Botninn sleginn í afmælisárið með veglegri hátíð á Bifröst 9. nóvember 2018

Botninn sleginn í afmælisárið með veglegri hátíð á Bifröst

Í ár hefur því verið fagnað með ýmsu móti að 100 ár eru liðin frá að hornsteinn var lagður að skólastarfi við Háskólann á Bifröst en árið 1918 var stofnaður í Reykjavík Samvinnuskólinn sem Háskólinn á Bifröst á rætur sínar að rekja til. Starfsemi hófst í desember en skólasetningin hafði þá dregist nokkuð vegna spænsku veikinnar sem geisaði í Reykjavík. 

Jónas Jónsson frá Hriflu var fyrsti skólastjóri Samvinnuskólans og skilgreindi hann skólann sem foringjaskóla og mótaði hann eftir fyrirmynd Ruskin College í Oxford þar sem Jónas hafði sjálfur verið við nám.

Í dag er skólinn viðskiptaháskóli sem hefur það hlutverk að mennta ábyrgt forystufólk í atvinnulífinu og samfélaginu og útskrifa leiðtoga sem bera hag starfsmanna sinna og umhverfis fyrir brjósti. Fjölbreytt nám er í boði við viðskiptadeild og félagsvísinda- og lagadeild og er Háskólinn á Bifröst í fararbroddi í fjarnámi meðal íslenskra háskóla. Stundar megin þorri nemenda fjarnám við skólann en býr að því að sækja vinnuhelgar í hinu fallega umhverfi á Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði þangað sem skólinn var fluttur sumarið 1955.

Þann þriðja desember næstkomandi verður botninn sleginn í afmælisárið með veglegri dagskrá á Bifröst. Formaður stjórnar skólans og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, taka á móti forseta Íslands kl 13 en formleg dagskrá hefst klukkan 13:40 og stendur til klukkan 15 en að því loknu verður boðið til kaffisamsætis á Hótel Bifröst. Sama dag verður opnuð ljósmyndasýningin Samvinnuhús þar sem til sýnis verða m.a. ljósmyndir, gamlar og nýjar af öllum húsum og byggingum, þar sem Samvinnuskólinn var til húsa fram að árinu 1982. Sýningin verður auglýst nánar síðar.

Gestir og gangandi eru boðnir hjartanlega velkomnir á afmælisfögnuðinn þann 3. desember næstkomandi og mættu gestir gjarnan boða koma sínu á Facebook viðburði hátíðarinnar hér eða á tölvupósti hér .

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta