Háskólagátt á ensku

Nám í háskólagátt Háskólans á Bifröst verður í boði á ensku á vorönn 2021. Námið er spegilmynd námsins sem fer fram á íslensku, sambærilegt að öðru leyti en því að kennt verður á ensku. Í stað hefðbundinna íslenskuáfanga taka nemendur áfanga í íslensku sem öðru máli og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku- og/eða áfanga í íslensku sem öðru máli.

Sniðið að atvinnuátakinu: Nám er tækifæri

Nemendur geta lokið náminu á rúmum sex mánuðum eða á tveimur önnum. Kennslan hefst í byrjun janúar og henni lýkur í byrjun ágúst. Námstilhögun er sniðin að átakinu Nám er tækifæri en markmið þess er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Sjá reglugerð um Nám er tækifæri á vef Stjórnarráðsins.

Nám í háskólagátt býr nemendur undir nám á háskólastigi í greinum hug- og félagsvísinda og veitir einnig undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi sem eykur samkeppnishæfni á vinnumarkaði. Í námi háskólagáttar er höfuðáhersla lögð á færni nemenda í grunngreinum framhaldsskólans: íslensku, ensku og stærðfræði.

Kynning á náminu á ensku.

Kynning á náminu á pólsku.

Kynning á náminu á spænsku.

Búseta á Bifröst

Á Bifröst er gott að búa. Þar er ódýrt húsnæði og aðstaða fyrir barnafólk mjög góð. Nánari upplýsingar má finna hér: Húsnæði

Innritunargjald

Innritunargjald í nám við háskólagátt á Bifröst er nú 115.000 kr. á önn. Starfsmenntasjóðir stéttarfélaga veita styrki til niðurgreiðslu á annargjöldum. Styrkir eru háðir stigaeign í sjóðum – sjá nánar á heimasíðum stéttarfélaganna.

Inntökuskilyrði

Aðgangskröfur í háskólagátt á ensku eru þær sömu og eiga við um háskólagátt á íslensku. Til þess að eiga kost á að hefja nám í háskólagátt á íslensku þurfa nemendur að vera orðnir 23 ára og hafa að jafnaði lokið 118-140 framhaldsskólaeiningum (f-ein) samkvæmt núgildandi einingakerfi, eða sýna fram á sambærilega þekkingu, leikni og hæfni. Þetta jafngildir um það bil 70-90 einingum samkvæmt gamla einingakerfinu.

Miðað er við að nemendur sem hefja nám í háskólagátt á ensku séu með einhverja formlega menntun á framhaldsskólastigi frá heimalandi sínu og/eða íslenskum skólum. Ef umsækjandi uppfyllir ekki inntökuskilyrði en býr yfir töluverðri starfsreynslu gefst viðkomandi kostur á að leggja fram niðurstöður raunfærnimats þar sem reynsla er metin til jafns við menntun. Leggi umsækjandi fram gilt raunfærnimat tekur skólinn mið af því við meðhöndlun umsóknar.

Umsækjendur sem hafa náð 23 ára aldri og hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu geta snúið sér til símenntunarmiðstöðva vegna raunfærnimats.

Viðurkennt nám

Nemendur sem hafa útskrifast með aðfararnám úr háskólagátt, og frumgreinadeild Háskólans á Bifröst sem var fyrirrennari háskólagáttarinnar, hafa fengið inngöngu í alla háskóla landsins og einnig í háskóla erlendis. Nám í háskólagátt er í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla og samþykkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Inntökuskilyrði í háskólanám eru mismunandi eftir fræðasviðum en allir háskólar landsins nýta sér heimild mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að veita undanþágu frá formlegum inntökuskilyrðum. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér inntökuskilyrði háskólanna.

Skipulag námsins

Nám í háskólagátt er 66 f-einingar. Námið tekur tvær annir, hefst í janúar og lýkur í ágúst. Námsframvinda skal vera samkvæmt reglum um nám og kennslu í Háskólanum á Bifröst.

Námið er byggt upp eins og háskólagáttin á íslensku nema að kennslan fer fram á ensku. Í stað íslensku læra nemendur íslensku sem annað mál, þrjá áfanga sem eru samtals 15 f-ein. Í stað dönsku geta nemendur valið um að taka íslensku sem annað mál 4 eða háskólaensku.

Námið er skipulagt í lotum og eru tvær lotur á vorönn og tvær á sumarönn. Hver lota stendur í sjö vikur og er byggð upp þannig að kennt er í sex vikur og sjöunda vika er námmsmatsvika. Þó eru nokkur námskeið, eðlis þeirra vegna, ýmist kennd í styttri eða lengri lotum. Á vorönn er forlota sem stendur yfir í rúma viku í upphafi annar. Lotukerfið auðveldar nemendum að einbeita sér að þeim námsgreinum sem þeir taka hverju sinni og álagið verður jafnara yfir kennslutímabilið. Notaðar eru nútíma kennsluaðferðir, þ.á.m. vendikennsla en það gefur kennurum og nemendum aukið svigrúm til að staldra við flókin viðfangsefni, allt eftir þörfum nemenda hverju sinni.

