Kæru útskriftarnemar, starfsfólk Háskólans á Bifröst og aðrir gestir.
Við höfum sjaldan haft jafn kalt hér á Bifröst en frostið fór niður í 23 gráður fyrir nokkrum dögum. Það er ekki langt síðan að slíkt frost hefði leitt til þess að fólk hefði orðið úti eða króknað í heimahúsum. Við þurfum ekki að fara langt aftur til að minnast vetrarhörku sem leiddi til þess. Árið 1918 fyrir 90 árum var enn meiri kuldi hérlendis. Þá var frostaveturinn mikli og spánska veikin og fólk dó úr kulda og drepsótt. En það ár fengum við Íslendingar fullveldi og drógum fána að húni. Þetta sama ár var Háskólinn á Bifröst stofnaður, þótt hann héti það ekki þá heldur Samvinnuskólinn. Þrátt fyrir ytri áföll, ein þau verstu á allri 20 öldinni, var hugur og dugur í Íslendingum og þeir stofnuðu skólann okkar.
Við höldum upp á 90 ára afmæli Háskólans á Bifröst á þessu ári. Skólinn á sér rúma 50 ára sögu hér á Bifröst en var fram að því í Reykjavík. Enn eru nemendur á lífi sem sóttu skólann þegar hann var í Reykjavík, í því húsi sem nú hýsir menntamálaráðuneytið. Það er margra að minnast en eitt nafn ber hæst, Jónasar Jónssonar frá Hriflu, atorkumanns, eldhuga, hugsjónamanns, að vísu oft óvæginn í baráttu fyrir stefnu sinni, en það er aldrei logn um þá sem skipta máli. Jónas vildi útskrifa frá skólanum forystumenn fyrir land og þjóð og það vil ég líka. Ég er stoltur að stjórna þessum skóla sem Jónas stofnaði og stýrði.
Hvað vitið þið ágætu útskriftarnemar um frost og hrakninga? Sjálfsagt ekkert minna en ég, en kynslóðin á undan mér og undan henni vissi allt um frost og hrakninga. Náttúran var þeirra stríð. Þegar aðrar þjóðir misstu fólk fyrir vopnum, hjó náttúran skörð í okkar raðir. Við eigum náttúrunni allt að þakka og allt að gjalda en hún kostaði líka sitt á fyrri tíð. Við erum ekkert annað en vörslufólk náttúrunnar, landsins, tungunnar og sögunnar. Gleymum því ekki.
Eftir 90 ár stendur annar rektor hér og ræðir um kynslóðina sem útskrifaðist á 90 ára afmælisárinu og lýsir hverju hún kom í verk. Ég vil að minn eftirmaður verði stoltur af ykkur. Ég vil sjá ykkur í forystu en þó ekki hvað síst hamingjusöm. Verið hamingjusamt forystufólk þar sem ljómar af ykkur, þar sem fjölskylda ykkar yljar sér og almenningur sæki hlýju til. Þið eigið ekki að vera fyrir hina fáu, heldur hina mörgu.
Þórbergur Þórðarson, en í ár eru 120 ár frá fæðingu hans, sagði í Bréfi til Láru árið 1924: “Oss vantar ekki menn, sem hugsa og breyta eins og allir aðrir. Og oss vantar ekki heldur reynslu, sem er nákvæmlega eins og reynsla allra annarra. Borgaralegar hversdagssálir eru hér nógar en oss vantar menn, sem eru eitthvað öðruvísi en allir aðrir menn með skýrt markað einstaklingseðli, menn, sem hafa siðferðisþrek til að lifa frjálsir og óháðir samábyrgð almennrar heimsku“.
Þetta sagði Þórbergur fyrir tæpum 90 árum og ég bið ykkur, kæru útskriftarnemar, að gera þessi orð skáldsins að ykkar. Mótið þið umhverfið, látið ekki umhverfið móta ykkar. Þið eruð með veganesti frá Háskólanum á Bifröst sem dugar ykkur yfir fyrsta hjallann. Framhaldið er síðan ykkar mál.
Háskólinn á Bifröst gengur vel, aldrei fleiri nemendur, aldrei fleiri umsóknir, hagnaður á rekstrinum, glæsilegir nemendur, úrval kennara frá mörgum löndum og nýjar námslínur. Við erum stolt af því að við hófum meistaranám í stjórnun heilbrigðisþjónustu í síðasta mánuði, fjarnám í frumgreinadeild síðastliðið haust og næsta haust hefst í fyrsta skipti hérlendis nám til BS gráðu þar sem allt námsefnið verður kennt á ensku. Þetta nám er fyrir Íslendinga sem vilja læra viðskiptatungumálið til hlítar, fyrir fólk af erlendum uppruna sem býr hérlendis og fyrir útlendinga. Enn á ný ryður Háskólinn á Bifröst brautir sem aðrir hafa ekki farið.
Erum við á Bifröst að afskrifa íslenskuna sem kennslumál? Nei, þvert á móti. Við erum að verja íslenskuna og hefja hana til enn meiri virðingar og notkunar því aðeins þeim sem kann vel erlend tungumál dettur ekki í hug að sletta því í móðurmáli sínu. Fyrri hluta 20. aldar óttuðust menn um íslenskuna vegna áhrifa erlends máls. Það var þá ekki enskan heldur danskan og þá var oft sagt: „Þeir sem kunna dönsku sletta henni ekki.“ Eins er með enskuna, hið nýja heimsmál vísindanna og viðskiptanna. Sá sem kann ensku vel slettir ekki, en við skulum læra að beita enskunni sem tæki eins og öðrum verkfærum.
Íslenskan er forsenda alls hérlendis; þjóðarinnar, menningarinnar, fortíðarinnar og framtíðarinnar og þá vitaskuld nútíðarinnar. Sýnum henni sóma og það gerum við m.a. með bókum. Við erum með gott bókasafn hér á Bifröst sem við eflum eins og kostur er. Það er mér því sérstök ánægja að tilkynna að systkinin Óttar, Sigrún og Guðrún Eggertsbörn hafa fært Háskólanum á Bifröst bókasafn foreldra þeirra, Eggerts Steinþórssonar og Gerðar Jónasardóttur, sem gjöf í minningu þeirra. Þetta er höfðingleg gjöf sem telur þúsundir titla og við erum glöð og hrærð yfir þessum rausnarskap. Bækur eru allt í háskóla og háskóli án góðs bókasafns er enginn háskóli. Gerður Jónasardóttir var dóttir Jónasar frá Hriflu og konu hans Guðrúnar Stefánsdóttur. Það gerir þetta enn ánægjulegra fyrir okkur að fá slíka gjöf sem við þökkum fyrir af heilum hug.
Góðir áheyrendur
Það var Snorri Hjartarson er sagði í ljóði þau meitluðu orð „Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,“. Snorri var bókavörður og eitt allra besta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld en hann orti einnig um Jónas Hallgrímsson. Jónas þýddi mörg ljóð stórskáldsins Heinrich Heine svo vel að þýðingarnar eru betri skáldskapur en frumtextinn. Íslenskan getur allt.
Í kvæði Snorra um Jónas segir m.a.:
Stjarnan við bergtindinn bliknar,
brosir og slokknar,
óttuljós víðáttan vaknar
vonfrjó og ný.
Sól rís úr steinrunnum straumum,
stráum og blómum
hjörðum og söngþrastasveimum
samfögnuð býr.
Kæru útskriftarnemar. Í dag vaknar víðáttan og sól rís. Haldið út á víðáttuna, minnist landsins, þjóðarinnar og tungunnar. Megi gæfan fylgja ykkur.
Þakka ykkur fyrir og Guð blessi ykkur öll. Hátíðinni er slitið.