Grunnnám í miðlun og almannatengslum er ný tegund af námi hér á landi sem miðar að því að búa nemendur undir þátttöku á vinnumarkað sem gerir æ ríkari kröfur um þekkingu og fagleg vinnubrögð er lúta að samskiptum við fjölmiðla, fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir.
Námið, sem byggir á breiðum grunni hug- og félagsvísinda, er tilvalið fyrir einstaklinga sem hafa áhuga á að vinna við miðlun upplýsinga, upplýsingaráðgjöf eða sinna upplýsingagjöf. Er þá átt við störf á sviði fjölmiðlunar eða almannatengsla, í opinberri stjórnsýslu, fyrir frjáls félagasamtök, stjórnmálaflokka, stofnanir og fyrirtæki af ýmsum toga. Lögð er mikil áhersla á þjálfun í skriflegri og munnlegri framsetningu í náminu sem nýtist á margvíslegum starfsvettvangi.
BA nám í miðlun og almannatengslum hefur bæði hagnýtar og fræðilegar hliðar. Uppbygging námsins er tvíþætt. Nemendur ljúka 60 ECTS einingum í Samfélags-, menningar- og hugmyndagreiningu. Námskeið í þessum hluta heyra meðal annars undir heimspeki og stjórnmálafræði. Þau miða að því að byggja upp almennan þekkingargrunn á samfélags- og menningarmálum og hæfni til þess að greina og vinna með hugmyndir þar að lútandi á gagnrýninn og skapandi hátt. Þá ljúka nemendur 60 ECTS einingum í miðlunar og markaðsfræðum. Námskeið í þessum hluta miða að því að þjálfa nemendur í framsetningu og miðlun hugmynda með hliðsjón af ólíkum markhópum, almannatengslum og samskiptum innan stofnana og fyrirtækja. Nemendur eru stöðugt hvattir til að þjálfa og þroska sjálfstæða hugsun og nýta sér námið til þess.
Námskeið í miðlun og almannatengslum eru skipulögð með tilliti til mikillar verkefnavinnu en auk þess vinna nemendur í hópum að rannsóknum og úrlausn sjálfstæðra hópverkefna – svonefndra misserisverkefna, sem eru kynnt og lögð í dóm kennara og samnemenda. Nemendur gera tvö slík verkefni á námstímanum. Samhliða misserisverkefnum fá nemendur markvissa þjálfun í verkefnastjórnun.
Á fyrsta námsári taka nemendur fjögur námskeið (samtals 18 ECTS einingar) um aðferðafræði og vinnubrögð. Náminu lýkur með 14 eininga BA ritgerð.
Umsóknarfrestur er 15. júní fyrir haustönn og 10. desember fyrir vorönn.
Námsskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.
Umsjón með námslínu: Njörður Sigurjónsson er forseti félagsvísinda- og lagadeildar, staðgengill hans er Helga Kristín Auðunsdóttir.