Nýtt grunnnám í opinberri stjórnsýslu 29. maí 2019

Nýtt grunnnám í opinberri stjórnsýslu

Á komandi haustönn hefst kennsla í nýrri námslínu við félagsvísinda- og lagadeild skólans en það er BA nám í opinberri stjórnsýslu. Síðastliðið haust hófst kennsla í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu og hefur námið verið vel sótt, en hægt verður að ljúka BA náminu í framhaldi. Segja má að í náminu komi allar námsleiðir skólans saman í eina sæng en í því er fléttað saman þeim þremur höfuðgreinum sem fást við rekstur þjóðarbúsins; lögfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði. Nemendur öðlast þekkingu á lagaumhverfi hins opinbera, kynnast rekstrarumhverfi ríkisins sem og hagfræðinni þar að baki og öðlast skilning á pólitísku gangverki stjórnkerfisins.

Nám í opinberri stjórnsýslu er góður undirbúningur fyrir þá sem stefna á, eða starfa nú þegar innan stjórnsýslunnar, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum. Þá nýtist námið einnig vel í starfi fyrir fyrirtæki þar sem samskipti við ríkisvaldið er meðal verkefna. Námið byggir upp breiðan grunn þekkingar um ríkisvaldið og helstu stjórntæki þess jafnt sem innra starf. Þá hafa nemendur möguleika á því að velja sér námskeið og geta þar af leiðandi lagt aukna áherslu á það svið innan opinberrar stjórnsýslu sem starfað er við eða áhugi er á.

Í öllu námi við Háskólann á Bifröst er lögð áhersla á gagnrýna og skapandi hugsun og sjálfbærni jafnt sem samfélagslega ábyrgð. Þeir þættir koma sterkt fram í þessari námslínu enda er vægi þeirra stöðugt að aukast innan stjórnsýslunnar. Sem dæmi um námskeið þessu tengd má nefna samfélagsleg ábyrgð og kynjuð fjárlagagerð, siðfræði, og kynjafræði. Þá einkennist nám á Bifröst einnig af mikilli hópavinnu og í þessari námsleið er lögð áhersla á að nemendur öðlist hæfni til að vinna með öðrum að lausn hagnýtra verkefna á sviði opinberrar stjórnsýslu.

Námslínan, er eins og aðrar línur skólans kenndar í fjarnámi og því hægt að stunda það hvaðan sem er. Fyrirlestrar og annað námsefni er allt aðgengilegt á netinu en allir nemendur hittast síðan á vinnuhelgum sem haldnar eru tvisvar á hverri önn.

Námið er 180 eininga nám til BA-gráðu og er hægt að klára námið á tveimur og hálfu ári, hægt er kynna sér námið betur hér.

Umsóknarfrestur í grunnnám við skólann rennur út 15. júní næstkomandi. Kynntu þér námsframboð í grunnnámi hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta