Diplómanám í opinberri stjórnsýslu

Diplómanám í opinberri stjórnsýslu er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst og Fræðslusetursins starfsmenntar. Námsbrautin fléttar saman þrjár höfuðgreinar þeirra sem fást við rekstur þjóðarbúsins; lögfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði. Nemendur kynnast lagaumhverfi hins opinbera, öðlast skilning á pólitísku gangverki ríkisvaldsins og fá hagnýta þjálfun í margvíslegri rekstrarfærni. Allt eru þetta þættir sem nýtast starfsfólki hins opinbera til þess að dýpka skilning sinn á samhengi opinbers reksturs og öðlast nauðsynlega innsýn í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Námið samanstendur af námskeiðum á sviði opinberrar stjórnsýslu og þeirrar aðferðafræði sem nemendur þurfa að kunna tök á; námskeiðum í lögfræði sem koma inn á stjórnsýslurétt, stjórnskipunarrétt, upplýsingalög og lög um persónuvernd; námskeiðum í viðskiptafræði í tengslum við vinnurétt, mannauðsstjórnun og verkefnastjórnun og síðan grunnnámskeið í stjórnmálafræði og siðfræði.

Námið er tilvalið fyrir einstaklinga sem starfa nú þegar eða hafa áhuga á að starfa hjá opinberum stofnunum og innan opinberrar stjórnsýslu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum eða á vettvangi stjórnmála, þar með talið innan stjórnmálaflokka.

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá skólans.