Nánari útfærsla á skipulagi (sjá nánar töflu neðst á síðunni):

Forlota: 11. janúar til 15. janúar

Upplýsingatækni, endurlit og markmiðasetning 1. Samtals 4 fein.

Lota 1: 18. janúar til 28. febrúar

            Námsmat 1. mars til 5. mars.

Stærðfræði 1, íslenska sem annað mál 1 og skapandi og gagnrýnin hugsun. Samtals 13 fein.

Lota 2: 8. mars til 23. apríl

            Námsmat 26. apríl til 30. apríl

Stærðfræði 2, íslenska sem annað mál 2 og enska 1. Samtals 15 fein.

Lota 3: 3. maí til 11. júní

            Námsmat 14. júní til 18. júní

Stærðfræði 3, íslenska sem annað mál 3, enska 2 og endurlit og markmiðasetning 1. Samtals 16 fein.

Lota 4: 21. júní til 30 júlí

            Námsmat 2. ágúst til 4. ágúst

Stærðfræði 4, bókfærsla, lögfræði og samfélagsgreinar en auk þess velja nemendur annað hvort íslensku sem annað mál 4 eða háskólaensku. Samtals 18 fein.

Að loknu námi

Háskólinn á Bifröst hefur starfrækt háskólagátt frá árinu 2013 en námið byggir á frumgreinadeild sem starfrækt hafði verið á undan í 15 ár. Nám í háskólagátt er án hefðbundinna skólagjalda en innheimt er innritunargjald fyrir hverja önn. Námið hefur reynst haldgóður undirbúningur fyrir nemendur sem stefna á háskólanám en hafa gert hlé á námi og sótt reynslu í atvinnulífið og/eða vantar framhaldsskólaeiningar til að komast í háskóla. Nám í háskólagátt er í fullu samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla.

Frumgreinapróf úr háskólagátt er hins vegar ekki frekar en önnur framhaldsskólapróf trygging fyrir því að komast í hvaða háskólanám hvar sem er.

Um 90% þeirra sem útskrifast úr háskólagátt hafa stundað háskólanám að útskrift lokinni, samkvæmt könnun sem skólinn gerði nýverið. Um helmingur þeirra við Háskólann á Bifröst en um 40% við aðra háskóla, hérlendis og erlendis. Námið í háskólagátt er miðað við það nám sem boðið er upp á við Háskólann á Bifröst, viðskiptafræði, lögfræði og félagsvísindi.

Háskólagáttin hefur á liðnum árum skapað hundruðum einstaklinga tækifæri til háskólanáms, tækfæri sem þetta kraftmikla fólk hefði ella ekki notið. Árangur þess er skýrt merki um gildi námsins og gæði.

Háskólinn á Bifröst gerir umsækjendum um háskólagátt ávallt grein fyrir því að námið tryggi ekki háskólavist. Í viðtölum eru allir umsækjendur um nám í háskólagátt upplýstir um að til að komast í háskóla á Íslandi þurfi stúdentspróf, en þeir sem útskrifist með aðfararnám frumgreinadeilda sæki um á undanþágu sem háskólar geta nýtt sér með leyfi mennta- og menningamálaráðuneytis. Allir sem útskrifast úr háskólagátt sækja um á undanþágu í háskóla á Íslandi. Auk þess er er tekið fram á heimasíðu skólans, bifrost.is, að allir háskólar landsins nýti sér þessa heimild mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Hér fyrir neðan má sjá skipulag námsins. Vorönnin hefst þann 11. janúar 2021 og náminu lýkur þann 4. ágúst.

Námsferill, háskólagátt. Lotan sem námskeiðið er kennt í er innan sviga.

 
 Vor F-ein  Vor  F-ein
Endurlit og markmiðasetning (Forlota) 1 Endurlit og markmiðasetning (3) 1
Upplýsingatækni (Forlota) 3 Bókfærsla (4) 5
Skapandi og gagnrýnin hugsun (1) 4 Íslenska sem annað mál III (3) 5
Íslenska annað mál I (1) 5 Stærðfræði III (3) 5
Íslenska annað mál II (2) 5 Stærðfræði IV (4)  5
Stærðfræði I (1) 4 Enska II (3) 5
Stærðfræði II (2) 5 Lögfræði og samfélagsgreinar (4) 4
Enska I (2) 5 Háskólaenska (4) val 4
    Íslenska IV sem annað mál (4) val 4
       
  32   34
 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta