Háskólinn á Bifröst heldur XVI. ráðstefnu Íslenska þjóðfélagsins, á Hótel Vesturlandi dagana 24. og 25. maí 2024. Ráðstefnan hefst á föstudegnum kl. 10:00 og lýkur kl. 16:00 á laugardeginum. Ráðstefnan er fræðilegur vettvangur félagsvísindafólks á Íslandi. Að þessu sinni var kallað eftir ágripum rannsókna um ógnir og öryggi í sögu og samtíma í víðum skilningi, hérlendis sem erlendis. Ógnir og öryggi eru þekktar andstæður, sem taka sífellt meira rými í umræðu um s.s. stjórnmál, alþjóðamál, þjóðaröryggi, efnahags- og viðskiptamál, félagslega þætti náttúruhamfara eða almenn samfélagsmál. Þessi þróun hefur um margt ágerst víða um veröld, ekki hvað síst á Vesturlöndum. Ráðstefnan fer fram á nýju fundar- og ráðstefnuhóteli í miðbæ Borgarness.  Þátttakendum býðst jafnframt að bóka gistingu á hótelinu, sem opnaði nú í vor eftir gagngerar endurbætur á húsnæði þess.

Uppfært 30. apríl 2024

Ráðstefnugjald er kr. 20.000, en hækkar í kr. 25.000 ef greitt er eftir 9. maí nk. Nemendur á grunn- og meistaranámsstigi geta tekið þátt í ráðstefnunni sér að kostnaðarlausu, en greiða þó fyrir veitingar.

Að vanda verður félagslegum hliðum ráðstefnuhaldsins einnig gerð góð skil.  Síðdegis, föstudaginn 24. maí, verður vettvangsferð í boði um áhugaverða áfangastaði í nágrenni Borgarness. Á föstudagskvöldinu verður síðan efnt til hátíðarkvöldverðar í Landnámssetrinu, steinsnar frá hótelinu. Sérstakur gestur kvöldsins er rithöfundurinn og sagnaþulurinn, Einar Kárason. 

Nánari upplýsingar, ef óskað er, veita Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar  og Helga Guðrún Jónasdóttir, samskiptastjóri Háskólans á Bifröst.