Leiðbeiningar um ritun lokaritgerða í meistaranámi við Háskólann á Bifröst MA/ML/MS ritgerðir

Lokaritgerð í meistaranámi er fræðileg rannsóknarritgerð sem meistaranemi vinnur á eigin spýtur og skal fullnægja öllum kröfum sem almennt eru gerðar til lokaverkefna á þessu stigi háskólanáms. Markmið með lokaritgerð er að sannreyna færni nemanda til að velja, undirbúa og fullunna verkefni sem hefur fræðilegt gildi og eykur þekkingu hans. Lokaritgerð í meistaranámi er 30 ECTS en hægt er að sækja um heimild til deildarforseta til að skrifa allt að 60 ECTS ritgerð. Leyfi er veitt ef fræðilegt umfang fyrirhugaðrar lokaritgerðar krefst þess og nemandi hefur sýnt fram á verulega hæfni til rannsókna. Þetta gildir þó ekki um lokaritgerðir í ML-námi þar sem lokaritgerðir eru alltaf 30 ECTS. Lengd meistararitgerða er háð efnistökum hverju sinni og skal það ákveðið í samráði við leiðbeinanda en að jafnaði er miðað við 25.000-30.000 orð í meginmáli (þ.e. að frátöldu efnisyfirliti, útdrætti, heimildaskrá og viðaukum). Nemendur skulu áætla nauðsynlegan tíma til að skrifa lokaritgerðir í ljósi þess að miðað er við að tvær ECTS samsvari einnar viku vinnu.

Ábyrgð nemenda

Nemandi ber sjálfur fulla ábyrgð á ritgerðarskrifum og þó hann njóti leiðsagnar leiðbeinanda er ætlast til sjálfstæðra vinnubragða af hálfu nemanda í meistaranámi. Nemandi hefur frumkvæði að samskiptum við leiðbeinanda. Nemandi upplýsir leiðbeinanda um framvindu verkefnis og skulu þeir skipuleggja vinnu milli viðtalstíma og/eða skila verkefnis eftir því sem við á.

Hlutverk leiðbeinenda

Leiðbeinandi gerir nemandanum grein fyrir þeim kröfum sem gerðar eru til lokaritgerða á meistarastigi, veitir honum hvatningu og aðhald. Leiðbeinandi skal veita nemanda viðtal vegna skila rannsóknaráætlunar, lokaskila til leiðbeinanda og eftir atvikum skila einstakra kafla/verkþátta. Leiðbeinandi veitir nemandanum ráð, m.a. um eftirfarandi atriði:

 • gerð rannsóknaráætlunar
 • afmörkun efnis
 • skilgreiningu markmiða og rannsóknarspurninga
 • gagnaöflun, úrvinnslu og greiningu gagna
 • framsetningu á niðurstöðum, frágang og ritgerðarsmíðina í heild

Öll samskipti vegna lokaritgerðar, fundir, aðstoð, handleiðsla, símtöl, tölvupóstur o.s.frv. teljast til viðtalstíma. Leiðbeinanda ber að skila nemanda efnislegum athugasemdum og ábendingum innan tveggja vikna frá skilum rannsóknaráætlunar, milliskila og lokaskila til leiðbeinanda.

Rannsóknaráætlun og milliskil

Nemendur vinna rannsóknaráætlun í samráði við leiðbeinanda. Nemandi skilar rannsóknaráætlun í kennslukerfi skólans. Leiðbeinandi skilar umsögn um áætlunina í kennslukerfið innan tveggja vikna. Ekki er gefin sérstök einkunn fyrir rannsóknaráætlun en hún þarf að vera samþykkt af leiðbeinanda. Nemandi sem ekki hefur skilað rannsóknaráætlun fyrir auglýstan skilafrest telst hafa sagt sig frá ritgerðarsmíð á önninni.

Í rannsóknaráætlun skal koma fram:

 • Forsíða með vinnuheiti verkefnis, nafni nemanda og nafni námsbrautar / deildar / skóla
 • Lýsing á verkefni og bakgrunni þess
 • Rannsóknarspurning/-ar og rannsóknarmarkmið
 • Tilgangur verkefnis – hagnýtt/fræðilegt gildi
 • Fræðilegur bakgrunnur og kenningar/hugtök sem vinna á með í verkefninu
 • Aðferðir og vinnubrögð við vinnslu verkefnisins (s.s. aðferðir við gagnaöflun)
 • Tímasett verkáætlun verkefnis
 • Drög að efnisyfirliti
 • Heimildaskrá með lista yfir helstu heimildir sem gert er ráð fyrir að verði notaðar við vinnslu verkefnisins

Í milliskilum til leiðbeinanda skal frumleikaskýrsla (Originality report) frá ritstuldarforritinu Turnitin fylgja skilum í kennslukerfið.

Lokaskil til leiðbeinanda

Nemandi skilar lokauppkasti að ritgerð til leiðbeinanda í kennslukerfi skólans eigi síðar en fjórum vikum fyrir lokaskil til háskólaskrifstofu. Leiðbeinandi skilar umsögn um uppkastið innan tveggja vikna. Nemandi hefur tvær vikur til að bregðast við athugasemdum frá leiðbeinanda. Nemanda er ekki heimilt að skila ritgerð til háskólaskrifstofu nema að fengnu samþykki leiðbeinanda.

Lokaskil til skrifstofu

Við lokaskil til háskólaskrifstofu skal eftirfarandi gögnum skilað í kennslukerfi skólans:

 • PDF útgáfu lokaritgerðar
 • Tveimur prentuðum eintökum á háskólaskrifstofu
 • Útfylltri yfirlýsingu um meðferð lokaverkefna
 • Eyðublaði vegna ritgerðarskila þar sem fram koma lykilhugtök ritgerðar og titill hennar á ensku
 • Turnitin skýrslu
 • Staðfestingu á rafrænum skilum ritgerðar í Skemmuna, rafrænt varðveislusafn skólans  (sjálfvirkt svar)

Vanti eitthvað af ofangreindum gögnum fer ritgerð ekki í prófdæmingu.

Skil lokaritgerðar í Skemmu eru yfirfarin af starfsfólki skólans og staðfest áður en ritgerð er birt eftir útskrift. Til samræmis við stefnu Háskólans á Bifröst um opinn aðgang að fræðaefni skulu lokaritgerðir vera opnar í Skemmunni nema ríkar ástæður gefi tilefni til annars. Lokaritgerð getur þó aldrei verið lokuð um ókomna tíð heldur er skylt að tilgreina opnunardagsetningu ritgerðar.

Meistaravörn

Meistaravarnir eru lokaðar. Vörnin stendur að hámarki í eina klukkustund og fer þannig fram að nemandi hefur framsögu um ritgerð sína og hefur til þess allt að 15 mínútur. Að því loknu leggur prófdómari (og leiðbeinandi eftir atvikum) spurningar fyrir nemandann sem fær tækifæri til að svara spurningum og rökstyðja efnisatriði sem dómnefnd (prófdómari og leiðbeinandi) þykir óljós. Leiðbeinandi er fundarstjóri í vörninni og gætir þess að nemandi og prófdómari fái jöfn tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að því loknu víkur nemandi af fundi á meðan prófdómari og leiðbeinandi koma sér saman um einkunn. Nemanda er síðan tilkynnt niðurstaða dómnefndar og er hún endanleg og ekki kæranleg. Nemandi fær birta skriflega umsögn dómnefndar og lokaeinkunn fyrir verkefnið í kennslukerfið eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að vörn hefur farið fram og ber leiðbeinandi ábyrgð á því að þær upplýsingar fari inn í kennslukerfi skólans.

Að lokinni vörn getur dómnefnd farið fram á að nemandi geri breytingar á ritgerð sinni og skal nemandi verða við því. Slíkar breytingar geta þó aldrei haft áhrif á einkunn.

Frágangur ritgerða

Áhersla skal lögð á vönduð vinnubrögð í hvívetna við allan frágang ritgerða. Gæta skal sérstaklega að ráðvendni við heimildaskráningu en við meðferð heimilda skal farið að reglum Háskólans á Bifröst sem miðast við APA staðal. Misbrestur á meðferð heimilda, ritstuldur, kynning á efni annarra líkt og um eigið verk sé að ræða og falsanir af öllu tagi geta varðað við brottrekstur í samræmi við reglur Háskólans á Bifröst.

Eftirfarandi gildir um uppsetningu ritgerða:

 • Lokaverkefni skulu snyrtilega uppsett í tölvu á A4 síður í þar til gerðu sniðmáti sem hægt er að nálgast í handbók nemenda á heimasíðu skólans
 • Nota skal vel læsilegt og skýrt letur, t.d. 12 pt. Times New Roman, 11 pt. Arial eða sambærilegt letur
 • Miða skal við eitt og hálft línubil
 • Ritgerð skal hafa blaðsíðutal neðst á síðu

Til leiðbeiningar er hér farið yfir dæmigerða efnisröðun lokaritgerðar:

 • Forsíða (nota skal sniðmát sem nálgast má á vef skólans)
 • Saurblað
 • Samningur um trúnað (ef við á)
 • Titilsíða (sömu upplýsingar og á forsíðu)
 • Höfundarréttaryfirlýsing
 • Útdráttur (hér er í örstuttu máli greint frá helstu hugtökum, tilgátum og aðferðum sem beitt er við ritgerðarvinnuna og framkvæmd rannsóknar ef við á. Greint er frá helstu niðurstöðum og hvernig megi túlka þær – 240 orð að hámarki)
 • Útdráttur á ensku (240 orð að hámarki)
 • Formáli með undirskrift nemanda. Þar skulu koma fram upplýsingar um vægi verkefnisins í einingum og nafn leiðbeinanda ritgerðar
 • Efnisyfirlit
 • Mynda-/töfluyfirlit (ef við á)
 • Inngangur: Gerð er grein fyrir afmörkun viðfangsefnisins, tilgangi þess og gildi og höfundur útskýrir hvaða aðferðum hann beitir og rökstyður þá leið sem farin er
 • Meginmál: Í meginmáli er efni ritgerðarinnar, hugmyndir og kenningar sem fjallað er um, útskýrt og rætt (skipt upp í kafla með viðeigandi hætti)
 • Samantekt og niðurstöður: Í niðurlagi eru aðalatriði ritgerðarefnis dregin saman og niðurstöður skýrðar
 • Heimildaskrá
 • Listi yfir viðtöl og heimildamenn ef við á
 • Fylgiskjöl ef við á
 • Saurblað
 • Baksíða

Hægt er að hlaða leiðbeiningunum niður með því að smella hér.

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019

Hvers vegna að velja Bifröst?

 1. Í fararbroddi í fjarnámi
 2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
 3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
 4. Sterk tengsl við atvinnulífið
 5. Persónuleg þjónusta