Lagadeild Bifrastar í alþjóðlegu samstarfi á sviði nýsköpunar 15. nóvember 2018

Lagadeild Bifrastar í alþjóðlegu samstarfi á sviði nýsköpunar

Helga Kristín Auðunsdóttir og Unnar Steinn Bjarndal, lektorar við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Bifröst, heimsóttu nýverið lagadeild UCL háskólans í London og ræddu þar við Dr Önnu Donovan, sviðsstjóra lagadeildar skólans um aðferðir við nýsköpun í lögfræði. Ræddi teymið um stöðu nýsköpunar í heimi lögfræðinnar í dag og hvernig lagabreytingar geti laðað til sín nýsköpunarfyrirtæki á sviði lögfræði.

Einnig ræddu þau hvernig mætti veita laganemum og lögfræðingum innblástur til að innleiða nýjan hugsunarhátt í sínu starfi og innan síns fyrirtækis.

 „Það er mikilvægt að lögfræðingar í nútíma starfsumhverfi tileinki sér tækninýjungar og tengi þær þekkingu sinni á sviði lögfræði til að skapa lausnir eða viðmót sem auka aðgengi almennings að þjónustunni. Það var bæði fróðlegt og gagnlegt að heyra af þeim rannsóknum og verkefnum sem unnin hafa verið á þessu sviði í London t.a.m. svokallað LawTech Eagle Lab á vegum Barclays’ bankans,“ segir Helga Kristín.

Háskólinn á Bifröst og UCL hafa um árabil átt í farsælu samstarfi í gegnum LawWithoutWalls, metnaðarfullt samstarfsverkefni bestu lagadeilda heims sem hófst við lagadeild Miami háskóla. Markmið þess er m.a. að umbylta þekktum aðferðum við lögfræðikennslu þannig að nemendur öðlist víðari sýn á fræðin og nýti menntun sína í auknum mæli til nýsköpunar.

„Samstarf er þungamiðjan í nýsköpun og það var mjög ánægjulegt að taka á móti samstarfsfólki okkar frá Háskólanum á Bifröst til að ræða þessi mál. Háskólarnir eiga þegar í nánu samstarfi og við hlökkum til frekara samstarfs á sviði nýsköpunar í framtíðinni,“ sagði Dr Anna Donovan.

Á myndinni eru þau Dr Anna Donovan, lengst til vinstri, þá Helga Kristín og Unnar Steinn, lektorar við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Bifröst.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta