BA í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði

HHS er nám sem hefur að markmiði að búa nemendur undir framhaldsnám og þátttöku á atvinnumarkaði jafnt innlanlands sem á alþjóðlegum vettvangi. Í því fléttast saman þrjár grunngreinar hug- og félagsvísinda sem jafnan eru kenndar hver í sínu lagi. Með því að nýta aðferðir og innsýn þessara þriggja greina saman, verður til óvenjulegt og innihaldsríkt grunnnám sem gerir nemendum mögulegt að skilja hvernig ólík sjónarhorn fræðanna geta unnið saman.

Bifröst er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í HHS. Námsbrautin er sniðin að breskri fyrirmynd og nýtur hún virðingar og vinsælda þar í landi. Námið miðar að því að veita víðtæka og fjölþætta þekkingu á gangverki nútímasamfélags auk þess að efla gagnrýna hugsun og búa einstaklinga undir krefjandi störf á vinnumarkaði og virka þátttöku í þjóðfélagsumræðu.

Sérstaða að loknu námi

HHS er góður undirbúningur fyrir hvers kyns störf t.d. á vettvangi stjórnsýslu (í ráðuneytum, stofnunum og hjá sveitarfélögum), það nýtist vel við fjölmiðlastörf, kennslu og í störfum hjá mannúðarsamtökum eða við alþjóðastofnanir, svo einhver dæmi séu nefnd. Margir HHS-ingar starfa einnig hjá fyrirtækjum, stórum sem smáum, og sumir hafa stofnað eigin fyrirtæki. HHS er einnig fyrirtaks undirbúningur undir frekara háskólanám, t.d. í hagfræði, stjórnmálafræði, alþjóðasamskiptum, þróunarfræði, menningarfræði eða heimspeki og gagnast einnig vel sem grunnur fyrir stjórnunarnám (t.d. MBA eða MPA). 

Framvinda og námslok

Námskeið í HHS eru skipulögð með tilliti til mikillar verkefnavinnu en auk þess vinna nemendur í hópum að rannsóknum og úrlausn sjálfstæðra hópverkefna - svonefndra misserisverkefna, sem eru kynnt og lögð í dóm kennara og samnemenda. Nemendur gera tvö slík verkefni á námstímanum. Samhliða misserisverkefnum fá nemendur markvissa þjálfun í verkefnastjórnun. Á Bifröst gefst nemendur kostur á að ljúka námi á tveimur og hálfu ári þar sem boðið er upp á nám á sumarönn. Nemendur geta því lokið 80 ECTS einingum á ári í stað 60. Með þessu móti er hægt að ljúka námskeiðum að mestu leyti á fyrstu tveimur námsárum, en á þriðja ári gera nemendur lokaverkefni auk þess að ljúka einingum sem eftir eru með starfsþjálfun eða valnámskeiðum.

Inntökuskilyrði

Til að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.

Umsóknarfrestur er 15. júní fyrir haustönn og 10. desember fyrir vorönn. 

Námið jók víðsýni mína og setti hlutina í stærra samhengi. Kennsla í heimspeki, þar á meðal siðfræði, er eitthvað sem allir sem starfa við stjórnmál, ættu að vera skyldugir til þess að læra.

- Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir,
framkvæmdastjóri Pírata, útskrifuð með BA gráðu í HHS

Námskrá

Námskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá skólans.

Námsskrá fyrir BS viðskiptalögfræði, BS viðskiptalögfræði með vinnu, BA miðlun og almannatengsl (MoA), BA heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS), Diplómu í opinberri stjórnsýslu og BA í opinberri stjórnsýslu 2019 - 2020

Umsjón með námslínu: Njörður Sigurjónsson er forseti félagsvísinda- og lagadeildar, staðgengill hans er Helga Kristín Auðunsdóttir.