Elín Jónsdóttir ráðin forseti lagadeildar 13. janúar 2021

Elín Jónsdóttir ráðin forseti lagadeildar

Elín Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf deildarforseta lagadeildar Háskólans á Bifröst en hún hefur gegnt starfi umsjónarmanns laganáms skólans síðan í haust og unnið að stefnumótun um laganámið í samstarfi við stjórnendur skólans.

Elín er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með LL.M. gráðu frá Duke háskóla í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi, auk prófs í verðbréfaviðskiptum. Hún hefur starfað við lögfræði og stjórnun og hefur m.a. verið framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Íslandsbanka, forstjóri Bankasýslu ríkisins og framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Arev. Þá hefur Elín viðamikla reynslu af stjórnarstörfum m.a. sem stjórnarformaður Tryggingarmiðstöðvarinnar, Regins fasteignafélags og Borgunar. Elín situr nú í stjórn Borgunar hf., Skeljungs hf., og Arnrúnar ses., sem er byggingarfélag Kvennaathvarfsins.

Laganám við Háskólann á Bifröst hefur verið hluti af félagsvísindadeild frá árinu 2017 en á haustmánuðum var tekin ákvörðun um að stofna að nýju sérstaka lagadeild við skólann. Að mati Elínar sýnir sú ákvörðun að rektor og stjórn hafa mikla trú á lagadeildinni og vilja tryggja vöxt hennar og viðgang. „Fræðigreinin fær við það meiri áherslu í starfi innan skólans og stuðningur við nemendur og kennara eykst,“ segir Elín.

Helsta sérstaða laganámsins á Bifröst er áherslan á viðskiptalögfræði, nám þar sem samþætt eru fjármál, viðskipti og lögfræði með það að markmiði að mennta stjórnendur með sérþekkingu á lagalegum þáttum viðskipta og rekstrar fyrir atvinnulíf og samfélag. Lögfræðilegur hluti námsins felur í sér þau réttarsvið sem lúta almennt að rekstri fyrirtækja, rekstrarformi og rekstrarumhverfi. Viðskiptafræðilegi hlutinn kynnir grunnþætti hagfræði, stjórnunar og reikningshalds fyrir nemendum. „Að mínu mati er Háskólinn á Bifröst í góðri stöðu til að sækja fram og styrkja laganámið nú þegar líður að tuttugu ára afmæli laganáms við skólann. Lögfræðinám við Bifröst hefur frá upphafi haft skýra aðgreiningu í flóru þeirra háskóla sem kenna lögfræði hér á landi. Þá vísa ég bæði til samstarfsins við viðskiptadeild varðandi námsframboð og til þess fjölbreytta nemendahóps sem skólinn þjónar með fjarkennslu. Skólanum hefur reynst auðvelt að laða til sín góða kennara og nú verður lögð áhersla á að styrkja utanumhald og þjónustu við störf þeirra. Nemendur munu njóta góðs af því að kennurum er gefið færi á að blómstra og fá hvatningu til aukinnar rannsóknarvirkni. Laganám innan Háskólans á Bifröst hefur sveigjanleika til að bregðast hratt við samfélagsbreytingum og leggja áherslu á það sem atvinnulíf og samfélag hefur þörf fyrir. Við munum því leggja áherslu á að styrkja kennslu í greinum sem tengjast samfélagsábyrgð fyrirtækja og nýsköpun og tækni enda ljóst að breytingar í viðskiptalífinu gera kröfu til þekkingar á því sviði.“

Elín hefur þegar hafið störf sem forseti lagadeildar en deildin sjálf tekur til starfa frá og með næsta hausti.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta