Verkfærakista markaðsfólksins

Verkfærakista markaðsfólksins

Í námskeiðinu munu þátttakendur læra að nýta samfélagsmiðla og hefðbundna fjölmiðla til að koma hugmynd sinni, vöru eða þjónustu á framfæri. Þeir munu einnig læra að útbúa eigið kynningarefni. Mikið er lagt upp úr hagnýtri þjálfun í markaðssetningu á samfélagsmiðlum, öruggri tjáningu í kynningum og markaðsstarfi. Nemendur fá leiðsögn í að útbúa eigið efni á ýmsu formi og koma því á framfæri. Við lok námskeiðs hafa nemendur útbúið vídeókynningu á fyrirtæki sínu eða hugmynd og verið í fréttaviðtali um það. Nemendur fá upptökur sínar til eignar og geta nýtt þær sem kynningarefni.

Námskeiðið hentar öllum sem vilja læra hvernig þeir geta komið sjálfum sér, hugmynd sinni, fyrirtæki, vöru eða þjónustu á framfæri. Námskeiðið er öllum opið  

Fyrirkomulag

Námskeiðið er blanda af staðnámi og fjarnámi. Það fer fram á tveimur staðlotum á Bifröst þar sem samvera og útivist í umhverfi Bifrastar er fléttuð inn í dagskrána auk þess sem þátttakendur hafa aðgang að fyrirlestrum og verkefnum í kennslukerfi.

Verð fyrir námskeiðið er 198.000kr. Innifalið í verði er kennsla og dagskrá staðlota, gisting og veitingar. Þátttakendur gista í einstaklingsherbergjum í sex svefnhbergja íbúðum sem eru með sameiginlegu eldhúsi, setustofu og baðherbergi. 

Umfang námskeiðsins jafngildir 5 framhaldsskólaeiningum á hæfniþrepi 2 og geta þátttakendur því búist við að verja um 90-120 klst í vinnu við námskeiðið. Þar af eru um 40-45 klst á staðlotum og fundum.

Dagskrá

Kynningarfundur verður í Reykjavík fimmtudaginn 26. janúar kl. 17

Staðlotur á Bifröst verða 4.-5. febrúar og 25.-26. febrúar. Þátttakendur vinna sjálfir að verkefnum á milli staðlota og kennsluefni verður aðgengilegt á Canvas.

Uppskeruhátíð og útskrift verður föstudaginn 10. mars

Kennarar

Kennarar námskeiðs eru Sirrý Arnardóttir, Jón Freyr Jóhannesson og Atli Björgvinsson.

Sirrý á að baki 30 ára farsælan feril í fjölmiðlum. Hún stýrði útvarps- og sjónvarpsþáttum um árabil, ritstýrði tímariti, starfaði sem blaðamaður og við almannatengsl. Er með próf í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og sótti framhaldsnám á vegum Utanríkisráðuneytisins hjá bandarískri fjölmiðlasamsteypu víðs vegar um USA. Hefur skrifað 8 bækur m.a. ,,Örugg tjáning – betri samskipti”. Sirrý hefur rekið sig sem fyrirtæki í fjölda ára, verið framkvæmdastjóri góðgerðasamtaka, haldið fyrirlestra og námskeið víða um land og á Spáni og kennt við Háskólann á Bifröst síðan 2008. www.sirry.is

Jón Freyr Jóhannsson er lektor við Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst frá 2008. Jón Freyr hefur BSc. gráðu í tölvunarfræði, meistaragráðu í viðskiptafræði og auk þess kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum. Hann hefur frá 2008 kennt fjölda námskeiða í Háskólagátt, Símenntun og í háskóladeildum á Bifröst, m.a. í upplýsingatækni og stærðfræði. Jón Freyr kenndi áður við Háskólann í Reykjavík frá árinu 2000 en einnig  við aðrar menntastofnanir frá 1990. Auk þess hefur hann reynslu á sviði stjórnunar og ráðgjafar á sviði stefnumótunar, upplýsingatækni, sjálfsmats fyrirtækja og gæðastjórnunar í rúm þrjátíu ár. Áherslur Jóns Freys í rannsóknum eru á sviði kennslufræði og þróunar kennsluaðferða.

Atli Björgvinsson er stundakennari við Háskólann á Bifröst, en hann kennir námskeið um Stjórnun samfélagsmiðla í grunnnámi og námskeiðið Stafræn markaðsstjórnun í meistaranáminu. Hann starfar einnig við stafræna markaðssetningu fyrir fyrirtæki á borð við Samsung, Marel, Háskólann á Bifröst og fleiri.

Styrkur

Mörg stéttarfélög bjóða upp á styrki vegna námskeiða. Kannaðu málið hjá þínu stéttarfélagi.

Umsóknarfrestur og skráning

Umsóknarfrestur er til 12. janúar 2023

Allar nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu endurmenntun@bifrost.is.

Endurmenntun Háskólans á Bifröst áskilur sér rétt til að fella niður námskeið ef ekki næst lágmarksskráning. Lágmarksfjöldi þátttakenda er 13.

 

Skráning


Stjörnumerkta (*) reiti verður að fylla út.