Kennsluhættir framtíðarinnar

Frá hausti 2014 hefur allt nám við Háskólann á Bifröst verið kennt í lotubundinni vendikennslu. Hún er þannig uppbyggð að nemendur fá fróðleik, kynningu á efni, fræðslu og upplýsingar á rafrænu formi og sækja eftir það umræðu- og verkefnatíma með kennurum þar sem þekking nemenda á námsefninu er dýpkuð. Flest námskeið standa yfir í sjö vikur, þar sem kennt er í sex vikur og námsmat fer fram í þeirri sjöundu. Kennsla í fáeinum námskeiðum nær þó yfir tvær lotur.

Aukin gæði

Með stuttum námslotum er auðveldara fyrir nemendur að einbeita sér að hverju námskeiði og álag verður jafnara yfir annirnar. Einnig gefst aukið svigrúm fyrir kennara og nemendur til að staldra við flókin viðfangsefni eftir þörfum hverju sinni. Þetta fyrirkomulag skapar jafnframt aukin tækifæri til að fá fagaðila víðsvegar úr heiminum til að kenna hluta úr eða heilt námskeið við skólann. Þá er að öllu jöfnu gert hlé á milli námslota sem hjálpar nemendum að marka skýrari skil milli náms og fjölskyldulífs. Einnig er stuðst við ákveðna kennslufræði sem ber heitið nám með þróun, learning by developing, og þá sérstaklega í misserisverkefnum á sumarönn.

Rafrænt efni frá kennurum og vinnufundir

Kennarar leggja inn rafrænt efni, kynningar og ýmis konar fræðsluefni og fyrirlestra, vikulega og miðla þannig námsefninu til nemenda. Með því móti fá nemendur á Bifröst tækifæri til að lesa og fara yfir efnið tímanlega til að undirbúa sig fyrir verkefna- og umræðutíma með kennara. Nemendur mæta að jafnaði í staðlotu á Bifröst tvisvar til fjórum sinnum á önn. Gert er ráð fyrir að nemendur taki virkan þátt í samræðum í umræðu- og verkefnatímum og vinni að verkefnum sem kennari leggur fyrir hverju sinni.  Kennarar geta einnig boðið upp á fjarfundi með nemendum í háskólagátt og grunnnámi í tvö til þrjú skipti í lotu eða eftir þörfum, þar sem nemendur koma með spurningar til kennara og/eða kennari leggur upp með tiltekið efni fyrir fundinn. Allir nemendur í námskeiðinu hafa aðgang að þeim fundum.

Raunhæf verkefni

Bifröst mun halda áfram að leggja áherslu á verkefnavinnu meðal nemenda og að tengja þau raunhæfum verkefnum. Enn betur verður hlúð að verkefnavinnunni með því að kenna nemendum verkefnastjórnun og veita þeim viðeigandi handleiðslu en þó án þess að taka ábyrgðina af nemendunum sem þurfa á endanum að skila skýrslu og verja verkefni sín á hátíðlegum misserisvörnum.

Aukin áhersla á gagnrýna hugsun

Aðferðafræðin sem beitt er við verkefnavinnu byggir á aðferðafræði sem við köllum nám með þróun, learning by developing. Þetta er aðferðafræði sem er til þess fallin að auka færni nemenda í að takast á við flókin viðfangsefni, bætir verkstjórn í hópastarfi og ýtir undir gagnrýna hugsun meðal nemenda.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta