Útgefnar bækur 


Útgefnar bækur árið 2017


Eiríkur Bergman: Nordic Nationalism and Right-Wing Populist Politics

Bók dr. Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, Nordic Nationalism and Right-Wing Populist Politics, kom út nú í janúar hjá alþjóðlega útgáfufélaginu Palgrave Macmillan. Í bókinni er grafist fyrir um sögulegar rætur norrænnar þjóðernishyggju og gerður samanburður á þróuninni á Norðurlöndunum. Bókin var gefin út samtímis í Evrópu og í Bandaríkjunum.

 

 


Útgefnar bækur árið 2015


Ágúst Einarsson: Cultural Economics

Háskólinn á Bifröst hefur gefið út bókina Cultural Economics eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor. Í bókinni er fjallað um virði, skapandi atvinnugreinar, eftirspurn og framboð innan menningar, hlutverk stjórnvalda og markmið og mótun menningarstefnu. Fjallað er jafnframt um menningarlega arfleifð og tengsl menningar við þróunarmál sem og alþjóðlega verslun, markaðsmál, fjármál og stjórnun í menningariðnaði.

Framleiðsla og sala á menningarlegum afurðum getur verið enn umfangsmeiri í íslensku efnahagslífi en nú er sem felur í sér margvísleg tækifæri til betri lífskjara í framtíðinni.

 

Útgefnar bækur árið 2014


Ágúst Einarsson: Hagræn áhrif ritlistar

Mikil efnahagsleg umsvif eru tengd ritlist og er þeim lýst í bókinni og fjallað er um virði, eftirspurn og framboð innan ritlistar, útgáfu og bókasöfn. Jafnframt er rætt um höfundarétt, hlutverk stjórnvalda og opinber framlög til þátta sem tengjast ritlist. Framlag ritlistar til landsframleiðslu er metið en það er umtalsvert. Í bókinni eru lagðar fram tíu rökstuddar, stefnumótandi tillögur til að efla ritlist hérlendis. Bókin er 248 bls. og er mikill fengur að þessari bók fyrir alla sem láta sig ritlist og hið skrifaða mál varða. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út á íslensku um hagræn áhrif ritlistar.   Bókin er seld í Bóksölu stúdenta.

 

Ágúst Einarsson: Economic Impact of the Motion Picture Industy. The Icelandic Model

Háskólinn á Bifröst hefur gefið út bókina Economic Impact of the Motion Picture Industy. The Icelandic Model eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor við Háskólann á Bifröst. Bókin, sem er á ensku, fjallar um hagræn áhrif kvikmynda og er íslenska kvikmyndaiðnaðinum lýst í því sambandi. Í bókinni er fjallað um margvíslega þætti kvikmyndaiðnaðar á fræðilegan hátt og greint er frá þeim fjölmörgu tækifærum sem eru fólgin í þessari atvinnugrein. Bókin fæst í Bóksölu stúdenta.

 

Eiríkur Bergmann:  Iceland and the International Financial Crisis

Bók dr. Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, Iceland and the international financial crisis: Boom, Bust and Recovery, kom út í janúar 2014 hjá alþjóðlega útgáfufélaginu Palgrave Macmillan.

Í bókinni er birt heildstæð efnahagsleg, sagnfræðileg og stjórnmálaleg rannsókn á efnahagshruninu haustið 2008 og viðbrögðum við því í víðu samhengi. Rakið er hvernig Ísland reis í alþjóðlegum viðskiptaheimi og hvernig hrunið hafði áhrif langt út fyrir landsteinana. Kafað er ofan í grundvöll íslenskra stjórnmála og efnahagslífs en í bakgrunni eru stórar spurningar um hagkerfi þjóðríkja í alþjóðavæddum heimi.

Sett er fram ný kenning um íslensk stjórnmál: að þau grundvallist enn á pólitískri sjálfsmynd þjóðarinnar sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni og felur í sér tvíþætta áherslu; annars vegar á formlegt fullveldi landsins en einnig þá ósk að Ísland verði nútímavætt ríki á pari við önnur vestræn velmegunarríki. Þessi pólitíska sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið ráðandi í bæði utanríkis- og efnahagsstefnu landsins og skipt sköpum fyrir efnahagslega þróun í landinu. Í bókinni er sýnt fram á áhrif hennar jafnt í aðdraganda hrunsins, viðbrögðum og eftirmála. Á þessum grunni er farið yfir hagsögu Íslands frá öndverðu og greint hvað veldur meiri hagsveiflum á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum auk þess sem dreginn er lærdómur fyrir önnur ríki og almennt fyrir efnahagskerfi heimsins.


Útgefnar bækur árið 2013


Ágúst Einarsson: Hagræn áhrif verslunar (með Axel Hall)

Í þessari rannsókn er fjallað um hagræn áhrif verslunar þar sem kannaðir eru þættir og umfang verslunar í efnahagslífinu hérlendis. Í fyrsta kafla er rætt um þær miklu breytingar sem hafa orðið hérlendis undanfarna áratugi í búsetu, verslun og öðrum þáttum atvinnulífsins. Í öðrum kafla er gerð grein fyrir skiptingu atvinnugreina og lýst er hlutverki verslunar við breytingar og þegar framboð og eftirspurn mætast. Í þriðja kafla er alþjóðleg verslun skoðuð ásamt verkaskiptingu. Í fjórða kafla er greint frá þætti verslunar í atvinnustarfsemi og sagt meðal annars frá framleiðsluvirði hennar, launum, framlagi til landsframleiðslu og stöðu á vinnumarkaði. Í fimmta kafla er fjallað um í hve miklum mæli verslun stendur undir skatttekjum ríkisins og í sjötta kafla er lýst aðfanga- og afurðagreiningu í verslun. Í sjöunda kafla er fjallað um helstu verkefni verslunar næstu misserin. Í lokaorðum eru niðurstöður dregnar saman og þær settar í samhengi við grunnatriði verslunar um frelsi í viðskiptum. Í viðauka er lýst tæknilegum atriðum nokkurra þeirra líkana sem tengjast rannsókninni.


Útgefnar bækur árið 2012


Jón Ólafsson: Appelsínur frá Abkasíu

Nafn Veru Hertzsch er mörgum Íslendingum kunnugt og órjúfanlega tengt Halldóri Laxness og uppgjöri hans við Sovétkommúnismann sem hann aðhylltist ungur. Veturinn 1938, þegar hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst, var Vera tekin höndum ásamt ársgamalli hálfíslenskri dóttur sinni fyrir augunum á Halldóri sem var gestkomandi á heimili þeirra í Moskvu. Aldarfjórðungur leið þar til hann leysti frá skjóðunni um þann atburð en afdrif mæðgnanna voru áfram óleyst gáta.

Veru og litlu stúlkunnar biðu örlög sem þær deildu með milljónum Sovétborgara; ömurleg fangabúðavist, sjúkdómar, þrælkun og hungur. Þær áttu aldrei afturkvæmt og litlar sem engar fregnir bárust ættingjum og vinum sem lifðu í óvissu áratugum saman.

Þessi áhrifamikla saga er hér loksins sögð til enda. Jón Ólafsson hefur rannsakað æviferil Veru Hertzsch og rekur hann eftir torsóttum heimildum og gegnum endurminningar kvenna sem sátu í sömu fangabúðum en komust, ólíkt Veru, lífs af. Jafnframt er ljósi varpað á kynni Íslendinga af Sovétríkjum Stalíns og uppgjörið sem fram fór áratugum síðar – og ástæður þess að Vera Hertzsch varð þjóðþekkt á Íslandi löngu eftir að hún hvarf.

 

Eiríkur Bergmann: Sjálfstæð þjóð - trylltur skríll og landráðalýður

Íslenskt þjóðerni og viðhorf til sjálfstæðis og fullveldis hafa allt frá lýðveldisstofnun einkennt umræður – og deilur – um samband Íslands við aðrar þjóðir. En hvernig skynjum við okkur sem þjóð? Og hvernig hefur það haft áhrif á samskipti okkar við umheiminn? Í þessari stórfróðlegu bók fjallar Eiríkur Bergmann um það hvernig þjóðernishugmyndir hafa sett mark sitt á umræður um samskipti Íslands við önnur ríki, allt frá inngöngunni í NATO til átakanna um IceSave og aðild að Evrópusambandinu. Eiríkur Bergmann er doktor í stjórnmálafræði og dósent við Háskólann á Bifröst. Hann er einn helsti sérfræðingur Íslendinga í Evrópumálum og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst.

 

Ágúst Einarsson: Menningarhagfræði

Háskólinn á Bifröst hefur gefið út bókina Menningarhagfræði eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor og er það fyrsta bókin sem kemur út á íslensku um hagfræði menningar. Í bókinni er m.a. fjallað um virði, skapandi atvinnugreinar, eftirspurn og framboð innan menningar, hlutverk stjórnvalda og markmið og mótun menningarstefnu. Fjallað er jafnframt um menningarlega arfleifð og tengsl menningar við þróunarmál sem og alþjóðlega verslun, markaðsmál, fjármál og stjórnun í menningariðnaði. Framleiðsla og sala á menningarlegum afurðum getur verið enn umfangsmeiri í íslensku efnahagslífi en nú er sem felur í sér margvísleg tækifæri til betri lífskjara í framtíðinni. Bókin er 232 bls. og mikill fengur er að þessari bók fyrir alla sem láta sig menningu varða.

 

Ágúst Einarsson: Hagræn áhrif tónlistar - rafbók.

Rafbókin "Hagræn áhrif tónlistar" er gerð eftir bókinni sem kom út árið 2004.
Framlag menningar til landsframleiðslunnar er 4%, sem er meira en öll starfsemi raf-, hita- og vatnsveitna og nær þrefalt meira en landbúnaður eða ál- og kísiljárnsframleiðsla. Um 5.000 manns starfa við menningu hérlendis, sem er álíka fjöldi og starfar í útgerð eða í hótel- og veitingarekstri. Hinar skapandi atvinnugreinar verða sífellt mikilvægari í hagkerfinu.
Um 1.200 manns vinna við tónlistariðnað, sem er tæplega 1% af íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtæki í tónlistargeiranum velta um 6,5 milljörðum kr. á ári og framlag tónlistar til landsframleiðslunnar er um 1%. Um 43 milljörðum kr. var varið af einkaneyslu árið 2003 í menningu og er hlutur tónlistar þar af um 8,5 milljarðar kr.
Tónleikum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega á landsbyggðinni, og er klassísk tónlist langalgengust. Fjöldi tónlistarskóla hefur nær sexfaldast síðustu fjóra áratugi og eru þeir nú 80 talsins. Nemendafjöldi í tónlistarskólum hefur ellefufaldast síðustu fjóra áratugi og nemendur eru nú 12.000 talsins. Tugir kóra starfa á landinu og eru kórfélagar yfir 3.000 talsins.
Jafnframt eru í bókinni stutt æviágrip 50 einstaklinga sem hafa sett svip á íslenskt tónlistarlíf síðastliðin 100 ár. Mikill fengur er að þessari bók fyrir alla sem láta sig menningu, og þá sérstaklega tónlist, varða. Dregnar eru ályktanir af þessari rannsókn um næstu skref til þess að efla enn frekar þátt tónlistar í samfélaginu.


Útgefnar bækur árið 2011


Ágúst Einarsson: Hagræn áhrif kvikmyndalistar

Hagræn áhrif kvikmyndalistar eftir Ágúst Einarsson prófessor er fyrsta bókin sem kemur út á íslensku um hagfræði kvikmynda. Útgefandi er Háskólinn á Bifröst. Í bókinni er greint frá þróun kvikmynda sem hluta af menningu og skapandi atvinnugreinum. Íslendingar hafa ýmiss konar hlutfallslega yfirburði í kvikmyndagerð enda hafa þeir náð langt á því sviði. Opinberir aðilar gegna mikilvægu hlutverki í því að styðja kvikmyndaiðnað enda skilar hver króna sem hið opinbera veitir í þann málaflokk fimmfalt hærri fjárhæð til hins opinbera. Kvikmyndaiðnaður er nú þegar mikilvægur þáttur í efnahagslífi okkar og getur orðið enn stærri. Meðal helstu niðurstaðna bókarinnar er að skynsamlegt og ábatasamt er að veita meira fjármagni til kvikmyndagerðar og efla menntun innan greinarinnar.

Bókin er um 250 blaðsíður og er með fjölda mynda og taflna. Auk þess eru í bókinni stutt æviágrip þrjátíu og fimm innlendra og erlendra einstaklinga sem hafa sett svip sinn á kvikmyndir síðastliðin 100 ár.  Rafbók kom síðan út árið 2012.

 

Sigurður Ragnarsson: Forysta og samskipti - leiðtogafræði

Skylduhandbók allra forgöngumanna samfélags, atvinnulífs og heimila.“ Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar: „Ég hvet allt áhugafólk um stjórnun að verða sér úti um þessa bók. Sigurði Ragnarssyni tekst mjög vel til og kemur víða við. Það kom mér raunar á óvart hvað hún nýtist lesandanum vel við að rækta eigin hæfileika – og meta stjórnun og kringumstæður í fyrirtækjum – um leið og hann kynnir sér vandaða umfjöllun um leiðtogafræði.“ Fagleg forysta og samskipti hjálpa fólki að ná betri árangri á mörgum sviðum lífsins!

 

 


Útgefnar bækur árið 2010


Ingibjörg Þorsteinsdóttir:  Lögfræði, réttarheimildir og aðferðir lögfræðinnar

Háskólinn á Bifröst hefur gefið út bókina Lögfræði, réttarheimildir og aðferðir lögfræðinnar eftir Ingibjörgu Þorsteinsdóttur.

Í bókinni er á aðgengilegan hátt gerð grein fyrir grundvallaratriðum við notkun og skýringu laga. Í bókinni er fjallað um mismunandi réttarheimildir í íslenskri lögfræði og beitingu þeirra. Vísað er til dóma og dæma til skýringa og ábendingar um ítarefni fylgir hverjum kafla. Bókin er skrifuð fyrir þá sem vilja öðlast þekkingu á aðferðum lögfræðinnar og fá innsýn og þjálfun í að beita þeim.

Höfundur bókarinnar er dósent við lagadeild Háskólans á Bifröst og hefur um árabil kennt inngangs- og framhaldsnámskeið í almennri lögfræði.

Fyrsti hluti  (pdf 1.80 MB)
Fyrsti hluti (vefbók) - birt með page-flip.com

 Útgefnar bækur árið 2009


Eiríkur Bergmann: Frá Evróvisjón til Evru

Bókin Frá Evróvisjón til Evru - Allt um ESB eftir Dr. Eirík Bergmann dósent við Háskólann á Bifröst og forstöðumann Evrópufræðaseturs, kom út hjá Veröld árið 2009. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er eitthvert umdeildasta mál síðari tíma. En hvað er þetta ESB? Hver er saga þess? Hvernig er það byggt upp? Hvert er eðli Evrópusamvinnunar? Hvaða áhrif hefur Evrópusambandið á líf, störf og viðskipti Íslendinga nú þegar – og hvað breytist ef ákveðið verður að ganga í sambandið?  Um hvað snýst samvinna þessara 27 aðildarríkja þar sem býr hálfur milljarður
manna og talar 89 tungumál?

Íslendingar verða á næstunni að gera upp hug sig sinn til ESB. Bókin Frá Evróvisjón til evru eftir Eirík Bergmann hefur að geyma allt sem þú vildir vita um Evrópusambandið en þorðir ekki að spyrja um; bók sem á erindi inn á hvert heimili í landinu.

Á bókarkápu er vitnað til umsagna tveggja lesenda bókarinnar. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir: "„Liprasti texti sem Íslendingur hefur skrifað um ESB og fjandi skemmtilegur aflestrar. Á köflum einsog leiftrandi spennusaga." Og Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur segir: "Lipurlega ritað yfirlit um ESB, aðgengilegt og yfirgripsmikið, eftir höfund sem er ástríðufullur áhugamaður um alþjóðasamvinnu."


 Útgefnar bækur árið 2008


Ágúst Einarsson: Greinasafn - Síðara bindi.

Árið 2008 kom út bókin „Greinasafn – síðara bindi“ eftir dr. Ágúst Einarsson, rektor og prófessor. Bókin, sem er 450 bls.,  hefur að geyma úrval greina og erinda eftir Ágúst. Efnið er valið þannig að það gefi heildstæða mynd af þeim álitaefnum sem eru uppi á hverjum tíma. Þetta síðara bindi skiptist í þrjá kafla. Í fyrsta kaflanum er fjallað um efnahagsmál, hagfræði þeirra, eins og  markaðshagfræði, hlutabréfamarkað og smásölu auk umfjöllunar um Seðlabanka Íslands en höfundur var formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Annar kafli þessa bindis fjallar sjávarútvegsmál, fiskmarkaði og hagfræði sjávarútvegs eins og afkomumælingar í sjávarútvegi og hagkvæmustu ráðstöfun aflakvóta innan fyrirtækis. Í þriðja kafla bókarinnar er m.a. fjallað um heilsuhagfræði, Kína, byggðamál, menningu, kvikmyndir og landbúnað. Að lokum eru birtar stuttar frásagnir, svipmyndir, úr íslensku atvinnulífi, sem lýsa vel breytingum í samfélagi okkar undanfarin ár og áratugi.

Greinasafn - Síðara bindi (pdf 3.55 MB)
Greinasafn - Síðara bindi (vefbók) - birt með page-flip.com

 

Eiríkur Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson: Hvað með evruna?

Í þessari bók eru helstu álitamál varðandi hugsanlega innleiðingu evru á Íslandi greind á einfaldan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um myntsamruna í Evrópu og skoðað hvaða áhrif innganga í Evrópusambandið og upptaka evru hefði á íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Hvað með evruna? (pdf 4.05 MB)
Hvað með evruna? (vefbók) - birt með page-flip.com

Útgefnar bækur árið 2007


Ágúst Einarsson: Greinasafn - Fyrra bindi

Árið 2007 kom út bókin „Greinasafn – fyrra bindi“ eftir dr. Ágúst Einarsson rektor og prófessor. Bókin, sem er 472 bls., hefur að geyma úrval greina og erinda. Í þessu fyrra bindi er umfjöllun um tvo meginflokka, stjórnmál annars vegar og menningu og menntun hins vegar. Greinarnar eru valdar þannig að þær gefi heildstæða mynd af þeim álitaefnum sem voru uppi á hverjum tíma. Í fyrri hluta bókarinnar er fjallað um stjórnmál í fimm undirköflum sem bera heitin Almennt, Samfylkingin; aðdragandi og stofnun, Á leið í Evrópusambandið, Leiðarar í Alþýðublaðinu og Þingmál. Síðari hluti bókarinnar fjallar um menningu og menntun.

Greinasafn - Fyrra bindi (pdf 2.58 MB)

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta