Stjórn Hollvinasjóðs færir háskólanum endurbætt listaverkið Lífsorku 30. nóvember 2018

Stjórn Hollvinasjóðs færir háskólanum endurbætt listaverkið Lífsorku

Þann 30. nóvember 2018 komu stjórnarmenn úr Hollvinasjóði Bifrastar færandi hendi  í heimsókn á Bifröst. Tilefnið var að „afhenda” skólanum, listaverk Ásmundar Sveinssonar, Lífsorku, eftir gagngera viðgerð.  Stjórn Hollvinasjóðsins ákvað árið 2014 að fyrstu ráðstöfun fjár úr sjóðnum yrði varið til viðhaldsverkefna á Bifröst. Var fyrst hafist handa við brýnar lagfærinar á elstu byggingum skólans, þ.e. ytra byrði hátíðar- og matsalar, og setustofunnar (Kringlunnar). Var skipt um gler í gluggum og þeir endurnýjaðir að nokkru leyti, auk þess sem gert var við leka úr lofti setustofunnar. 

Næst beindu Hollvinasjóðsmenn sjónum að Lífsorku Ásmundar, sem lá undir skemmdum, auk þess sem stallurinn undir henni var smám saman að grotna niður. Hófust þær viðgerðir á árinu 2017 og þeim lokið fyrr í haust. Var listaverkið sandblásið og húðað með sterkum málningarefnum, stallurinn steyptur upp að nýju og veglegu skilti komið fyrir á honum, en allt til dagsins í dag var listaverkið ómerkt og þeim farið að fækka sem kunnu skil á forsögu þess. Á skiltinu stendur:


Lífsorkan 1960
Ásmundur Sveinsson 1893-1982.
Reist við Bifröst 1966.
Endurreist eftir gagngera viðgerð
Hollvinasjóðs Bifrastar 2017.

 

Formaður stjórnar Hollvinasjóðsins, Óli H. Þórðarson og Vilhjálmur Egilsson, rektor afhjúpuðu skiltið í dag, við stutta athöfn. Auk Óla voru stjórnarmennirnir Viðar Þorsteinsson, Þorvaldur T. Jónsson og Þórir Páll Guðjónsson viðstaddir afhendinguna, ásamt rektor og nokkrum hópi heimamanna. Að afhendingunni lokinni var boðið til hádegisverðar þar sem ávörp voru flutt, Vilhjálmur þakkaði m.a.stjórn Hollvinasjóðsins fyrir mikilsverðan stuðning við skólann, og Óli H. sagði m.a. að Hollvinasjóðsmönnum hafi þótt skorta orku í Lífsorkuna og því ráðist í þetta verkefni. Umræður voru líflegar og bjartsýni ríkjandi með áframhaldandi öflugt skólastarf á Bifröst.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta