyrrverandi forsetar Nemendafélags Háskólans á Bifröst, þau Hlynur Finnbogason og Embla Líf Hallsdóttir.

Telja má líklegt að ráðherra hafi við undirritunina komist á snoðir um árshátíð nemendafélagsins, sem var haldin þetta föstudagskvöld með pompi og prakt, en um eina fjölmennustu árshátíð félagsins er að ræða fram að þessu.

„Það var alveg frábært að ráðherra skyldi koma við og samfagna með okkur að skólagjöld hafi verið felld niður og það verð ég nú að segja, að betri boðflennu er vart hægt að hugsa sér eða skemmtilegra tilefni,“ segir Hlynur Finnbogason, forseti Nemendafélags Háskólans á Bifröst, með breitt bros á vör.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta