MBL-ML í viðskiptalögfræði

Meistaranám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst er hagnýtt og krefjandi nám fyrir stjórnendur í atvinnulífinu sem og afburða kostur fyrir þá sem hafa lokið grunnnámi í lögfræði.

Val er um tvær áherslur í meistaranámi í viðskiptalögfræði:

MBL gráða: 90 ECTS eininga nám í viðskiptalögfræði án ritgerðar

ML gráða: 120 ECTS eininga nám í viðskiptalögfræði með 30 eininga meistararitgerð

SÆKJA UM


MBL nám í viðskiptalögfræði er eina nám sinnar tegundar á Íslandi. Námið er stjórnendamiðað og meginmarkmið þess er að undirbúa nemendur fyrir starf stjórnandans í viðskiptalífinu með hagnýtri menntun á sviði viðskiptalögfræði. Námið veitir trausta, fræðilega þekkingu á sviði viðskiptalögfræði og er sérlega hagnýtt nám þar sem það undirbýr nemendur fyrir krefjandi störf í fjölbreytilegu starfsumhverfi.

Hvaða grunn þarf ég til að hefja MBL nám í viðskiptalögfræði?

MBL námið er ætlað jafnt nemendum með BS eða BA gráðu í lögfræði og þeim sem lokið hafa háskólaprófi úr öðrum greinum. 

Nemendur sem ekki hafa BA/BS gráðu á sviði lögfræði þurfa að ljúka námskeiði í inngangi að lögfræði samhliða eða áður en meistaranám hefst.

Hvaða réttindi hef ég að náminu loknu?

Tvær námsleiðir eru í boði. Annars vegar ML gráða í viðskiptalögfræði sem er 120 ECTS eininga nám og lýkur með meistararitgerð. Nemandi sem lýkur ML gráðu getur sótt sér framhaldsmenntun á meistara- og doktorsstigi sem takmarkast þó af reglum einstakra skóla um lágmarksfjölda eininga í hverri námsgrein, lágmarkseinkunnum og fleira. Nemandi sem lýkur ML námi og hefur áður lokið grunnnámi í lögfræði öðlast fullnaðarpróf í lögfræði og uppfylla því almenn skilyrði til að gegna störfum dómara og málflytjenda. 

Hinsvegar er hægt að sækja MBL nám sem er 90 ECTS. Nemandi sem lýkur MBL námi getur sótt sér framhaldsmenntun á meistarastigi en ekki á doktorsstigi. Athugið að til að fá fullnaðarpróf  í lögfræði, sem er skilyrði þess að hafa rétt til að sækja námskeið til öflunar héraðsdómslögmannsréttinda, þarf nemandi að hafa grunn – og meistaranámi í lögfræði.

Fyrirkomulag námsins:

Unnt er að ljúka meistaranámi í lögfræði á þremur önnum án ritgerðar eða fjórum með meistararitgerð. Hver nemandi getur tekið námið á þeim hraða sem honum hentar og námið er ekki síst hugsað fyrir þá sem vilja sækja sér framhaldsmenntun samhliða vinnu.

Inntökuskilyrði í ML/MBL

Samkvæmt 22. gr. Reglugerðar Háskólans á Bifröst eru inntökuskilyrði í meistaranám grunnháskólagráða (bakkalár), eða sambærileg menntun af hæfniþrepi 1.2, sem að jafnaði hefur verið lokið með fyrstu einkunn (>7,25) eða jafngildi þess.

Nemendur sem ekki hafa BA/BS gráðu á sviði lögfræði þurfa að ljúka námskeiði í inngangi að lögfræði samhliða eða áður en meistaranám hefst.

Skipulag náms

Námsskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms í MBL og ML námi sem og kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Hér má finna skipulag ML námsins í kennsluskrá skólans.

Hér má finna skipulag MBL námsins í kennsluskrá skólans.

Allar frekar upplýsingar um námið fást hjá kennslusviði Háskólans á Bifröst. Hafið samband við meistaranam@bifrost.is

Umsjón með námslínu: Elín Jónsdóttir, forseti lagadeildar

Umsóknarfrestur er til 15. maí  SÆKJA UM