Erasmus fyrir ungt athafnafólk (Erasmus for young entrepreneurs) er verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu sem gefur ungu athafnafólki á Íslandi tækifæri á að fara til Evrópu og kynnast reyndu athafnafólki sem hafa farið í gegn um þá vinnu að byggja upp fyrirtæki frá grunni.
Til þess að teljast sem ungt íslenskt athafnafólk þarf viðkomandi að hafa búið á Íslandi 6 af síðustu 12 mánuðum og hafa stofnað til rekstrar fyrir styttra en þremur árum. Verkefnið var sett á fót til að aðstoða ungt athafnafólk að öðlast þá reynslu og þekkingu sem þarf til að stofna og reka fyrirtæki með árangursríkum hætti og byggja upp tengslanet erlendis. Þessu er náð með því að bjóða ungu athafnafólki upp á að heimsækja reynt fólk sem hefur byggt sitt fyrirtæki frá grunni og náð árangri. Hægt er að skrá sig og leita að fyrirtækjum í gagnagrunni Erasmus, sem telur yfir tíu þúsund fyrirtæki. Finni viðkomandi fyrirtæki sem honum líst á getur hann haft samband og samið við forstöðufólk fyrirtækisins um heimsókn í 1-6 mánuð. Dvölin er fjármögnuð að hluta af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Ef umsækjendur ná samningum við erlendu gestgjafana um lengd dvalar þá fá þeir styrk fyrir ferðakostnaði og uppihaldi. Styrkurinn er mis hár eftir löndum en er á bilinu 530 til 1100 evrur á mánuði. Finna má kynningu á verkefninu hér.
Íslensk fyrirtæki geta einnig skráð sig í gagnagrunn Erasmus og boðið ungu erlendu athafnfólki til landsins. Fyrirtækið sem tekur á móti gestinum fær ekki stuðning í formi peninga en græðir hinsvegar nýjar hugmyndir og víkkar tengslanet sitt út fyrir landsteinana.
Hægt er að finna nánari upplýsingar og skrá sig á vefsíðu verkefnisins, hér. Engin skuldbinding fylgir því að skrá sig í verkefnið, þeir sem skrá sig ráða ferðinni og veltur ferlið á því að þau finni fyrirtæki við hæfi og nái samningum við athafnafólkið sem tekur á móti þeim.
Háskólinn á Bifröst er milligönguaðili í þessu verkefni og aðstoðar fólk við að skrá sig í verkefnið og finna viðeigandi fyrirtæki til að heimsækja. Hægt er að hafa samband við Einar Svansson (einarsv@bifrost.is) eða Ingólf Arnarson (ingolfur@bifrost.is) til að fá frekari upplýsingar um verkefnið, aðstoð við skráningu eða leit að aðila til að heimsækja.