Verkefnamiðlun Háskólans á Bifröst er hugmyndabanki þar sem tillögum að nemendaverkefnum er safnað saman og þeim miðlað áfram til nemenda. Verkefnamiðlunin tekur við hugmyndum að verkefnum frá einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. Verkefnamiðlunin tekur ekki gjald fyrir að miðla verkefnum.
Nemendaverkefni við Háskólann á Bifröst eru þrenns konar: lokaverkefni úr grunnnámi, lokaverkefni úr meistaranámi og misserisverkefni. Misserisverkefni eru svipuð að umfangi og lokaverkefni úr grunnnámi og eru unnin af fjögurra til sex manna hópum nemenda í grunnnámi á sumarönnum undir leiðsögn leiðbeinanda.
Verkefnamiðluninni berast fjölbreytt verkefni enda stunda nemendur skólans nám á breiðu sviði félagsvísinda. Algengt er að verkefnin fjalli um gerð markaðs- og rekstraráætlana fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki og er skólinn stoltur af því að geta með þessu móti stutt við atvinnusköpun í landinu.
Ef þú veist um áhugavert verkefni eða vilt komast í samband við nemendur sem vilja vinna áhugaverð verkefni hafðu þá samband við okkur hjá verkefnamiðlun Háskólans á Bifröst.
Netfang verkefnamiðlunarinnar er verkefnamidlun@bifrost.is
Fullum trúnaði er gætt óski verkbeiðendur eftir því.
Háskólanum á Bifröst berast reglulega erindi þar sem fyrirtæki og stofnanir óska eftir því að nemendur taki að sér vinnslu verkefna. Til að tryggja verkefnum farveg innan skólans var stofnuð sérstök verkefnamiðlun sem hafa skyldi það hlutverk að halda skrá yfir verkefni og kynna þau nemendum. Verkefnamiðlunin virkar þannig sem tengiliður milli atvinnulífs og nemenda.
Háskólinn á Bifröst er háskóli sem starfar í nánum tengslum við bæði fræðasamfélagið og atvinnulífið. Með því að leiða saman nemendur og fyrirtæki geta nemendur notið ábata þess að vinna krefjandi verkefni, eflt tengslanet sitt og öðlast haldbæra reynslu. Á sama tíma fá fyrirtæki aðstoð nemenda sem vinna undir leiðsögn kennara við úrlausn fjölbreyttra viðfangsefna.