3. mars 2015

Máttur kvenna til Tansaníu - kynningarfundur í hádeginu 6. mars

Háskólinn á Bifröst vinnur nú að því viðamikla mennta- og þróunarverkefni að flytja námskeiðið Máttur kvenna út til Afríku. Í fyrsta fasa er efnalitlum konum í þorpinu Bashay í Norður-Tansaníu veitt ókeypis menntun. Markmiðið er að búa þær tækjum til að koma auga á viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu og færni til að koma þeim í framkvæmd.

Verkefnið verður kynnt næstkomandi föstudag á opnum fundi í húsakynnum Háskólans á Bifröst að Hverfisgötu 4-6 (5. hæð) í Reykjavík. Um leið verður félagið WOMEN POWER stofnað en það mun í samstarfi við Háskólann á Bifröst reka verkefnið. Fundurinn er öllum opinn, sem og aðild að félaginu.

Fundurinn hefst á léttum hádegisverði kl. 12:00. Korteri síðar fer Magnús Árni Skjöld Magnússon yfir forsögu verkefnisins Máttur kvenna. Anna Elísabet Ólafsdóttir og Restituta Joseph (Resty) ræða um verkefnið sem haldið verður í norður Tansaníu í apríl. Að lokum mun Ólöf Magnúsdóttir, rekstarstjóri UNICEF á Íslandi ræða stöðu kvenna í ólíkum menningarheimum.

Nálega þúsund íslenskar konur hafa numið í námskeiðinu Máttur kvenna sem Háskólinn á Bifröst hefur haldið úti í áratug en því er ætlað að skóla konur til aukinnar þátttöku í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Háskólinn á Bifröst telur sig ekki aðeins bera samfélagslega ábyrgð í heimabyggð heldur einnig í heimsbyggð. Nú þegar áratugar reynsla er komin á þessa aðferð viljum við veita fleirum álíka tækifæri og aðlaga verkefnið að háttum heimamanna í Afríku.

Til að undirbúa fyrsta námskeiðið í Tansaníu sem haldið verður núna í apríl er stödd hér á landi ung kona frá Tansaníu, Resty, sem dvelur hér í 7 vikur alls. Að lokinn þjálfun hér á landi undirbýr hún bæði leiðbeinendur í Tansaníu og námskeiðið sjálft. Þrír kennarar fara þá frá Bifröst og veita afrísku konunum handleiðslu við að koma á fót eigin rekstri.

Samkvæmt nýrri skýrslu Oxfam á eitt prósent jarðarbúa nálega helming auðs veraldar og tuttugasti hluti á 95 prósent eignanna. Því miður er fátækt enn útbreidd eins og raunin er víða í Afríku. En rannsóknir sýna að í baráttunni gegn fátækt bítur menntunin best – með menntun fær fólk tæki til að berjast úr örbirgð til bjargálna.

Til verkefnisins í Bashay leggur Háskólinn á Bifröst fram kennara og umsýslu heima fyrir. En við getum þetta ekki ein. Og leitum því til Íslendinga. Mikilægt er að fá fyrirtæki og einstaklinga til liðs við okkur og styrkja verkefnið. Tanzanice Farm, Íslandsbanki og Bernhard Laxdal hafa þegar boðið fram stuðning og við eigum í viðræðum við fleiri góð fyrirtæki. Við vonum að fleiri fyrirtæki og einstaklingar vilji leggja málinu lið. Því er söfnun einnig að hefjast á Karolina Fund sem einnig verður kynnt á fundinum komandi föstudag.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta